LÖGREGLAN í Sydney batt enda á fyrirhugaða sýningu á myndinni Ken Park sem fara átti fram í Sydney.
LÖGREGLAN í Sydney batt enda á fyrirhugaða sýningu á myndinni Ken Park sem fara átti fram í Sydney. Myndin er bönnuð í Ástralíu vegna kynlífs og ofbeldisatriða en henni er leikstýrt af Larry Clark þeim sama og leikstýrði myndinni Kids sem á sínum tíma hneykslaði og vakti fólk til umhugsunar um lífskjör unglinga. Ken Park fjallar um brenglað líf hjólabrettagæja á táningsaldri í Kaliforníu. Í mótmælaskyni við bannið á kvikmyndinni fylktust 500 talsmenn málfrelsis og tjáningarfrelsis í kvikmyndahús í Sydney á miðvikudag þar sem stóð til að sýna myndina í óþökk yfirvalda. Lögreglan stöðvaði hins vegar sýninguna og gerði upptækan DVD-disk með kvikmyndinni og tók niður nöfnin á þeim sem að uppátækinu stóðu, meðal annars kvikmyndagagnrýnandanum Margaret Pomeranz og sjónvarpsmanninum Julie Rigg ....Rapparinn Beanie Siegel er laus úr fangelsi gegn tryggingu en hann hefur verið ákærður fyrir að særa mann með skoti fyrir utan knæpu, að því er virðist vegna ósættis yfir kvenfólki. Siegel neitar öllum sökum en hinn skotni er að jafna sig á sjúkrahúsi....Hinn illkvittni Simon Cowell , aðalstjórnandi þáttanna American Idol, hefur fengið nýtt starf við að stjórna stefnumótaþætti. Cowell segist viss um að þátturinn muni ganga vel en aðrir lýsa áhyggjum yfir að þátturinn týnist í kviksyndi fjölda annarra sambærilegra þátta. Nýi þátturinn er nokkurs konar blanda af American Idol og TheBachelor en áhorfendur fá að velja væntanlegan maka stúlku hverrar hylli fjöldi pilta vill vinna.