Myndbandsverk Steinu Vasulka.
Myndbandsverk Steinu Vasulka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til 11. maí. Opið 11-17 alla daga nema mánudaga.
ÍSLENSKT landslag virðist í fljótu bragði vera viðfangsefni sýninganna þrigga sem nú má sjá í Listasafni Íslands. En hvert er viðfangsefni málara fyrst og síðast? Er það ekki málverkið sjálft? Á sýningum þeirra Ásgríms og Georgs, málara sín hvorrar aldar, kemur eilíf glíma þeirra við miðilinn jafnt sem myndefnið klárlega í ljós og eins og jafnan á yfirlitssýningum er spennandi að fylgjast með þróun beggja og breytingum í gegnum árin. Eins má segja að Steina Vasulka sé ekki síður að fást við myndbandið sem miðil eins og íslenska náttúru í verki sínu Mosi og hraun frá árinu 2000. Og ekki má gleyma spurningunni um guðdóminn.

Ásgrímur Jónsson

Ásgrímur Jónsson átti að baki um sextíu ára feril þegar hann lést árið 1958 og eftirlét íslenska ríkinu allar eigur sínar, listaverk og húseign og fór fram á að listaverkin yrðu varðveitt í húsinu við Bergstaðastræti þar til nýtt safn yrði byggt. Ásgrímssafn við Bergstaðastræti var sjálfstætt safn til 1987 er það var sameinað Listasafni Íslands. Nú er Ásgrímssafn sérstök deild í listasafninu auk þess sem verk Ásgríms eru sýnd með öðrum verkum safnsins eins og gert er nú og gert hefur verið reglulega.

Ásgrímur Jónsson (1876-1958) var frumkvöðull í íslensku landslagsmálverki. Málverk hans nutu frá upphafi hylli landsmanna sem sáu birtast í þeim sterka föðurlandsást. Eitt af uppáhaldsmyndefnum Ásgríms var Húsafellsskógur sem hann hefur sjálfur lýst á þá leið að þar væru tré með geysisterkum persónueinkennum, sum þjáð og líkt og blæddi úr þeim en önnur breiddu sig mjúklega mót sólu. "Þetta minnti mig iðulega á hlutskipti fordæmdra og útvaldra ...," sagði hann. Hann talaði líka um mikla fjölbreytni og um allar hugsanlegar "manngerðir" hjá trjánum. "Sum þeirra voru kenjótt," sagði hann. "Ég málaði einu sinni eitt þessara trjáa með afar dökkum himni á bak við sem skipaði í því afar merkilegt ljós líkt og birtan kæmi innan frá því sjálfu. En það gaf aldrei framar færi á sér við slíkar aðstæður öll þau ár sem ég var þarna að verki."

Það var ekki bara náttúran sem Ásgrímur glímdi við heldur líka málverkið sjálft. Á efri árum breyttist stíll hans nokkuð eins og sjá má glöggt á sýningunni í listasafninu, mjúkir, þunnir jarðlitir þykkna, breytast, leysast upp í tjáningarríka, heita og sterka liti. Ásgrímur sá mynd eftir van Gogh á námsárum sínum í Höfn og heillaðist þá þegar af verkum hans, síðar á ævinni kynntist hann verkum hans og impressionistanna betur og höfðu þau mikil áhrif á málverk hans.

Það er vel gert hjá listasafninu að sýna verk Ásgríms í samhengi við samtímalist eins og nú er gert, landslagsmálverkið er enn lifandi og spennandi viðfangsefni myndlistarmanna í dag og ég gæti trúað því að nýjar kynslóðir geti umgengist verk eldri íslenskri málara af meira umburðarlyndi nú en fyrir nokkrum árum eða áratugum. Mér sýnist yngri listamenn í dag ekki hika við að sækja til fortíðar í verkum sínum sem betur fer. Kannski fer nú líka þessari innihaldslausu og leiðu tuggu um miðla, málverk eða ekki málverk o.s.frv. að linna og fram kemur ný og fordómalaus kynslóð listamanna sem nálgast listina með opnum hug sama hvort hún kemur fram sem málverk eða myndband.

Þegar álfar og tröll voru hluti af raunveruleikanum

Fyrir þremur árum fékk Einar Már Guðvarðarson, sem rekið hefur Ljósaklif í Hafnarfirði, Steinu Vasulka til að vinna verk sérstaklega fyrir Ljósaklif út frá þemanu hraun. Það er gaman að bera orð Steinu Vasulka í þessu sambandi saman við tengsl Ásgríms Jónssonar við íslenskt landslag, að ógleymdum álfum og tröllum sem skipa stóran sess í myndheimi hans. Þar er tæpast hægt að tala um kynslóðabil eða breytt viðhorf á nýjum tímum, þó að úrvinnsla þessara listamanna sé síðan ólík á yfirborðinu.

"Ástarsamband mitt við hraun byrjaði í barnæsku," sagði Steina, "þegar álfar og tröll voru hluti af raunveruleikanum. Ég man að ef ég starði nógu lengi á hraunbreiðu byrjaði hún að hreyfast og jafnvel gefa frá sér hljóð. ... Ef Guð er alls staðar er nærvera hans vissulega áþreifanleg í hrauni og mosa."

Myndband Steinu sem nú er sýnt í listasafninu ber nafnið Mosi og hraun og er sannarlega áhrifamikið og flott listaverk sem sýnir á magnaðan hátt smáheim íslensks landslags, árstíðaskipti, litbrigði og áferð. Í meðförum Steinu lifnar landið við og kemur áhorfandanum sífellt á óvart á hrífandi hátt. Hér sést augljóslega hversu spennandi verk er hægt að vinna úr hefðbundnu viðfangsefni íslenskra myndlistarmanna. Verkið Hraun og mosi er myndlistarmönnum sannkölluð hvatning, ekki bara sýnir það hvað hægt er að vinna áhrifamikil verk ef ímyndunaraflið er fyrir hendi heldur minnir það líka á möguleika myndbandsins sem sjónræns miðils en þeir eru margir þótt fáir nýti sér þá hér, myndbandið er oft notað sem gamaldags segulband, í heimildarskyni. Auðvitað eru til undantekningar, stórgóð verk þeirra Tuma Magnússonar og Finnboga Péturssonar í Kúlunni eru til dæmis nýlegur vitnisburður um það.

Í fjarska

Þegar Ásgrímur hóf að mála landslag voru fyrstu myndir hans samkvæmt lögmálum landslagsmálara fyrri alda, skiptust í forgrunn, miðgrunn og bakgrunn. Bakgrunnurinn, í fjarska, einkenndist gjarnan af bláma, óræðri fjarlægð, stundum sveipaðri mistri.

Það má ímynda sér að Georg Guðni hafi nú í landslagsmálverkum sínum einangrað þennan hefðbundna þátt og gert hann sérstaklega að myndefni sínu.

Fjarlægðin sem slík hefur verið ríkur þáttur í landslagsmyndum gegnum tíðina og líklega náð hámarki í rómantískum verkum eins og t.d. hjá Caspar David Friedrich.

Um landslagsmálverk og fjarlægðina segir R.M. Rilke m.a. "Til að geta miðlað eða verið efniviður sjálfstæðra listaverka þarf að sjá landslagið sem eitthvað fjarlægt og ókunnugt, ... það þarf að vera langt í burtu og ólíkt okkur til að geta birt eitthvað sem er í líkingu við líf okkar og örlög. Upphafið, en á sama tíma allt að því óvinveitt til að geta gefið hinu daglega umhverfi okkar nýja merkingu." Þessi orð eiga vel við málverk Georgs Guðna, kannski sérstaklega þau nýjustu sem eru að mínu mati hans bestu hingað til, þar sem allt þekkjanlegt landslag er horfið og eftir er einungis mistur fjarlægðarinnar.

Franski rithöfundurinn Paul Claudel sagði fjarlægðina vera sálinni það sem þyngdaraflið væri líkamanum. Getur verið að fjarlægðin sé sál okkar nauðsynleg? Líkt og þyngdaraflið heldur líkamanum á sínum stað í rýminu getur fjarlægðin hjálpað okkur að gera okkur grein fyrir okkar andlega rými? Við erum hér, allt annað er þar.

Kannski er það eitthvað þessu líkt sem gerir það að verkum að nýjustu verk Georgs Guðna líkt og soga áhorfandann til sín um leið og þau gefa ekki allt of mikið uppi um innihald sitt heldur láta áhorfandanum eftir að fylla í eyðurnar.

Þessi mikla óræðni sem einkennir nýjustu verkin skapar möguleika á að líta á þau sem fleti sem fá hugann til að reika og það má jafnvel ímynda sér að þau gætu sómt sér sem altaristöflur. Þannig má sjá trúarlega afstöðu birtast í verkum þessara þriggja: Ásgrímur sá hina útvöldu og fordæmdu birtast í náttúrunni og það er hægt að setja þau orð hans í samhengi við hugmyndir fyrri alda um að í landslagi mætti sjá sönnun á krafti og tilveru guðdómsins. Steina finnur nærveru Guðs áþreifanlega í mosa og hrauni og loks eru það málverk Georgs Guðna sem bjóða samtímanum innhverfa íhugun á tímum þegar mörg okkar trúa á eitthvað æðra okkur sjálfum en við vitum kannski ekki alveg hvað það er.

Ferðalag á striga

Líkt og hjá Ásgrími er gaman að sjá yfirlit yfir þetta nú tveggja áratuga ferðalag Georgs Guðna á striganum. Það kemur varla á óvart að stundum virðist manni listamaðurinn fara í hring, snertifleti við málverk dagsins í dag má sjá í verkum frá upphafi níunda áratugs, það er í samræmi við vinnu hans að öðru leyti. Líkt og Helgi Þorgils sem nú sýnir á Kjarvalsstöðum hefur Georg Guðni verið verki sínu trúr frá upphafi, hann hefur farið í ýmsar áttir en aldrei vikið langt af leið.

Það sem helst skilur Georg Guðna frá þeim Ásgrími og Steinu er hversu sterkt afl miðillinn sjálfur er í verkum hans, málverkið sjálft og möguleikar þess og staða í samtímanum er ofarlega á baugi eins og eðlilegt er í dag. Þó að þessir listamenn glími öll við miðilinn er það helst í verkum Georgs Guðna sem áhorfandanum verður hugsað sérstaklega um miðilinn sem slíkan. Það eina sem spillir ánægjunni af sterkum og áhrifaríkum verkum hans er hversu þröngt þeim er stakkur búinn í safninu, þessi málverk kalla hvert um sig á kyrrstöðu og þögn og njóta sín ekki til fulls þegar augu áhorfandans hvarfla auðveldlega frá einni mynd til annarrar. Hér er þó um yfirlitssýningu að ræða og sá þáttur hefur eðlilega yfirhöndina.

Sýningarnar þrjár í listasafninu eru allar góðar hver í sínu lagi og styrkjast og eflast við nærveru hver annarrar. Þær eru auk þess afar aðgengilegar og vonandi að sem flestir drífi sig að skoða.

Ragna Sigurðardóttir