Mjög þétt umferð var á Vesturlandsvegi í gær. Um kl. 11 í gærkvöldi höfðu um 16 þúsund bílar farið um Kjalarnes frá miðnætti.
Mjög þétt umferð var á Vesturlandsvegi í gær. Um kl. 11 í gærkvöldi höfðu um 16 þúsund bílar farið um Kjalarnes frá miðnætti.
MIKIL umferð var í átt að höfuðborginni í gærdag enda afar margir á ferð um helgina. Mjög mikill erill var í Ólafsvík á færeyskum dögum. Sagðist lögregla vart muna annað eins annríki. Fangageymslur voru yfirfullar, ölvun og slagsmál. Fólk fór að tygja sig burt strax í gærmorgun, þótt sumir hafi ekki verið í stakk búnir til að setjast undir stýri.
Lögreglan á Hólmavík hafði í nógu að snúast á Holtavörðuheiði, þar sem fjöldi ökumanna var stöðvaður fyrir of hraðan akstur. Þar var slæmt skyggni í gærdag og rík ástæða til varkárs aksturs. Einnig voru um 50 bílar stöðvaðir til að athuga ástand ökumanna og bifreiðar.

Á Humarhátíð á Höfn í Hornafirði var mjög mikill erill. Sjö voru teknir fyrir ölvun við akstur. Fangageymslur voru yfirfullar og höfðu sex líkamsárásir verið kærðar. Taldi lögregla um 4.000 manns hafa verið á svæðinu. Bílvelta varð við Fagurhólsmýri síðdegis í gær en engin slys urðu á fólki. Fjórar ungar konur voru í bílnum. Hann er ónýtur eftir veltuna. Einnig tók lögreglan á Höfn mann á 147 km hraða á hringveginum.

Í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli var fjöldi tjaldgesta, 1.000 manns í Þórsmörk, 250 í Skógum og 130 í Njálsbúð. Fimm voru teknir fyrir ölvun við akstur og yfir helgina höfðu tæplega fjörutíu ökumenn verið teknir fyrir of hraðan akstur síðdegis í gær. Einn maður var fluttur á slysadeild frá Njálsbúð í fyrrakvöld; hann hafði dottið og meiðst á baki.

Heilmikil gleði var í Vestmannaeyjum á goslokahátíð, og um 3.000 manns á svæðinu, en engin ólæti, og fangageymslur ekki notaðar að neinu ráði, að sögn lögreglu.

Bílvelta varð við Mosfell á Biskupstungnabraut um hálffimmleytið í dag. Þrír farþegar voru í bílnum og meiðsl þeirra ekki talin alvarleg.

Sjö bílstjórar voru stöðvaðir á fjórum tímum í Reykjavík í gær vegna ölvunaraksturs.

Bifhjól og bíll lentu í árekstri á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar um kl. ellefu á laugardagskvöld. Ökumaður bifhjólsins var fluttur á slysadeild með sjúkrabifreið.