4. júlí 2003 | Forsíða | 292 orð | 1 mynd

Rætt um fríverslun við Bandaríkin

Líklegra að EFTA nái samningum en ESB

Halldór Ásgrímsson
Halldór Ásgrímsson
ÓFORMLEGAR viðræður hafa farið fram um gerð fríverslunarsamnings milli Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Bandaríkjanna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir líklegra að EFTA nái slíkum samningi en Evrópusambandið.
ÓFORMLEGAR viðræður hafa farið fram um gerð fríverslunarsamnings milli Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Bandaríkjanna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra segir líklegra að EFTA nái slíkum samningi en Evrópusambandið.

EFTA hefur gert fríverslunarsamning við Mexíkó. Viðræður við Kanada eru langt komnar og ef samningar nást munu EFTA-ríkin því hafa fríverslunarsamninga við öll aðildarríki Fríverslunarbandalags Norður-Ameríku (NAFTA) nema Bandaríkin. "Það hafa átt sér stað óformlegar viðræður um hugsanlegan fríverslunarsamning við Bandaríkin," segir Halldór í samtali við Morgunblaðið.

Misbjartsýnir á árangur WTO

Nú stendur yfir svokölluð Doha-samningalota á vegum Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) um aukið frelsi í viðskiptum. Halldór segir hins vegar að ekki séu allir bjartsýnir á gang mála í WTO og því hafi í auknum mæli verið litið til þess kostar að ríki, tollabandalög og fríverslunarsvæði geri tvíhliða samninga sín á milli um frjálsa verslun. "EFTA fylgist að sjálfsögðu með þeirri þróun og Bandaríkin eru eitt af þeim löndum sem þar koma til greina," segir Halldór.

Hann segir að hægur framgangur í viðræðum við Kanada hafi valdið vonbrigðum en þar hefur einkum verið tekist á um ríkisstyrkta skipasmíði. Nýjar reglur um skattaafslátt fyrirtækja í Noregi geti þó greitt þar fyrir.

Landbúnaðarmál erfiðust

Hvað varðar möguleika á fríverslunarsamningi við Bandaríkin segir Halldór að landbúnaðarmálin verði að líkindum erfiðust viðureignar. "Við höfum bent á að okkur hefur tekist, þrátt fyrir þær hindranir, að ganga frá samningum bæði við Mexíkó og Chile," segir hann.

Halldór segir að hugsanlega séu meiri líkur á því að EFTA takist að semja um fríverslun við Bandaríkin en ESB, þar sem þar á milli sé "minni togstreita á sviði viðskiptamála" en milli Bandaríkjanna og ESB. "Að öðru leyti skal ég ekki fullyrða um það. EFTA hefur hins vegar gengið vel í þessum málum. Þótt okkur hafi ekki tekist að ljúka samningum við Kanada erum við komin mun lengra en ESB," segir Halldór.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.