TVÆR einkasýningar verða opnaðar í Listasafni ASÍ í dag, laugardag, kl. 15. Í Ásmundarsal sýnir Þorgerður Sigurðardóttir nýjar blýantsteikningar á akrýlgrunnuðum pappír, og nefnir hún sýninguna Himin og jörð.
TVÆR einkasýningar verða opnaðar í Listasafni ASÍ í dag, laugardag, kl. 15. Í Ásmundarsal sýnir

Þorgerður Sigurðardóttir nýjar blýantsteikningar á akrýlgrunnuðum pappír, og nefnir hún sýninguna Himin og jörð. Myndefnið byggist á grunnformunum hring og ferningi. Þorgerður segir m.a. um formin: "Hringurinn er tákn guðdómsins og eilífðarinnar vegna þess að hann hefur hvorki upphaf né endi. Ferningurinn er tákn jarðarinnar og hins veraldlega. Við sjóndeildarhring renna saman í eitt himinn og jörð."

Þorgerður hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis.

Í Gryfju, í stiga og á þaksvölum safnsins er sýning G.Erlu, Hvarf.

"Þó að verkin á sýningunni eigi það sameiginlegt að þar er nálin notuð sem verkfæri og þráður og dúkur sem efni er ekki um textilsýningu að ræða. Nær er að skilgreina verkin sem innsetningar," segir G.Erla um sýningu sína.

G.Erla hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga auk þess sem hún er höfundur leikmynda og búninga fyrir vel á fjórða tug verka.

Í Arinstofu stendur yfir sýning á nokkrum konkret málverkum í eigu Listasafns ASÍ.

Safnið er opið frá kl. 13-17 alla daga nema máudaga og standa sýningarnar til 21. apríl. Aðgangur er ókeypis.