Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra ávarpar 62. Fiskiþing.
Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra ávarpar 62. Fiskiþing.
"BOÐSKAPURINN fyrir fyrningarleiðinni er í raun mun verri og hættulegri en boðskapurinn um að taka upp fjölþrepa skattakerfi, eins slæm hugmynd og það nú er.
"BOÐSKAPURINN fyrir fyrningarleiðinni er í raun mun verri og hættulegri en boðskapurinn um að taka upp fjölþrepa skattakerfi, eins slæm hugmynd og það nú er. Við verðum að leyfa verkunum að tala í sjávarútveginum og hætta að bjóða fyrirtækjunum og starfsfólki þeirra upp á þá óvissu, sem það hefur mátt búa við á undanförnum árum. Fyrirtækin munu nú fara að greiða sérstakt gjald fyrir aðgang sinn að auðlindinni og er sú gjaldtaka umfram það sem allar aðrar atvinnugreinar búa við. Gefum sjávarútveginum frið til athafna og áræðis svo hann geti staðið undir fyrirhugaðri gjaldtöku sem eigandinn, það er þjóðin leggur á greinina," sagði Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, í ávarpi sínu á Fiskiþingi í gær.

Árni fjallaði um hugmyndir um fyrningarleið í sjávarútvegi, að veiðiheimildirnar yrðu teknar af núverandi handhöfum í áföngum og seldar á uppboði. Hann sagði alla stjórnmálaflokka stjórnarandstöðunnar hafa boðað fyrningu veiðiheimilda. Í henni fælist innköllun aflaheimilda í áföngum sem síðan yrðu settar á uppboð. "En hvað svo?" spurði ráðherrann. "Iðulega hefur verið reynt að gylla þessa leið aukinnar ríkisforsjár með því að lýsa því yfir að hægt yrði farið og svo framvegis. Málið er alls ekki svona einfalt því tíminn er í sjálfu sér enginn örlagavaldur í þessum efnum heldur er það aðferðin sem slík. Sama dag og ákveðið væri að fara þessa leið má öllum ljóst vera að það myndi hafa þær alvarlegu afleiðingar að fyrirtækin myndu ekki njóta trausts lánveitenda og þau veikari leggja strax upp laupana og alger óvissa um stöðu þeirra sterkari."

Grunnhyggni

Árni sagði það grunnhyggni að einstaka stjórnmálaflokkur skyldi reyna að telja fólki trú um að hægt væri að halda uppi sömu framleiðni og hagsæld með því að taka aflaheimildir frá einum og færa til annarra. "Þetta held ég að flestir sem bera hag íslensks sjávarútvegs og atvinnulífs fyrir brjósti, geti verið sammála um.

Sjávarútvegsfyrirtækin eru undirstaða íslensks atvinnulífs og hryggjarstykkið í íslenska hlutabréfamarkaðnum. Því myndi innköllun veiðiheimilda bitna á hlutabréfamarkaðnum og efnahagslífinu öllu í heild sinni og atvinna margra, ekki bara þeirra sem starfa í sjávarútvegi, vera í uppnámi," sagði Árni.