Hell is for Heroes: Nægar tilfinningar, lítil hætta.
Hell is for Heroes: Nægar tilfinningar, lítil hætta.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónleikar sem fram fóru fimmtudaginn 13. mars á Gauki á Stöng. Fram komu íslensku hljómsveitirnar Brain Police og Mínus og breska sveitin Hell is for Heroes.

ÞAÐ sem er svo yndislegt við rokkið er hversu síbreytilegt það er. Í eyrum andsnúinna er það alltaf sama ræflarokkið en sannir rokkhundar þrífast á þessum breytingum. Tónleikarnir á Gauknum síðastliðinn fimmtudag voru sannarlega rokktónleikar, háværir og hressilegir. Þar komu fram þrjár ólíkar rokksveitir sem allar eiga þó sammerkt að vera talandi dæmi um vissar áherslubreytingar sem átt hafa sér stað undanfarið í rokkinu.

Ef gerð er heiðarleg tilraun til að henda reiður á einhverjum rauðum þræði í breytingum sem þessar annars ólíku sveitir hafa gengið í gegnum kemur fyrst upp í hugann orðið tilfinning, svo kraftur, melódía og tilraunagleði. Um leið mætti alhæfa að fyrir vikið sé rokkið á margan hátt að verða aðgengilegra en oft áður, og á ég þar sérstaklega við það sem hingað til hefur þótt í harðari kantinum. Þetta sýndu allar sveitirnar á umræddum tónleikum, Brain Police, Hell is for Heroes og Mínus, því einhvern tímann hefðu þær þótt tormeltar og láta harkalega í eyrum.

Fyrst á svið var Brain Police, sú rokksveit íslensk sem mest er látið með um þessar mundir, sbr. verðlaunahátíð X-ins, sem á jú að vera "eina radíóið sem rokkar". Og vissulega er sveitin á réttri leið, orðin skuggalega þétt og loksins komin með rétta söngvarann. Enn sem komið er vantar þó nokkuð upp á frumleikann eins og glögglega mátti heyra á tónleikunum, þar sem andi gömlu gruggaranna í Screaming Trees og Soundgarden sveif helst til þungt yfir vötnum - nokkuð sem sumum þykir reyndar bara hið besta mál.

Hell is for Heroes er bresk sveit sem á sér fortíð í indírokkinu en virðist hafa "frelsast" með tilkomu At the Drive-In og Refused, líkt og svo margar aðrar breskar rokksveitir um þessar mundir - minniháttar sena er nú grasserandi í landi tjallanna þar sem í fararbroddi eru sveitir á borð við Hundred Reasons og A. Hell is for Heroes er kannski ögn myrkari en þær sveitir en samt ekki nærri því nógu hættuleg til að hrífa mann. Hugmyndirnar eru vissulega margar mjög frambærilegar og krafturinn fínn á köflum en lagasmíðarnar standa enn sem komið er ekki undir þessum krafti og rödd Justins Schlosbergs virkar og fullveikburða, þótt sannarlega skorti hann ekki tilfinninguna.

Annars er ómögulegt að segja, kannski er Hell is for Heroes hið fínasta band og á barmi þess að gera allt vitlaust. Málið er bara að hún var í þeirri vandasömu og hreint ekki öfundsverðu stöðu að vera á sviði næst á undan Mínus. Þar fara sannarlega heljarinnar hetjur. Líkt og Brain Police er Mínus nú í miðjum klíðum að taka upp plötu og ef dregin verður ályktun af þessum tónleikum erum við að tala um að þriðja plata Mínuss verði ekkert minna en tímamótaverk. Þvílíkar framfarir, þvílík frjósemi! Virkir rokkhundar hafa tekið eftir kúvendingu þeirri sem orðin er á tónlist þessarar öflugustu rokksveitar sem fram hefur komið hérlendis um árabil. Án þess að hafa misst snefil af orku eða háska virðist sem sveitin hafi tekið út vissan þroska - nauðsynlegur öllum hljómsveitum - og er fyrir vikið farin að búa til mun fjölbreyttara og hugmyndaríkara rokk sem dregur dám af upphafinu, Big Star og Stooges, um leið og það er eitthvað alveg nýtt. Á tónleikunum sýndi Mínus líka að besta íslenska lag síðasta árs, "Romantic Exorcism", var engin hundaheppni heldur er meira slíkt að fæðast. Svo er þetta líka orðin svo mikil hljómsveit, karakterinn svo sterkur, allir liðsmenn með sinn afgerandi sjarma; Frosti og Bjarni stoðin, Bjössi trommari drifkrafturinn og Krummi besti frontur sem hljómsveit getur haft, fæddur rokkkóngur í hlébarðaskyrtunni sinni. Og ef það var ekki nóg þá er nettur Gene Simmons líka genginn í bandið í líki Þrastar, nýja bassaleikarans, sem bauð upp á sýnikennslu á öllum alvöru rokkfrösum og -töktum sögunnar. Frábær liðsauki það.

Það var mikið rokk á Gauknum á fimmtudaginn var, rokk í þremur birtingarmyndum; Brain Police úti á eyðimörkinni og Hell is for Heroes í tilfinningaflækju. Hetjurnar voru Mínus, sveit sem ráðið getur hvort hún stefnir til himins eða heljar.

Skarphéðinn Guðmundsson