ÁSGEIR Elíasson, þjálfari Þróttar, var hæstánægður í leikslok á Kaplakrikavelli; "Við vorum heppnir í dag að fá ekki fleiri mörk á okkur í seinni hálfleik en hins vegar vorum við klaufar að skora ekki fleiri í fyrri hálfleik sem var mjög góður af...
ÁSGEIR Elíasson, þjálfari Þróttar, var hæstánægður í leikslok á Kaplakrikavelli; "Við vorum heppnir í dag að fá ekki fleiri mörk á okkur í seinni hálfleik en hins vegar vorum við klaufar að skora ekki fleiri í fyrri hálfleik sem var mjög góður af okkar hálfu. Við Þróttarar ætlum okkur ekki að setja okkur nein ný markmið þrátt fyrir að við séum nú í toppbaráttunni. Okkar markmið er enn að halda okkur í deildinni og til þess þurfum við tuttugu og tvö stig að mínu mati. Ég hafði trú á því fyrir mót að við gætum orðið í efri partinum alveg eins og þeim neðri. Það er stutt á milli liða í íslenskum fótbolta og ég er með ágætis lið sem getur unnið hvaða lið sem er," sagði Ásgeir Elíasson í samtali við Morgunblaðið.

Heimir Guðjónsson, fyrirliði FH, var ósáttur í leikslok á laugardag. "Við vorum slakir í fyrri hálfleik en í þeim síðari lékum við vel og ég minnist þess ekki að við höfum skapað fleiri marktækifæri í einum hálfleik en í þeim seinni í dag [laugardag]. Við áttum skot í stöng, slá og svo klúðruðum við færum einir gegn markverði. Við FH-ingar verðum að fara að átta okkur á því að leikurinn stendur yfir í níutíu mínútur og það þýðir ekkert að mæta fyrst til leiks í síðari hálfleik eins og við höfum gert í undanförnum fjórum leikjum. Núna erum við komnir í þá aðstöðu að það er ekkert sem heitir nema að fara á KR-völlinn í næstu umferð og taka þrjú stig."