Fjölmenni var á fundi Stígamóta í gær. Rúna Jónsdóttir, fræðslu- og kynningarfulltrúi Stígamóta, er fyrir miðri mynd.
Fjölmenni var á fundi Stígamóta í gær. Rúna Jónsdóttir, fræðslu- og kynningarfulltrúi Stígamóta, er fyrir miðri mynd.
FRAMBJÓÐENDUR flokka, sem bjóða fram til Alþingis í vor, ræddu málefni kynjanna, klám, vændi og annað kynferðisofbeldi á opnum fundi sem Stígamót stóðu að í Hlaðvarpanum í Reykjavík í hádeginu í gær.
FRAMBJÓÐENDUR flokka, sem bjóða fram til Alþingis í vor, ræddu málefni kynjanna, klám, vændi og annað kynferðisofbeldi á opnum fundi sem Stígamót stóðu að í Hlaðvarpanum í Reykjavík í hádeginu í gær.

Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra tók fyrst til máls. Í máli hennar kom m.a. fram að svonefndur kynlífsiðnaður hefði sprottið hratt upp hér á landi að undanförnu og svo virtist sem hann dafnaði vel. Hún benti þó á að eftirlit lögreglunnar með þessum vanda hefði stóraukist. "Lögreglan hefur nú til rannsóknar meint vændisbrot auk þess sem hún hefur nú til athugunar starfsemi erótískra nuddstaða sem mjög hafa verið í umræðunni," sagði hún m.a.

Hrædd við að tala opinskátt

Halldór Lárusson og Jónína Bjartmarz voru fulltrúar Framsóknarflokksins á fundinum. Halldór sagði m.a. að viðurlög við nauðgunum hefðu verið of væg. "Viðurlög við nauðgunum hafa verið skammarleg," sagði hann og bætti því við að reyndar væri verið að vinna í þeim málum.

Jónína fjallaði m.a. um klámvæðinguna og sagði mikilvægt að rætt yrði opinskátt um hana. "Ég held að við séum öll hrædd um að ræða þetta opinskátt og fordæma af því að við erum svo hrædd um að vera sökuð um tepruskap, sökuð um að vera á móti tjáningarfrelsinu."

Sigurður Ingi Jónsson, fulltrúi Frjálslynda flokksins, minnti m.a. á að þingmenn Frjálslynda flokksins hefðu stutt lagafrumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, um að kaup á vændi og annarri kynlífsþjónustu yrði gert refsivert. "Þetta frumvarp var hins vegar fellt," minnti hann á. "Það má hins vegar til sanns vegar færa að það eitt og sér að samþykkja þetta frumvarp hefði ekki leiðrétt undirstöðu vandans heldur stemmt stigu við afleiðingum hans."

Misjöfn frammistaða

Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu, lagði áherslu á að við bærum öll ábyrgð þegar baráttan gegn klámvæðingu og kynlífsþrælkun væri annars vegar. "Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð, fjölmiðlarnir, foreldrarnir, kennararnir, skólastjórnendurnir og í raun hver einasta fullorðin manneskja sem lætur sig samfélagið varða," sagði hún. Bætti hún því við að það væri hins vegar ærið misjafnt hvernig þessir aðilar hefðu staðið sig.

Síðust af stjórnmálamönnunum tók til máls Kolbrún Halldórsdóttir, VG. Hún lagði m.a. áherslu á að klám og vændi væri kynferðisofbeldi og bæri að túlka sem slíkt skv. lögum. Kom hún fram með tillögu að því hvernig skilgreina ætti klám í lögunum. "Klám er efni sem sameinar kynlíf/samfarir og/eða afhjúpuð kynfæri og ofbeldi, misnotkun eða niðurlægingu á þann hátt að slík hegðun virðist studd, látin óátalin eða til hennar hvatt."

Undir lok fundarins gagnrýndi Rúna Jónsdóttir, fræðslu- og kynningarfulltrúi Stígamóta, þáttinn Ísland í bítið á Stöð 2 þar sem menn færu með faldar myndavélar um bæinn til að sýna vændi í einhverri mynd. "Það rignir yfir okkur símtölum frá konum í vændi sem eru skelfingu lostnar. Þær velta því fyrir sér hvort þær verði næstar. Hvort þessi gildra yrði lögð fyrir þær. Þær segja: Ef ég verð ein af þessum konum svipti ég mig lífi."