Sagan endurtekur sig, það er margsannað.

Sagan endurtekur sig, það er margsannað. Nú virðist Össur Skarphéðinsson reyna að gera Halldóri Ásgrímssyni sams konar tilboð og Ólafur Ragnar Grímsson gerði Jóni Baldvini Hannibalssyni árið 1991; að verða forsætisráðherra í ríkisstjórn með eins atkvæðis meirihluta.

Fregnir hafa borizt af því að Össur hafi talað við Halldór í síma og hægt er að álykta út frá ummælum hans að hann hafi boðið upp á stjórnarforystu. Össur segir þannig í DV í gær: "Mér finnst sjálfum með ólíkindum ef Halldór Ásgrímsson túlkar niðurstöðu kosninganna með þeim hætti að það sé sérstakt hlutverk hans að tryggja Sjálfstæðisflokknum áframhaldandi vist í ríkisstjórn."

Össur bætir við: "Þær hugmyndir sem Framsóknarflokkurinn hefur boðað á ýmsum sviðum eru ekki mjög fjarri því sem við höfum boðað og auðvitað er ekki hægt að horfa framhjá því að þessir flokkar hafa meirihluta ef þeir legðu saman. Það er þess vegna möguleiki sem Samfylkingin hlýtur að skoða rækilega ef hann kemur upp."

En Össur ætlar ekki Samfylkingunni forsætisráðherrastól í slíkri stjórn. "Við lögðum upp með forsætisráðherraefni og stefndum að því að fella ríkisstjórnina. Nú horfum við hins vegar framan í annan veruleika og í þeirri stöðu sem komin er upp er ljóst - ef maður ætlar að vera raunsær - að forsætisráðherrakortið er ekki í okkar spilum eins og sakir standa."

Eftir að vinstristjórnin, sem mynduð var 1988, hélt eins manns meirihluta á þingi í kosningunum 1991 - þá var Alþingi reyndar haldið í tveimur deildum og stjórnin hafði ekki meirihluta í báðum - bauð Ólafur Ragnar Jóni Baldvini forsætisráðherrastól ef hann fengist til að mynda stjórn Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks. Í Morgunblaðinu 23. apríl þetta ár sagðist Ólafur Ragnar ekki vilja ræða hvað þeim Jóni hefði farið á milli í einkasamtölum.

"Það eina sem ég get sagt er að Steingrímur Hermannsson hefur verið afbragðs forsætisráðherra og Jón Baldvin yrði einnig mjög góður forsætisráðherra," sagði Ólafur. Daginn áður hafði hann sagt í blaðinu að ótti Jóns Baldvins um að afstaða einstakra þingmanna Alþýðubandalagsins spillti framgangi ákveðinna mála væri ástæðulaus.

Jón Baldvin keypti ekki þær röksemdir Ólafs Ragnars á sínum tíma. Ætli það sé líklegt að Halldór Ásgrímsson fallist á sambærileg rök Össurar nú?