STRÁKARNIR hjá Flugleiðum standa í stórræðum þessa dagana.
STRÁKARNIR hjá Flugleiðum standa í stórræðum þessa dagana. Þeim hefur tekist að reita hálfa kvenþjóðina til reiði með tvíræðum auglýsingum sínum í erlendum fjölmiðlum um ferðir til Íslands, en þeir eru sakaðir um að "selja vöru sína með nakinn og viljugan líkama íslensku konunnar sem sitt helzta markaðssetningartól" svo vitnað sé í orð Þórdísar Bachmann í grein hennar "Svona gera menn ekki". Fulltrúar hinna ýmsu kvenréttindahreyfinga og jafnréttismála hafa gagnrýnt þessar auglýsingar og lögsókn hefur verið hótað.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir lögfræðinga fyrirtækisins hafa farið yfir auglýsingarnar og þeir séu á einu máli um að þær brjóti ekki jafnréttislög. Hann telur líka að það lýsi ótrúlegu hugarfari að segja auglýsinguna "Fancy a dirty weekend?" bjóða íslenskar konur sem ódýran kynlífskost, en sú auglýsing birtir mynd af hópi fólks sem er atað hvítri leðju úr Bláa lóninu. Guðjón bendir á að náttúruverndarsamtök hvetji fólk til að setja niður gróður undir þessu slagorði og að hugmyndin sé vitanlega sú að tengja saman óhreinindi (sem fylgi t.d. lagningu göngustíga, gróðursetningu eða þvotti í Bláa lóninu) og létt erótíska kímni. Hugtakið vísi til þeirrar hefðar breskra hjóna að stinga af frá heimilisamstrinu og fara eitthvað saman yfir helgi. Það er rétt til getið hjá Guðjóni að strangt til tekið beinist auglýsing af þessu tagi ekki að íslenskum konum, því að venjulega fara pör saman í "sóðaferðir" af þessu tagi. Hér er sem sagt strangt til tekið verið að auglýsa Ísland sem áfangastað tiltölulega skammt frá Englandi (hægt að skjótast þangað yfir helgi) þar sem bresk hjón geta slappað af og þvegið af sér hversdagsgrámann. Og í hugtakinu felst einnig að þetta þarf ekki að kosta svo mikið (helgarferð).

En túlkun Sóðaferðarinnar verður vitaskuld flóknari þegar hún er lesin í samhengi við aðrar auglýsingar Flugleiða um "Einnar nætur gaman" (One night stand) og möguleika á að áreita fegurðardrottningar (Pester a beauty queen). Hér verður að nægja að benda á að fjölmargir nýir merkingaraukar myndast við slíkan lestur og túlkun þeirra hlýtur jafnframt að vera mótuð af þeim hugmyndum sem útlendingar gera sér um lauslæti á Íslandi. Orðabókarþekkingin ein hrekkur því skammt þegar greina á auglýsingarnar frá Flugleiðum ólíkt því sem ráða má af orðum Guðjóns. Og Flugleiðir hafa ekki einskorðað sig við að auglýsa þvottaferðir í Bláa lónið. Síðasta ágúst birtist frétt í Morgunblaðinu um tölvuleik sem settur hafði verið upp á vefsíðu Flugleiða í Skandinavíu, undir heitinu "Halldor gets lucky in the Blue Lagoon", þar sem strákurinn Dóri eltir uppi konur í lóninu og rífur af þeim bikinítoppana. Fyrir hverja berbrjósta konu fær Dóri stig, en tölvuleikurinn var hluti af herferð sem gekk út á að fjölga félögum í netklúbbi Flugleiða í Skandinavíu.

"Allir sem vinna við markaðsstarf í ferðaheiminum vita að það er slæmt fyrir áfangastað að fá á sig kynlífsstimpil," segir Guðjón. Konurnar vilja kæra, en Guðjón segir málið misskilning, sprottinn af vanþekkingu á þeirri tvíræðni sem finna má í ensku slagorðunum. Þó virðist tvíræðni þeirra allra snúast um það sama. Það er kannski helsti galli þeirra. Auglýsingar Flugleiða erlendis eru ekkert sérlega frumlegar og þegar öllu er á botninn hvolft ekki heldur sérlega djarfar í hugsun.

GUÐNI ELÍSSON