Af fuglum og köttum ÞAÐ ER unaðslegt að vaka svolítið frameftir og fylgjast með fuglunum, þessum dásamlegu vorperlum okkar sem flytja okkur sinn fagra söng.

Af fuglum og köttum

ÞAÐ ER unaðslegt að vaka svolítið frameftir og fylgjast með fuglunum, þessum dásamlegu vorperlum okkar sem flytja okkur sinn fagra söng. Ég hef kynnst þröstunum sérstaklega vel, þar sem trén í garðinum mínum eru orðin nokkuð há get ég hlustað á sönginn. Þar sem fuglinn situr á efstu grein - vaktari sem syngur stanslaust.

Ef ég banka í gluggann þagnar hann og flytur sig fljótlega að tré í öðrum enda garðsins, eins ef ég fer út og tala vinsamlega við hann, þagnar hann og flýgur litlu seinna að tré í öðrum enda garðsins. Mér finnst hann vera vörður, sem lætur hina vita ef eitthvað er að gerast. Ég þekki vel grátöskur þrastarins þegar köttur er á ferð í garðinum. Það hljóð er ákall um hjálp. Þá hleyp ég út og rek köttinn burt. Þegar kötturinn er horfinn á braut breytist söngurinn í ljúflingslag.

Frá æsku minni á ég, ásamt systkinum mínum, ljúfa minningu um maríuerluhjón, sem komu ár eftir ár í sama hreiðrið, á bita í heyhlöðu. Þau voru vinir okkar og við gáfum þeim smjörklípu í gogginn. Mjög minnisstæð er mér sorgarsaga fyrir mörgum árum. Þröstur hafði byggt sér hreiður í grenitré við innganginn í hús okkar. Við fórum ávallt varlega framhjá og fuglamamman hreyfði sig ekki þótt við værum á ferli. Árla einn morgun vöknuðum við við átakanlegan fuglagrát. Hlupum við út og sáum kött í hreiðrinu. Hafði hann greinilega stokkið af bílskúrsþakinu í hreiðrið og etið ungana. Fuglarnir, vinir okkar, grétu börnin sín. Því bið ég kattaeigendur um að halda köttum sínum inni meðan varptími fuglanna og uppeldi unganna stendur yfir. Þennan stutta tíma ársins. Hugsið til næsta vors.

Húsmóðir í Breiðholti.

Franskar, sósa og salat

ELDRI maður hafði samband við Velvakanda og vildi lýsa yfir óánægju sinni með veitingastaði þá er standa við þjóðveginn. Finnst honum úrvalið í þessum "vegasjoppum" vera af skornum skammti. Þar er ávallt það sama á boðstólum, sama hvar á landinu maður er. Það eru ekki allir Íslendingar sem vilja eingöngu franskar, sósu og salat.