Bandarískur hermaður og íslenskur lögregluþjónn við umferðarstjórn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Bandarískur hermaður og íslenskur lögregluþjónn við umferðarstjórn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvær aldir eru nú liðnar frá því fyrstu einkennisklæddu lögregluþjónarnir sáust á götum Reykjavíkur. Sveinn Guðjónsson rifjar upp þætti úr sögu íslenskrar löggæslu og skoðar Sögusýningu lögreglunnar í fylgd með Guðmundi Guðjónssyni yfirlögregluþjóni, sem er allra manna fróðastur um þessi mál.
LÖGREGLAN er ein elsta og rótgrónasta stofnun þjóðfélagsins og nú er þess minnst að tvær aldir eru liðnar frá því einkennisklæddir lögregluþjónarnir sáust fyrst á götum Reykjavíkur. Löggæsla er þó mun eldra fyrirbæri en 200 ára afmæli hins einkennisklædda lögregluþjóns gefur til kynna. "Með lögum skal land vort byggja, en með ólögum eigi eyða," er haft eftir Njáli á Bergþórshvoli, þeim mikla lögspekingi, og víst er að Íslendingar hafa reynt að hafa þau orð í heiðri allt frá upphafi landnáms, þótt aðferðir og aðstaða til að framfylgja lögum hér fyrr á öldum hafi verið æði frábrugðnar því sem við þekkjum nú til dags.

Þjóðveldi og Jónsbók

Á þjóðveldistímanum, frá 930 til 1262 lutu Íslendingar lögum sem lögsögumenn kváðu upp á Alþingi og voru þau geymd í minni manna þar til ákveðið var að skrá þau árið 1117. Í lögbókinni Grágás má sjá að helstu refsingar á þessum tíma voru fjársektir og hin þyngsta refsing útlegð, en með þeim dómi voru menn útilokaðir frá samfélaginu og réttdræpir. Þegnar samfélagsins áttu sjálfir að útkljá sín mál og ef maður var veginn stóð upp á aðstandendur hans að hefna vígsins.

Með Gamla sáttmála, sem gerður var er Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262-1264, er konungi gert skylt að halda uppi lögum og reglum í landinu. Magnús lagabætir færði Íslendingum nýja lögbók, Járnsíðu, árið 1271 og árið 1280 gekk í gildi svokölluð Jónsbók. Samkvæmt lögbókunum var framkvæmdavaldið í höndum umboðsmanna konungs, sakamál urðu opinber og blóðhefnd numin úr lögum. Þá var farið að beita líkams- og dauðarefsingum. Fram til siðaskipta hafði kaþólska kirkjan ennfremur dómsvald í málum sem tengdust kirkjunni og fólust refsingar hennar einkum í fjársektum, forboði og bannfæringu.

Samkvæmt Jónsbók voru sýslumenn helstu löggæslumenn konungs og var þeim meðal annars ætlað að sjá um handtöku þjófa og ofbeldismanna, rannsaka mál, meðal annars með yfirheyrslum og vitnaleiðslum. Margt í starfi þeirra á Jónsbókartímanum, sem stóð frá 1281 og fram á 18. öld, minnir því á skyldur lögreglunnar í dag. Ekki er unnt að fara hér nánar í saumana á þessari sögu, en bent skal á ágæta samantekt Sólborgar Unu Pálsdóttur sagnfræðings og Ólafs K. Ólafssonar sýslumanns um Löggæslu fyrri alda í ritinu Ágrip af sögu lögreglunnar, sem Ríkislögreglustjórinn hefur gefið út í tilefni af 200 ára afmælis hins einkennisklædda lögregluþjóns á Íslandi.

Fyrstu lögregluþjónarnir

Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn við embætti Ríkislögreglustjóra, er manna fróðastur um sögu íslensku lögreglunnar enda hefur hann skrifað gagnmerka bók um þá sögu og er jafnframt formaður afmælisnefndar og ritstjóri áðurnefnds rits um Ágrip af sögu lögreglunnar. Það er því fróðlegt að ganga um með Guðmundi á Sögusýningu lögreglunnar, sem opnuð hefur verið í húsakynnum Ríkislögreglustjóra á Skúlagötu 21, í tilefni 200 ára afmælis hins einkennisklædda lögregluþjóns á Íslandi.

"Hér má sjá endurgerð að einkennisbúningi fyrstu lögregluþjónanna í Reykjavík frá 1803," sagði Guðmundur og benti á fagurrauðan lögreglubúning að danskri fyrirmynd. "Reykjavík varð, samkvæmt konungsúrskurði, sérstakt lögsagnarumdæmi 15. apríl 1803. Reykjavík varð fullburða kaupstaður með sérstökum staðarréttindum þegar ráðinn var bæjarfógeti sama ár. Bæjarfógetinn, Rasmus Frydensberg, tók við lögreglustjórn bæjarins og honum til aðstoðar voru ráðnir tveir danskir lögregluþjónar, sem áður höfðu verið undirforingjar í danska hernum. Þeir hétu Ole Biörn og Vilhelm Nolte. Sá síðarnefndi kunni fyrir sér í skósmíði og skipti það máli um ráðningu hans. Iðn sína skyldi hann stunda jafnhliða lögreglustarfinu. Vilhelm Nolte lagðist strax í drykkju og var vikið úr starfi ári síðar. Var þá annar danskur lögregluþjónn ráðinn, skraddari að mennt. Fyrsti íslenski lögregluþjónninn hét Jón Benjamínsson, en hann tók við starfi Ole Biörns í Reykjavík árið 1814. Hann starfaði í eitt ár. Næsti íslenski lögregluþjónninn var Magnús Jónsson, en hann starfaði í Reykjavík á árunum 1826 til 1839. Síðasti danski lögregluþjónninn í Reykjavík starfaði á árunum 1857 til 1859. Eftir það er löggæslan alíslensk.

Vaktarar Innréttinganna

Guðmundur sagði að nokkur aðdragandi hefði verið að stofnun starfsstéttar lögregluþjóna í Reykjavík og að upphafið mætti rekja til svokallaðra vaktara við Innréttingarnar, en frá því er greint í Ágripi af sögu lögreglunnar svohljóðandi:

"Í hallæri sem gekk yfir Ísland á árunum 1751-1758 var mikið um þjófnaði og gripdeildir um allt land og voru margir dæmdir til þrælkunar í Kaupmannahöfn fyrir þá sök. Sýslumenn urðu að geyma fangana þar til skipsrúm fengist til að flytja þá úr landi og kostaði það sýslumennina offjár. Rituðu þeir konungi bænaskrá sumarið 1757 um að leyft yrði að hengja þjófa í stað þess að senda þá utan til þrælkunar, en það myndi horfa til sparnaðar og hagnaðarauka. Ekki var fallist á þessa beiðni en sýslumenn virðast, þrátt fyrir það, hafa tekið þjófa af lífi í einhverjum tilvikum.

Árið 1759 var samkvæmt konungsúrskurði lagður fasteignaskattur á húseigendur, til að standa straum af kostnaði við byggingu tukthúss á Íslandi og kostnaði af gæsluvarðhaldsvist fanga og flutningi þeirra til Danmerkur. Einnig skyldi konungur leggja fram tiltekna fjárhæð. Þá var ákveðið að afbrotamenn skyldu í stað refsingar vinna við smíði tukthúss í Reykjavík. Vorið 1761 var byrjað að draga að grjót og grafa fyrir veggjum. Tukthúsið var svo tekið í notkun árið 1764.

Sama ár varð stórbruni í verksmiðjuhúsum Innréttinganna. Ekki er ósennilegt að bruni verksmiðjuhúsanna og tilkoma tukthússins hafi orðið til þess öðru fremur að Innréttingarnar réðu vaktara, en fyrir kom að fangar frá tukthúsinu brytust inn í hús í þorpinu. Ráðsmaður var við Innréttingarnar 1766-1767 og annaðist ýmislegt sem síðar varð á verksviði vaktara. Hvenær vaktarar hófu störf er annars óvíst, en þeim var sett erindisbréf árið 1778. Segja má að vaktararnir hafi verið forverar lögregluþjóna, því að þeim bar ekki aðeins að líta eftir eignum Innréttinganna og gera viðvart ef eldur kæmi upp, heldur láta sig varða allt annað sem óeðlilegt gæti talist í þess tíma skilningi. Vaktararnir sungu svokölluð vaktaravers á klukkustundarfresti að gömlum evrópskum sið, og létu með því vita að allt væri með felldu auk þess að tilkynna hvað tímanum liði. Til starfa síns höfðu vaktararnir stundaglas og lukt en líka langan staf með göddóttum hnúð á öðrum endanum, svokallaða morgunstjörnu. Þetta skæða vopn er vísbending um að vökturunum hafi verið ætlað að takast á við og yfirbuga afbrotamenn ef nauðsyn krafði. Næturvarsla Innréttinganna lagðist af 4. júní árið 1791. Eftir að stórþjófur einn slapp úr tukthúsinu síðla september sama ár, tóku nokkrir mektarborgarar sig saman um að greiða kostnað af næturvörslu. Jafnframt kvörtuðu þeir til amtmanns undan aðgerðarleysi í löggæslumálum. Fór svo að Reykjavíkurkaupstaður réð vaktara 10. nóvember 1791, sem jafnframt var fyrsti starfsmaður kaupstaðarins.

Í lok árs 1802 var amtmannsembættið í Vesturamtinu veitt Ludvig Erichsen. Hann hafði skömmu áður komið til Kaupmannahafnar og lýsti því þar fyrir rentukammerinu að stjórnarfarið á Íslandi væri mjög bágborið. Var þá óskað eftir því við Ludvig að hann tæki saman skýrslu um ásakanir sínar um hvernig háttað væri eftirliti með opinberum stofnunum, löggæslu í Reykjavíkurbæ og umsjón með framkvæmd lagaboða og fyrirmæla stjórnarinnar á Íslandi. Í þeirri skýrslu víkur Ludvig að löggæslunni í Reykjavík, sem hann taldi vera nánast enga, slökkvitæki skorti með öllu og vaktari bæjarins væri drykkfelldur og hirðulaus. Þá væru afbrot undantekningarlítið ekki kærð né fyrir slíkt refsað, heldur gerðu menn jafnan málin upp sín í milli. Agaleysið væri takmarkalaust og þjófnaðir hefðu færst í vöxt."

Þegar hér var komið sögu þótti sýnt að óhjákvæmilegt væri að skipa sérstaka lögregluþjóna til starfa í Reykjavík, eins og Guðmundur greinir frá hér að framan.

Löggæslan úti á landi

Alþingi setti lög um lögreglusamþykktir, sem gildi tóku árið 1891, og voru fljótlega upp úr því smám saman ráðnir lögregluþjónar í helstu þéttbýli landsins utan Reykjavíkur.

Snemma hafði þó verið ráðinn sérstakur löggæslumaður á Akureyri, líklega í kringum 1820, þegar íbúar bæjarins voru um 50. Maður þessi var danskur og kaupmönnum bæjarins var gert að greiða honum launin. Meðal skylduverka hans var að hirða upp ölvaða menn og hindra skotveiði á "pollinum" á helgum dögum. Ekki leið á löngu áður en kaupmenn fóru að draga við sig launagreiðslurnar og embættið lagðist af. Á Akureyri leiddi verslunarfrelsið árið 1854 til aukinnar þarfar fyrir löggæslu, enda fjölgaði þar skipakomum til muna. Sama ár var ráðinn fyrsti næturvörðurinn en laun hans voru greidd af samskotafé bæjarins. Árið 1865 var hafist handa við að byggja fangelsi í bænum, aðallega til að hýsa drukkna aðkomumenn.

Á Ísafirði var byggt fangahús árið 1874, en það brann árið 1925 og eini fanginn sem í húsinu var lést í brunanum. Árið 1894 tók gildi lögreglusamþykkt fyrir Ísafjarðarkaupstað og ráðinn var lögregluþjónn. Árið 1901 var stofnuð staða næturvarðar á Ísafirði og í reglum um störf hans segir að hann skuli vera lögregluþjónn um nætur.

Tveir lögregluþjónar voru ráðnir við embætti bæjarfógetans í Hafnarfirði árið 1908, í kjölfar fjölgunar íbúa vegna aukinnar útgerðar í bænum. Þeim fækkaði í einn árið 1910, en var aftur fjölgað í þrjá árið 1917. Var sérstaklega tekið fram við ráðningu þeirra, að þeir þyrftu sjálfir að leggja sér til einkennisfatnað og var umsókn þeirra um styrk synjað af bæjarstjórn. Árið eftir ákváðu lögregluþjónarnir að segja upp starfi sínu og voru aðrir ráðnir í þeirra stað. Hinir nýju lögregluþjónar fóru skömmu síðar fram á kauphækkun en þá ákvað bæjarstjórn að auglýsa störf þeirra laus til umsóknar og voru aðrir menn ráðnir. Þetta átti eftir að endurtaka sig hjá embættinu er kaupkröfur bar á góma.

Í lögreglusamþykkt Siglufjarðar árið 1915 var ekki gert ráð fyrir neinum lögregluþjónum, nema ef eldsvoða bæri að höndum, en sama ár voru þó skipaðir þrír næturverðir af hreppsnefnd.

Í fyrstu lögreglusamþykkt fyrir Vestmannaeyjar, sem gildi tók árið 1915, kemur meðal annars fram að þeir sem í ölæði hafi í frammi hávaða eða ósæmilegt látbragð á almannafæri, skuli heftir þar til þeir komi til sjálfs sín aftur og sæti þá sektum fyrir röskun á almannafriði. Þetta ákvæði var í reynd ekki hægt að framkvæma, því það var ekkert fangahús í bænum. Samþykkti sýslunefnd þetta ár að ráða mann til lögregluþjónsstarfa yfir vetrartímann. Hann var næturvörður.

Erfiðar aðstæður

Á Sögusýningunni má sjá gögn frá fyrri tíð, þar á meðal dagbækur lögreglunnar frá 19. öld, þar sem fram kemur að starfsumhverfi lögreglunnar hefur oft á tíðum verið erfitt. Guðmundur Guðjónsson sagði að af heimildum mætti ráða að starf lögreglu hefði löngum verið erfitt og ekki vanþörf á kröftum hennar.

"Mörg dæmi eru um virðingarleysi gagnvart yfirvaldinu. Með hliðsjón af "auglýsingu" sem upp var fest á Ísafirði árið 1892 má til dæmis ætla að sýslumaður þar hafi verið rassskelltur á Þorláksmessukvöldi "að tveimur gildum vottum ásjáandi fyrir dugnað í málarekstri við Skúla Thoroddsen".

Lögreglumenn voru ráðnir til Siglufjarðar á öðrum áratug 20. aldar. Árið 1919 lét Norðmaður lífið þar í átökum milli hóps Norðmanna og áhafnar dansks eftirlitsskips sem kom í land vopnuð byssum og stingjum. Þótti Dönunum að þeir þyrftu að koma á reglu í bænum vegna óróa af völdum Norðmannanna og mátti lögreglan sín einskis. Engin málaferli fylgdu í kjölfarið því bæjarfógetinn úrskurðaði að málið væri sér óviðkomandi þar sem engir Íslendingar væru viðriðnir það.

Heimildir frá Vestmannaeyjum 1919 greina frá því að barið hafi verið á lögreglu og aðstoðarmönnum hennar, og hafi það ekki verið ný bóla. Hneyksli vekur að sekt vegna þess nemi minni upphæð en flöskuvirði í venjulegri launsölu. Úrræði lögreglu voru fábrotin og sem dæmi brá lögregluþjónninn í Vestmannaeyjum gjarnan á það ráð að vista fanga á heimili sínu og var hans eigið herbergi fangageymsla.

Iðulega áttu lögregluþjónar í erfiðleikum með flutning handtekinna manna, en í Reykjavík var smíðaður handvagn með kistu til þess að flytja ölvaða menn og ósjálfbjarga. Kistan var hinsvegar svo stutt að hún rúmaði ekki meðalmenn á hæð, svo hún kom lítt að notum. Lögregluþjónar tóku því oft þessa menn á herðarnar og báru þannig.

Sum þeirra verkefna sem lýst hefur verið hér að framan eru enn á könnu lögreglunnar og hafa mörg bæst við í áranna rás, að sögn Guðmundar Guðjónssonar. "Löggjöf og ýmis skilyrði í samfélaginu hafa á hverjum tíma mótað störfin og ímynd lögreglunnar. Meðal áberandi leiðarmerkja í sögu hennar, eru störf lögreglu samkvæmt áfengisbannlögunum sem gengu í gildi árið 1912 með innflutningsbanni, en árið 1915 með sölubanni, og giltu að mestu til ársins 1935. Þau breyttu eðli lögreglustarfans að því leyti að lögreglu var nú gert að skipta sér af einkahögum manna, meir en áður, meðal annars með húsleitum á einkaheimilum.

Annað áberandi verkefni lögreglu í Reykjavík var að takast á við óspektir og skrílslæti á gamlárskvöldum frá þriðja til sjöunda áratugar 20. aldar, þar sem lífi fólks og eignum var stefnt í háska í skjóli múgæsingar. Sprengjum var kastað að fólki, bílum velt, eldar kveiktir og lögreglustöðin grýtt. Jafnvel er dæmi um að bensíni hafi verið hellt yfir lögregluþjóna og reynt að kveikja í þeim.

Þá gekk íslenskt þjóðfélag í gegnum erfiða tíma í kjölfar heimskreppunnar miklu í kringum 1930. Mikið atvinnuleysi einkenndi kreppuna í kjölfar mikils verðfalls á útflutningsafurðum. Fyrirtæki urðu gjaldþrota, fátækt varð áberandi og margir sultu. Þetta ástand skerpti skil milli þjóðfélagshópa, sem skipuðu sér jafnframt í pólitískar fylkingar. Mikil heift var í stjórnmálum á þessum tíma og urðu iðulega róstur. Reyndar urðu harðvítugir bardagar milli múgs og lögreglu þegar verst lét og það kom fyrir að lögregluþjónar slösuðust illa. Úr áraun áfengisbanns, óspekta og stéttaátaka gekk lögreglan svo inn í umbrot síðari heimsstyrjaldar við hernám Breta á Íslandi árið 1940."

Breyttir tímar

Hinn 1. janúar 1929 var með lögum stofnað sérstakt embætti tollstjóra og færðust tollamál þá frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík. Jón Hermannsson lögreglustjóri tók við hinu nýja embætti tollstjóra, en ungur maður, Hermann Jónasson, sem verið hafði fulltrúi hjá embætti bæjarfógeta, varð lögreglustjóri í Reykjavík. Eftir breytinguna skyldi lögreglustjóri hafa á hendi lögreglustjórn, meðferð sakamála og almennra lögreglumála og dómsmeðferð þeirra. Þá heyrðu margvísleg málefni áfram undir embætti lögreglustjóra, önnur en bein lögregluverkefni.

Hermann Jónasson lagði grunn að þeirri löggæslu sem lögreglan býr við í dag, bæði sem lögreglustjóri og einnig síðar sem forsætis- og dómsmálaráðherra. Í tíð hans voru settar ítarlegar reglur fyrir lögregluna og eru mörg ákvæði þeirra grunnur að reglum sem gilda enn í dag.

Eftir miklar óeirðir 9. nóvember 1932, sem upp komu á opnum fundi bæjarstjórnar Reykjavíkur, var mikill hluti lögregluliðs Reykjavíkur í sárum og óvinnufær um tíma. Var því stofnað lið varalögreglu, samtals um 150 manns, en án þess að sérstaklega væri kveðið á um heimild fyrir slíku í lögum. Ljóst er að mikil tortryggni hefur ríkt af hálfu Alþýðusambands Íslands og Verkamannafélagsins Dagsbrúnar í garð lögreglunnar og sérstaklega þó hjálparliðs hennar. Það má leiða að því verulegar líkur, að tortryggni og harðvítug barátta þessara verkalýðssamtaka gegn varalögreglunni hafi átt þátt í því að lög um ríkislögreglu voru sett árið 1933, sem nefndust lög um lögreglumenn. Þau mæltu fyrir um þátttöku ríkisins í greiðslu kostnaðar vegna reksturs lögregluliða og settu tiltekna umgjörð um löggæsluna.

Rannsóknarlögregla ríkisins tók til starfa 1. júlí 1977 samkvæmt lögum sem Alþingi hafði sett árið áður. Þannig færðust rannsóknir brotamála undan forræði Sakadóms Reykjavíkur og lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu til sjálfstæðrar stofnunar. Skipaður var sérstakur rannsóknarlögreglustjóri ríkisins.

Hlutverk rannsóknarlögreglu ríkisins var einnig að veita lögreglustjórum og sakadómurum í landinu öllu aðstoð við rannsókn brotamála þegar þeir óskuðu og rannsóknarlögreglustjóri og/eða ríkissaksóknari töldu það nauðsynlegt. Þá gat ríkissaksóknari falið rannsóknarlögreglu ríkisins rannsóknir einstakra mála hvar sem var á landinu þegar hann taldi þess þörf og rannsóknarlögreglustjóri gat að eigin frumkvæði tekið í sínar hendur rannsókn mála utan höfuðborgarsvæðisins.

Lögregla nútímans

Með lögum nr. 92/1989 sem tóku gildi 1992, urðu stórfelldar breytingar á skipan dómsvalds og umboðsvalds í héraði. Samhliða þessum breytingum voru gerðar veigamiklar breytingar á sviði réttarfarslöggjafar og meðal annars unnið að setningu nýrrar heildarlöggjafar á öllum sviðum réttarfars í landinu. Núgildandi lög um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 tóku gildi á sama tíma en með þeim var komið á skipun ákæruréttarfars í öllum meginatriðum. Ný lögreglulög tóku gildi 1. júlí 1997. Þau leystu af hólmi eldri lögreglulög og lög um rannsóknarlögreglu ríkisins. Rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður og flest verkefni hennar færð til lögreglustjóra í héraði og embættis ríkislögreglustjóra. Um leið voru lögfestar skýrari reglur um framkvæmd lögreglustarfa og um réttindi og skyldur lögreglumanna.

Endurskoðun laga um lögregluna tengdist einnig breytingum sem urðu með lögum um meðferð opinberra mála árið 1996. Þau miðuðu að því að hraða rannsóknum brota, auka skilvirkni með því að einfalda feril mála á rannsóknarstigi og fela lögreglustjórum ákæruvald í ríkari mæli en áður. Þannig var ákæruvald í stærstum hluta þeirra mála sem heyrðu undir ríkissaksóknara flutt til lögreglustjóra.

Með lögreglulögunum sem gildi tóku 1. júlí 1997 var komið á fót embætti ríkislögreglustjóra sem fer með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra. Með sama hætti fer ríkislögreglustjóri með málefni lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli í umboði utanríkisráðherra. Samhliða þessu tók embættið við veigamiklum stjórnsýsluverkefnum á sviði löggæslunnar í landinu.

Á Sögusýningu lögreglunnar má sjá ýmsa vegvísa í þeirri miklu sögu sem hér hefur verið rakin, allt frá stundaglasi og morgunstjörnu vaktaranna á tímum Innréttinganna að tæknivæddum tækjum og tólum sem lögreglumenn nútímans notast við í starfi sínu. Í dag, laugardag, verður ennfremur, í tilefni 200 ára afmælisins, haldinn sérstakur Lögregludagur og verða lögreglustöðvar um allt land opnar almenningi, þar sem landsmönnum gefst kostur á að kynna sér húsakynni og tækjabúnað lögreglunnar, jafnframt því sem lögreglan verður kynnt fyrir almenningi, auk þess sem Lögregluskóli ríkisins verður með skipulagða dagskrá.

svg@mbl.is