Björgólfur Takefúsa snýr á Ásgeir Ásgeirsson en Sverrir Garðarsson og Tommy Nielsen horfa á.
Björgólfur Takefúsa snýr á Ásgeir Ásgeirsson en Sverrir Garðarsson og Tommy Nielsen horfa á.
ÞRÓTTUR tyllti sér á topp efstu deildar karla á laugardag þar sem liðið sigraði FH á Kaplakrikavelli, 4:1. Björgólfur Takefusa gerði þrjú af mörkum Þróttara og er orðinn markahæsti leikmaður deildarinnar með 8 mörk að loknum jafnmörgum umferðum. Úrslit leiksins segja lítið um gang hans því FH-ingar sóttu mun meira í leiknum og í síðari hálfleik var hreint með ólíkindum að heimamönnum skyldi ekki takast að gera fleiri mörk.
Ásgeir Elíasson, þjálfari Þróttar, ákvað að breyta um leikaðferð hjá sínu liði og lék leikkerfið 3-5-2 en ekki 4-4-2 sem liðið lék í tapleiknum gegn FH í bikarkeppninni sl. þriðjudag.

Leikurinn hófst rólega og liðin fóru mjög varlega og tóku engar áhættur. Áður en Björgólfur kom Þrótturum yfir á 26. mínútu hafði ekkert markvert gerst. En eftir markið létu Þróttarar kné fylgja kviði. Halldór Hilmisson átti skot á 29. mínútu sem Daði Lárusson, markvörður FH, gerði mjög vel í að verja því boltinn breytti um stefnu af varnarmanni. Skömmu síðar kom Björgólfur Þrótturum í 2:0. FH-ingar létu mótlætið fara í skapið á sér og undir lok fyrri hálfleiks braut Sverrir Garðarsson illa á Björgólfi á miðjum vellinum. Sverrir renndi sér í Björgólf að aftan og var heppinn að fá aðeins gula spjaldið frá Agli Má Markússyni, dómara leiksins.

Leikur FH liðsins í fyrri hálfleik olli vonbrigðum. Liðið virkaði andlaust og hugmyndasnautt. Til marks um slakan fyrri hálfleik FH-liðsins þá átti liðið ekkert umtalsvert marktækifæri.

Það var engu líkara en að nýtt FH-lið hefði komið inn á í síðari hálfleik og greinilegt að Ólafur Jóhannesson, þjálfari liðsins, hafði lesið duglega yfir sínum drengjum í hálfleik. Tommy Nielsen, varnarmaður FH, minnkaði muninn strax í upphafi síðari hálfleiks úr vítaspyrnu. Nielsen spyrnir einhverjum öruggustu vítaspyrnum sem undirritaður hefur séð hér á landi.

Heimamenn freistuðu þess að jafna leikinn og Freyr Bjarnason komst nálægt því á 60. mínútu þegar hann skallaði boltann rétt fram hjá eftir góðan undirbúning Allans Borgvardt. Áfram héldu heimamenn að sækja en þeim var refsað á 67. mínútu þegar Björgólfur skoraði eftir vel útfærða skyndisókn.

Síðustu 20 mínúturnar var stórskotahríð að marki Þróttar. Fyrirliði FH, Heimir Guðjónsson, átti skot í stöng, Borgvardt átti skot í slá og Fjalar Þorgeirsson, markvörður Þróttar, varði frá Jónasi Grana Garðarssyni úr sannkölluðu dauðafæri. Sören Hermansen innsiglaði 4:1 sigur Þróttar sex mínútum fyrir leikslok.

Þróttarar fóru í toppsæti deildarinnar á laugardag. Allir leikmenn liðsins eiga hrós skilið fyrir að leggja sig alla fram til að knýja fram sigur. Fjalar átti mjög góðan leik í markinu og létti varnarmönnum sínum lífið með því að vera duglegur að koma út úr markinu og hirða fyrirgjafir. Miðverðirnir þrír stóðu allir fyrir sínu. Halldór Hilmisson og Páll Einarsson léku vel á miðjunni og sér í lagi sá síðarnefndi sem lagði upp tvö mörk og átti alla skallabolta sem að honum komu. Ásamt Páli var Björgólfur Takefusa maður leiksins. Ekki nóg með að hann hafi gert þrjú mörk heldur vann hann auk þess vel í framlínunni og hélt stanslausri pressu á varnarmönnum FH. Kannski Ásgeir Sigurvinsson og Logi Ólafsson landsliðsþjálfarar ættu að gefa Björgólfi tækifæri gegn Færeyingum í Þórshöfn í næsta mánuði því svo lengi sem hann heldur áfram að skora er engin ástæða til að kalla í framherja okkar í Noregi sem glatað hafa skotskónum.

Hjá FH olli fyrri hálfleikur miklum vonbrigðum eins og áður sagði en síðari hálfleikur liðsins var hins vegar álíka góður og sá fyrri var slakur. Ætli Hafnfirðingar sér að vera með í toppbaráttunni þá þurfa þeir að átta sig á því að ekki er nóg að leika vel í 45 mínútur. Allan Borgvardt skemmti áhorfendum með leikni sinni í síðari hálfleik en sást ekkert í þeim fyrri. Heimir Guðjónsson stóð fyrir sínu, sem og Tommy Nielsen. Leikur FH-liðsins gegn KR í næstu umferð mun skera úr um framhaldið hjá liðinu, þ.e.a.s. hvort liðið verður í toppbaráttu eður ei.

Hjörvar Hafliðason skrifar