MIKILL erill var hjá lögreglu um helgina, mest vegna ölvaðs fólks sem var að slást eða olli ónæði og óþægindum. Um helgina voru 10 ökumenn grunaðir um ölvun við akstur og 59 um of hraðan akstur.

MIKILL erill var hjá lögreglu um helgina, mest vegna ölvaðs fólks sem var að slást eða olli ónæði og óþægindum. Um helgina voru 10 ökumenn grunaðir um ölvun við akstur og 59 um of hraðan akstur. Þá var tilkynnt til lögreglu um 27 umferðaróhöpp með eignatjóni þrátt fyrir ágæt akstursskilyrði.

Síðdegis á sunnudag var tilkynnt um bílveltu á Reykjalundarvegi við Varmá og að tveir ungir piltar hefðu hlaupið á brott frá bifreiðinni. Annar þeirra náðist fljótlega.

Á föstudag datt eldri kona á svellbunka nálægt Háskóla Íslands og slasaðist á höfði og baki. Var hún flutt á slysadeild með sjúkrabifreið. Þá var dýrum barnavagni stolið úr geymslu í Árbæjarhverfi. Síðdegis á föstudag hrasaði kona um mottu í anddyri verslunarhúss í austurborginni. Hún var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild en talið var að hún hafi axlarbrotnað.

Ökumaður með illt í hyggju?

Rólegt var yfir fólki í miðborginni framan af aðfaranótt laugardags. Er líða tók á nóttina var nokkrum sinnum kallað eftir aðstoð lögreglu en ekki var um alvarleg mál að ræða. Einn maður fór í sjóinn í Reykjavíkurhöfn við Miðbakka en var bjargað. Höfð voru afskipti af ölvuðu fólki og því komið í leigubifreiðar. Einn maður var handtekinn grunaður um líkamsárás en sleppt að lokinni yfirheyrslu. Um hádegi á laugardag var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr bifreið sem stóð á Grettisgötu. Brotin var hliðarrúða og stolið dýrri stafrænni myndavél. Þá var par staðið að þjófnaði í verslun við Laugaveg. Höfðu þau tekið nokkuð af matvöru. Á konunni fannst bók sem hún viðurkenndi að hafa tekið í annarri verslun og einnig var hún með bol sem maðurinn hafði tekið í þriðju versluninni. Öllum þessum hlutum var komið til skila og parinu sleppt að loknum yfirheyrslum en það er vel þekkt hjá lögreglu.

Mótmæli voru fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna frá kl. 14:00-15:00, um 50 manns voru á vettvangi og fóru mótmælin friðsamlega fram. Síðdegis var tilkynnt um reykskynjara í gangi í íbúð í Breiðholtshverfi og mikla brunalykt. Þarna hafði matur brunnið á eldavél og mikill reykur myndast í íbúðinni. Maður og kona fengu snert af reykeitrun og voru flutt á slysadeild. Litlar skemmdir urðu í íbúðinni af völdum reyks.

Á laugardagskvöld reyndi maður að skipta tveimur fölsuðum 5.000 króna seðlum í söluturni í austurborginni. Aðfaranótt sunnudags var óskað eftir aðstoð á veitingahúsi í miðborginni. Þar höfðu tveir menn lamið þann þriðja. Hann var fluttur á slysadeild og voru nokkur spor saumuð í andlit hans. Árásarmennirnir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu en í fórum þeirra fannst lítilræði af fíkniefnum.

Þá hringdi stúlka, sem kvaðst hafa hitt mann í miðbænum sem hafi boðið henni far. Í stað þess að aka henni heim hafi maðurinn reynt að aka henni í Öskjuhlíð en henni tókst með fortölum að fá hann til að hætta við það. Stúlkan sagði mann þennan ekki hafa skaðað sig en hún var mjög skelkuð og í uppnámi.

Börn á flæðiskeri

Mikið var um slagsmál milli ölvaðra manna þessa nótt en ekki hlutust nein alvarleg meiðsli af þeim.

Síðdegis á sunnudag tilkynnti vegfarandi um börn sem hugsanlega væru á flæðiskeri innst í Grafarvogi. Lögreglumaður óð út að skerinu og bar tvær 8 ára stúlkur í land.

Þá var tilkynnt um innbrot í geymslukjallara í húsi í austurborginni. Brotinn milliveggur og stolið notuðum eldunartækjum fyrir veitingastaði. Kvartað var vegna manna sem voru að spila golf innan um gangandi vegfarendur á Miklatúni. Golfararnir voru fengnir til að hætta leiknum. Á sunnudagskvöld var tilkynnt um eld í þvottavél í Breiðholtshverfi. Vélin var í þvottaherbergi inn af eldhúsi. Íbúi slökkti eldinn með slökkvitæki. Slökkvilið reykræsti.

Klukkan 19:00 var allstór hópur fólks samankomin á Lækjartorgi. Þar var verið að mótmæla stríði í Írak.