Í ÁGÆTU bréfi til blaðsins laugardaginn 29. mars, undir yfirskriftinni Réttur tungunnar, veltir Matthías Johannessen því fyrir sér hvernig standi á því að danskan skuli ekki hafa sigrað á Íslandi með sama hætti og á Grænlandi og í Færeyjum.
Í ÁGÆTU bréfi til blaðsins laugardaginn 29. mars, undir yfirskriftinni Réttur tungunnar, veltir Matthías Johannessen því fyrir sér hvernig standi á því að danskan skuli ekki hafa sigrað á Íslandi með sama hætti og á Grænlandi og í Færeyjum. Hann segir:

Íslendingar hafa alltaf verið stoltir af tungu sinni og arfleifð. Ef þeir halda við það er okkur borgið. Við prédikuðum aldrei á dönsku og gátum aldrei lært danska tungu eins og Færeyingar og Grænlendingar. Af hverju? Mér er nær að halda það hafi verið af sálrænum toga; eða eigum við að segja þjóðræknilegum?

Þjóðarsálfræði er fyrst og fremst vinsæl samræðulist sem felst í að sálgreina hinar og þessar þjóðir í alvörubragðbættu í gríni. Allir vita að Bandaríkjamenn eru opnir, einlægir og dáldið barnalegir. Danir eru ligeglad, Þjóðverjar stífir og formlegir og svo framvegis. Sjálfar sjá þjóðirnar sig kannski með allt öðrum augum.

Hafa þjóðir sálarlíf? Í Konungsskuggsjá er fjallað um þetta mál og þar blandast höfundi ekki hugur um að svo sé. Segir meðal annars að þjóðir geti orðið sjúkar, og að þá sé skylda nágrannaþjóða að hjálpa þeim út úr sjúkdómi sínum. Ef til vill hafa þjóðir sálarlíf og persónuleika með sama hætti og einstaklingar. Og þjóðir hafa þá einnig mismikið sjálfstraust. Sjálfsmynd þjóða byggir á ýmsu, til dæmis efnhagslegum krafti eða hernaðarstyrk, mannfjölda, ríkidæmi en einnig á menningarlegu afli. Og þó Ísland hafi aldrei haft ríkidæmi til að gera sig gildandi né her eða mannfjölda, þá höfum við menningarlegan styrk sem er fljótt á litið óskiljanlega mikill.

Íslendingar hafa ávallt byggt sjálfsmynd sína á íslenskri fornmenningu. Og sú tilfinning hefur lifað með þjóðinni og gert hana að sterkri þjóð með mikið sjálfstraust. Við vorum ekki rík þjóð þegar við vorum að berjast til sjálfstæðis. En við áttum menningu sem stórþjóðir öfunduðu okkur af. Okkar menningarstarf til forna er einnig undirstaða norrænnar menningar og þetta höfum við alltaf vitað og þetta hafa frændur okkar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð líka alltaf vitað.

Það var og er borin virðing fyrir okkur vegna þessa menningarframlags okkar og nú kemur niðurstaðan: Við værum ekki sjálfstæð þjóð í dag nema vegna íslenskra fornbókmennta. Og þetta er púra sálfræðilegt atriði. Enda svarar Matthías spurningu sinni sjálfur áður en hann varpar henni fram:

Íslendingar hafa alltaf verið stoltir af tungu sinni og arfleifð. Ef þeir halda við það er okkur borgið

Borgið? Hvernig borgið? Borgið sem þjóð væntanlega.

BJÖRN JÓNASSON,

Lindehøjen 8,

2720 Vanløse.

Frá Birni Jónassyni: