Wynn-Anne Rossi leiðbeinir Hjálmari Grétarssyni píanónema.
Wynn-Anne Rossi leiðbeinir Hjálmari Grétarssyni píanónema.
AÐ tilhlutan Tónlistarskóla Mosfellsbæjar eru tvö amerísk tónskáld í heimsókn hér á landi, þær Lauren Bernofsky og Wynn-Anne Rossi.
AÐ tilhlutan Tónlistarskóla Mosfellsbæjar eru tvö amerísk tónskáld í heimsókn hér á landi, þær Lauren Bernofsky og Wynn-Anne Rossi. Nemendur skólans og nemendur í öðrum nágrannaskólum hafa undanfarin misseri verið að æfa verk tónskáldanna en með heimsókninni gefst nemendunum tækifæri til að æfa og leika verkin undir þeirra leiðsögn. Verkefnið er kallað Tónlist án landamæra og markmið þess er að víkka sjóndeildarhring nemenda og hvetja þá í tónlistarnámi, meðal annars með því að kynnast tónlist úr samtímanum og örva þá til eigin tónsköpunar.

Verk þeirra Rossi og Bernofsky hafa hlotið góðan hljómgrunn meðal tónlistarkennara og ekki síður nemenda og vakið kennara til umhugsunar um hversu mikilvægt er að koma á framfæri tónlist sem samin er í dag. Í dag kl. 14 verður afrakstur heimsóknar tónskáldanna kynntur með tónleikum í tónlistarhúsinu Ými þar sem flutt verður tónlist eftir þær og einnig eftir þá nemendur sem hafa komið fram með athyglisverð tónverk í vikunni. Báðar starfa þær Rossi og Bernofsky sem tónskáld og tónlistarkennarar og hafa unnið talsvert með börnum. Þær segja að Jón Sigurðsson, kennari við Tónlistarskóla Mosfellsbæjar, hafi verið að skoða verk þeirra á Netinu og pantað nokkur til kennslu og í kjölfarið hafi fylgt meiri samskipti sem leiddu til heimsóknarinnar nú. "Það er mikilvægt að tónskáld gleymi því ekki að börnum er mikilvægt að leika góða tónlist úr eigin samtíma," segir Bernofsky og Rossi tekur undir það og segir reynslu sína þá að bæði kennarar og ekki síður nemendur séu áhugasamir um nýja tónlist. "Við erum þó báðar einnig að semja fyrir atvinnufólk í tónlistinni og það er nauðsynlegt líka," segir Lauren Bernofsky. "Það vill þó þannig til að það er meira upp úr því að hafa að semja tónlist fyrir nemendur en fyrir atvinnufólk, þörfin fyrir nýja tónlist virðist vera meiri í skólunum." Wynn-Anne Rossi segir það líka mikilvægt að kenna krökkum í tónlistarnámi strax að skapa eitthvað upp á eigin spýtur, samhliða því að þeir æfi verk annarra. "Margir halda að það þurfi yfirskilvitlegar gáfur til að semja tónlist en það er alls ekki svo. Mín skoðun er sú að það sé ekkert öðru vísi að semja tónlist en að sitja með autt blað og liti fyrir framan sig. Það þarf bara að örva sköpunina og tilfinningu krakkanna fyrir blæ, rytma, formi og þvílíku í tónum og hljóðum í stað lita. Svo má ekki gleyma því að tjáning barna á þessu sviði er mikilvægari en einhverjar reglur um hvernig hlutirnir eigi að vera. Börnin þurfa sitt svigrúm til að fá að njóta sín. Það er hægt að byrja tónsmíðakennsluna með léttum æfingum og þróa hana svo áfram." Þær segja íslensku krakkana dásamlega - kannski svolítið þöglari en þá bandarísku en með sama blikið í augunum og krakkar alls staðar hafa. "Við Bandaríkjamenn höfum tilhneigingu til að vera háværir, tala mikið og tjá okkur stundum með látum og það er mjög gefandi og hvetjandi að kynnast því hvernig fólk tjáir sig annars staðar. Þessari þöglu rósemd ykkar fylgir mikill þokki, og undir niðri er ótrúlega mikill og öflugur kraftur í krökkunum. Þetta er heillandi," segir Wynn-Anne Rossi.

Lauren Bernofsky segir það líka hafa haft áhrif á þær að hafa svo frábært útsýni yfir "fjallið" meðan á kennslunni stendur og það gefi þeim líka kraft. Wynn-Anne sá fjörð í fyrsta skipti í vikunni þegar Jón fór með hana í bíltúr í Hvalfjörðinn. "Þetta er svo dásamlegt og ósnortið land og ég hefði sannarlega ekkert á móti því að eiga mér lítið tónsmíðaathvarf í Hvalfirðinum."

Lokatónleikarnir í dag eru öllum opnir svo lengi sem húsrúm leyfir og þar koma fram nemendur á ýmsum stigum í söng og hljóðfæraleik.