"Þar sem þjóðlenda er ekki sama og ríkisland hafði þannig íslenska ríkið í raun ekki greitt sinn hlut í Landsvirkjun."

TILEFNI þess að þetta greinarkorn er ritað er það kosningamál sérframboðs Kristjáns Pálssonar að beita sér gegn því hvernig fjármálaráðherra hagar lögskipuðu fyrirsvari sínu í þjóðlendumálum. Eins og þetta stefnumál er kynnt felur það í sér að dreginn er taumur þeirra, sem krefjast séreignarréttar að landi, gegn hagsmunum þjóðarheildarinnar af því að eiga eitthvað af landinu, sem þjóðin býr í. Vaknar þá óneitanlega upp spurningin um hvað stjórnmál snúist.

Þrígreining ríkisvalds

Íslensk stjórnskipun gerir ráð fyrir þrígreiningu ríkisvalds. Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Stjórnmálamennirnir, sem kosnir eru til þingsetu af þjóðinni setja lög, sem framkvæmdavald og dómsvald fara eftir og virða. Alþingi kýs samkvæmt sérstökum lögum umboðsmann Alþingis til þess að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja þannig rétt borgaranna. Þessi umboðsmaður er óháður þinginu í störfum sínum. Sömuleiðis eru dómstólar óháðir Alþingi í störfum sínum.

Þjóðareign að landi og auðlindum

Alþingi setti það í lög árið 1990, að nytjastofnar á Íslandsmiðum væru sameign íslensku þjóðarinnar. Í sömu lögum eru ákvæði um nýtingu þessarar sameignar, sem er hitamál í íslenskum stjórnmálum. Árið 1998 samþykkti Alþingi svonefnd þjóðlendulög, en þar er mælt fyrir um þjóðareign að landi utan eignarlanda og heitir þetta land þjóðlenda. Hér er ekki um eiginlega ríkiseign að ræða, heldur sameign íslensku þjóðarinnar Til þess að ákvarða mörkin á milli eignarlanda og þjóðlendu mæltu þjóðlendulögin fyrir um skipun sérstakrar nefndar, óbyggðanefndar. Þetta er ekki dómstóll, en sé úrskurðum nefndarinnar ekki skotið til dómstóla innan sex mánaða frá birtingu þeirra, teljast þeir endanlegir. Þannig má segja að óbyggðanefnd sé á ákveðinn hátt hluti af dómsvaldinu í landinu.

Málsforræði

Í einkamálum, sem rekin eru fyrir dómstólum, gildir sú regla, að aðilar geta gert kröfur sem ganga skemur, en réttur þeirra og þeir geta gert magrar sáttir. Þetta heitir málsforræðisregla. Aðilar eiga rétt á að ráðstafa sakarefni. Alþingi ákvað aðra skipan á meðferð mála fyrir óbyggðanefnd og er nefndin þannig ekki bundin af kröfum aðila. Þannig er tryggt að ekki verður misfarið með forræði fyrir þjóðlendur. Þetta hefur þingmönnum þótt nauðsynlegt til þess að strax væru settar skorður við því að reynt væri að hafa pólitísk eða önnur áhrif á kröfugerð og þannig meðferð mála fyrir nefndinni.

Kröfur um einkaeignarrétt

Á svæðinu frá Hvalnesi til Þingvalla hafa borist kröfur um einkaeignarrétt, þannig að allt land er undir og ekki gert ráð fyrir þjóðlendu, nema á jökli. Ég hef lengi furðað mig á því að enginn virðist gefa þessu gaum eða gera athugasemdir. Í landinu eru mörg félög útivistarfólks, landlausra Íslendinga og ekkert heyrist í þeim. Á þessu svæði eru t.d. undir ferðamannastaðir eins og Lónsöræfi, Núpsstaðaskógur og Þórsmörk. Hvað verður um þessa staði, ef þeir verða ekki úrskurðaðir þjóðlenda og aðilar eignast landið, sem ekki vilja átroðning á eignarland sitt?

Þjóðlendukröfur

Kröfur um þjóðlendur ná á þessu sama svæði í sumum tilvikum inn í þinglýst landamerki. Óhjákvæmilegt hefur þótt að óbyggðanefnd færi yfir mörk jarða gagnvart óbyggðum, þar sem engan var við að semja, er landamerkjum var einhliða lýst inn til landsins fyrir 100 árum. Óbyggðanefnd hefur úrskurðað hluta úr jörðinni Þingvelli samkvæmt þinglýstu landamerkjabréfi þjóðlendu. Óbyggðanefnd hefur sömuleiðis úrskurðað Búrfell og Skeljafell þjóðlendu. Þetta land keypti Einar Benediktsson upphaflega af bændum í Gnúpverjahreppi og seldi það Títan h/f. Títan seldi það svo íslenska ríkinu, sem lagði það sem sinn eignarhlut í Landsvirkjun. Óbyggðanefnd taldi landið ekki hafa verið eign bændanna og samningar og afsöl síðar breyttu ekki þeirri niðurstöðu og í því sambandi réð þinglýsing eignarheimildanna ekki úrslitum. Þar sem þjóðlenda er ekki sama og ríkisland hafði þannig íslenska ríkið í raun ekki greitt sinn hlut í Landsvirkjun.

Eftir Ólaf Sigurgeirsson

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.