FIMM verktökum hefur verið boðið að leggja fram tilboð í alúboði á viðbygginu við hús Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík. Tilboð verða opnuð í maí og vonast er til að framkvæmdir geti hafist í lok júní eða byrjun júlí.
FIMM verktökum hefur verið boðið að leggja fram tilboð í alúboði á viðbygginu við hús Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Keflavík. Tilboð verða opnuð í maí og vonast er til að framkvæmdir geti hafist í lok júní eða byrjun júlí.

Ríkið og sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa samið um að standa að viðbyggingunni og munu sveitarfélögin standa fyrir framkvæmdinni. Ákveðið var að ráðast í alútboð og gefa fjórum til fimm verktökum kost á að bjóða. Sex svöruðu þegar lýst var eftir verktökum í forvali og hefur byggingarnefndin ákveðið að bjóða eftirtöldum fimm fyrirtækjum að leggja fram tilboð: Ístak hf., Íslenskir aðalverktakar hf., Keflavíkurverktakar hf., Hjalti Guðmundsson ehf. og Húsagerðin ehf. Auk þeirra óskuðu VSÓ ráðgjöf ehf. og Baldur Jónsson ehf. sameiginlega eftir að taka þátt í útboðinu.

Verkið felur í sér hönnun hússins og byggingu þess auk fullnaðarfrágangs á húsi og lóð. Áætlað er að byggingin verði alls um 2.800 fermetrar að stærð, á þremur hæðum. Verktakar eiga að skila tilboðum í tvennu lagi fyrir 16. maí næstkomandi, annars vegar hugmynd að byggingu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru og hins vegar verðtilboð. Matsnefnd mun fara yfir og meta lausnirnar og síðan verða verðtilboðin opnuð 30. maí.

Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari segir að stefnt sé að undirritun verksamnings eigi síðar en 12. júní og vonar að framkvæmdir geti hafist síðar í þeim mánuði eða byrjun júlí. Ljúka á verkinu fyrir 27. júlí á næsta ári.

Skipuð hefur verið fimm manna byggingarnefnd með því að Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur tilnefnt Böðvar Jónsson, formann bæjarráðs Reykjanesbæjar, og Sigurð Jónsson, sveitarstjóra í Garði, til viðbótar þriggja manna nefnd sem hefur starfað að undirbúningi verksins en í henni voru Kristbjörn Albertsson, formaður stjórnar FS, Hjálmar Árnason alþingismaður og Guðmundur Björnsson verkfræðingur.