Pétur Óskarsson, forstjóri Kötlu Travel, fjallaði um evru sem grunngjaldeyri í rekstri á ráðstefnu um rekstur fyrirtækja í alþjóðaumhverfi.
Pétur Óskarsson, forstjóri Kötlu Travel, fjallaði um evru sem grunngjaldeyri í rekstri á ráðstefnu um rekstur fyrirtækja í alþjóðaumhverfi.
PÉTUR Óskarsson, forstjóri Kötlu Travel, segir að margar ástæður hafi orðið til þess að fyrirtækið flutti höfuðstöðvar sínar til Íslands frá Þýskalandi nýverið. Þeirra á meðal eru lægri laun og launatengd gjöld á Íslandi.

PÉTUR Óskarsson, forstjóri Kötlu Travel, segir að margar ástæður hafi orðið til þess að fyrirtækið flutti höfuðstöðvar sínar til Íslands frá Þýskalandi nýverið. Þeirra á meðal eru lægri laun og launatengd gjöld á Íslandi. Þetta kom fram í erindi sem Pétur flutti á ráðstefnu sem AX-hugbúnaðarhús stóð fyrir í gær um rekstur fyrirtækis í alþjóðaumhverfi.

Katla Travel GmbH var stofnað í Þýskalandi árið 1997 og þá voru gerðir samningar við ferðaskrifstofurnar Troll Tours og Neckermann um sölu á Íslandsferðum. Fyrirtækið sérhæfir sig í ferðum til Íslands frá þýskumælandi svæðum Evrópu og rekur skrifstofur í Reykjavík og München.

Í Kötlu Travel-samstæðunni eru þrjú félög, Katla Travel GmbH, sem sérhæfir sig í markaðs- og sölustarfsemi í Þýskalandi, Katla DMI ehf., sem sér um skipulagningu hóp- og einstaklingsferða á Íslandi, og sumarhúsamiðlunin Viator ehf.

Meiri gengisáhætta með krónunni en evru

Að sögn Péturs er launakostnaður mun lægri á Íslandi en Þýskalandi. Jafnframt greiði fyrirtæki á Íslandi mun lægri tekjuskatt en í Þýskalandi. Katla Travel er með mikil umsvif á Íslandi og samgöngur góðar á milli landana. Eins hafi þróun í upplýsinga- og samskiptakerfum haft sitt að segja og ekki síst persónulegar ástæður. Eftir að hafa búið í 14 ár í Þýskalandi hafi verið komið að þeim tímapunkti að ákveða hvar hann vildi setjast að.

Pétur segir að þrátt fyrir að fyrirtækið sé með höfuðstöðvar á Íslandi þá sé evran sá gjaldmiðill sem það noti mest. Um 99% af tekjum þess séu í evrum og um 66% af útgjöldum. Hann segir að þeir íslensku ferðaþjónustuaðilar sem Katla Travel skipti við hafi ekki sett sig upp á móti því að viðskipti við Kötlu séu í evrum. Enda mun minni gengisáhætta fylgjandi henni. Eins séu vextir mun lægri í evruríkjum.

Hann segir að það gangi ekki upp fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að eiga eingöngu viðskipti í íslenskum krónum og að dæmi séu um það að fyrirtæki hafi orðið gjaldþrota þess vegna.