Helga Ingólfsdóttir, semballeikari.
Helga Ingólfsdóttir, semballeikari.
Helga Ingólfsdóttir leikur á Tíbrártónleikum í Salnum á sunnudaginn - en 15 ár eru síðan hún lék síðast einleik á höfuðborgarsvæðinu. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR ræddi við Helgu um tilurð tónleikanna, efnisskrá og tengsl tónskáldanna sem hún spilar.
FRÁ "Strönd til fjarlægra stranda" er yfirskrift Tíbrártónleikanna sem haldnir verða í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs á morgun. Tónleikarnir, sem hefjast klukkan 20, eru nokkur tímamótaviðburður vegna þess að á þeim leikur Helga Ingólfsdóttir semballeikari - en fimmtán ár eru síðan hún hélt síðast einleikstónleika á höfuðborgarsvæðinu. Það þýðir þó ekki að Helga hafi setið auðum höndum þennan tíma, því hennar starfsvettvangur, frá 1975 reyndar, hefur verið Skálholtskirkja þar sem sumartónleikar í Skálholtskirkju standa yfir fimm vikur á hverju sumri.

Á tónleikunum í Salnum leikur Helga Pavane í fís-moll eftir Louis Couperin, Strönd eftir Hafliða Hallgrímsson, Taramgambadi eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, Lamento eftir Oliver Kentish, Krómatíska fantasíu og fúgu í d-moll eftir J.S. Bach, Vorvísu eftir Karólínu Eiríksdóttur, Ach wie nichtig, ach wie flüchtig og Präludium, Fuge und Postludium í g-moll eftir Georg Böhm.

Þegar Helga er spurð hvers vegna hún hafi ekki haldið tónleika á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin fimmtán ár, segir hún það mikið atriði fyrir semballeikara að spila í sölum þar sem er góður hljómburður. "Sembalinn er fornt hljóðfæri, sem á sínum tíma var sterkt hljóðfæri og fyllti út í hvern krók og kima í barroksölum," segir hún. "Þegar ég gerði mér grein fyrir hljómburðinum í Skálholtskirkju, ákvað ég að þar vildi ég helst spila. Eini staðurinn sem hafði svipaðan hljómburð í Reykjavík var Kristskirkja og þar hélt ég síðast tónleika 1988. Stuttu seinna var tekið fyrir leyfi til tónleikahalds þar.

En nú er kominn kammermúsíksalur í Kópavogi sem mig langaði til að prófa og ég er mjög spennt að heyra hvort sembalinn verður aftur sterkt hljóðfæri í þeim sal."

Nú ertu með bæði barrokverk og nútímaverk á efnisskránni. Hvers vegna er hún svona blönduð?

"Efnisskráin ber dálítið keim af því að í Skálholti höfum við staðartónskáld á hverju sumri. Eina skilyrðið sem við setjum er að frumflutt sé eitt nýtt verk, þótt reyndin hafi orðið sú að oft er frumflutt heil dagskrá eftir viðkomandi tónskáld. Á tónleikunum í Salnum ákvað ég að leika verk eftir fjóra af þeim einstaklingum sem hafa verið staðartónskáld.

Verk Hafliða Hallgrímssonar heitir Strönd, og er nafnið á húsinu mínu sem stendur hreinlega í fjörunni á Álftanesi. Hann samdi verkið með útsýnið úr stofuglugganum mínum í huga, þar sem má endalaust njóta samspils sjávar og ljóss. Verk Elínar Gunnlaugsdóttur er einnig hugleiðing um sjóinn, en allt annan sjó; sjóinn í Indlandi. Elínu kynntist ég sem kirkjuverði í Skálholti þegar hún var unglingur. Þar kviknaði þessi mikli áhugi hennar á tónlist og hún ákvað að leggja hana fyrir sig. Karólína Eiríksdóttir er nágranni minn á Álftanesinu og verk hennar er mjög frjálsleg fantasia um vorið, þar sem skiptast á snarpir kaflar og hægir kaflar sem lúta sínum eigin lögmálum. Verk Olivers Kentish er í rauninni harmsöngur og er spunnið upp úr kantötu sem við fluttum í Skálholtskirkju. Sembalinn spilar stórt hlutverk í kantötunni og ég var svo hrifin af því hvaða tökum Oliver tók sembalinn að ég bað hann að semja einleiksverk upp úr strófunum fyrir mig. Mér fannst hann sýna alveg sérstakan skilning á hljóðfærinu.

Barrokverkin sem ég spila eru öll eftir tónskáld sem voru semballeikarar. Það er allt öðruvísi að koma að þeim verkum en verkum nútímatónskáldanna sem eru ekki eins kunnug hljóðfærinu. Gamla tónlistin byggist á óslitinni þriggja alda hefð sembalsins og það er unun að fást við slík verk.

Þessi fjögur barrokverk voru á sínum tíma mjög nýstárleg; þau voru brautryðjendaverk sem mörkuðu djúp spor í tónlistarsöguna. Þess vegna falla þau líka mjög vel að nútímaverkum, þótt 250 ár séu liðin frá því að þau voru samin."

Eru einhver tengsl á milli verka Couperins, Bachs og Böhms?

"Já, heldur betur. Ég hef mjög gaman af því að skoða tengslin á milli þessara þriggja barroktónskálda. Þau eru öll af merkum tónlistarmannaættum, Couperin í Frakklandi, Bach og Böhm í Þýskalandi, en sá síðarnefndi var af Schambach ættinni. Sú ætt var svo til jafn þekkt og Bach-fjölskyldan, þar sem menn voru tónlistarmenn ættlið fram af ættlið.

Það er sérstaklega gaman að lesa um tengsl Böhms og Bachs. Böhm var 24 árum eldri en Bach og starfaði í Lüneburg. Þangað kom Bach fimmtán ára að aldri og starfaði sem kórdrengur til þess að kosta námsdvöl sína þar. Strax þá var Bach þekktur fyrir að hafa sérstaklega fallega sópranrödd og fékk því afar erfið verk til að glíma við. Böhm var tónlistarstjóri við stærstu kirkjuna í Lüneburg. Hann tók Bach upp á sína arma, kynnti fyrir honum samtímaverk og tónskáld, meðal annars frönsk verk og verk Couperins. Þarna mynduðust vinatengsl á meðan báðir lifðu og það er ljóst að Böhm hafði mikil áhrif á tónsköpun Bachs."

Hefurðu leikið Böhm mikið fram til þessa?

"Nei, hann er mín nýjasta uppgötvun og mér finnst yndislegt að kynnast verkum hans. Hann er stórkostlegt tónskáld."