GULLMOLI, eða réttara sagt gullræma vikunnar hjá Bæjarbíói er frá 1962 og heitir Eva . Myndina gerði Joseph Losey eftir samnefndri skáldsögu James Hadley Chase.
GULLMOLI, eða réttara sagt gullræma vikunnar hjá Bæjarbíói er frá 1962 og heitir Eva. Myndina gerði Joseph Losey eftir samnefndri skáldsögu James Hadley Chase.

Losey var í hópi virtustu leikstjóra á sjötta og sjöunda áratugnum þegar hann gerði annálaðar myndir á borð við Blind Date, The Sleeping Tiger, The Servant og The Go-Betweens sem færði honum Gullpálmann í Cannes 1970. Eva er jafnan talin til hans bestu mynda og skartar Jeanne Moreau í sínu óskahlutverki, að eigin sögn. Um það leyti sem myndin kom út var Moreau ein skærasta stjarnan í evrópskri kvikmyndagerð og naut myndin því almennrar hylli, ólíkt mörgum öðrum myndum Losey, sem þótti gjarnan í þungmeltari kantinum.

Í myndinni segir frá kvennabósa (Stanley Baker) sem eltist við konu (Jeanne Moreau) sem kemur í alla staði illa fram við hann og reyndar alla karlmenn. Hann lætur stjórnast af hvötum sínum fremur en skynsemi, sem auðvitað endar með ósköpum.

Ferill Joseph Losey var harla óvenjulegur, að minnsta kosti fyrir bandarískan kvikmyndagerðarmann, því á meðan kollegar hans í Evrópu fluttust í stríðum straumum vestur til Hollywood þá flutti hann til Evrópu, aðallega til að flýja hina alræmdu nefnd sem barði niður allt sem talið var til and-amerísks athæfis á þessum tíma. Flestar sínar merkustu myndir gerði Losey því í Evrópu og bjó og starfaði lengstum í Englandi. Eva verður sýnd í dag kl. 16 í sýningarsal Kvikmyndasafnsins í Bæjarbíói, Strandgötu 6, Hafnarfirði. Miðaverð er kr. 500.