Starfsmaður skemmtigarðsins við Smáralind fluttur burt slasaður.
Starfsmaður skemmtigarðsins við Smáralind fluttur burt slasaður.
STARFSMAÐUR Fun-Land-skemmtigarðsins við Smáralind slasaðist á höfði um þrjúleytið í gær þegar hann hljóp fyrir eitt leiktækjanna og fékk það á sig.
STARFSMAÐUR Fun-Land-skemmtigarðsins við Smáralind slasaðist á höfði um þrjúleytið í gær þegar hann hljóp fyrir eitt leiktækjanna og fékk það á sig.

Tildrög slyssins voru þau að gestur í stærsta tæki skemmtigarðsins, svonefndu "Freak-Out"-tæki, missti húfu og fór þá pilturinn, sem er nýorðinn 16 ára, inn á öryggissvæðið til þess að ná í húfuna með þeim afleiðingum að járnróla, sem gestirnir sátu í og sveifluðust með, rakst í höfuð hans. Pilturinn var fluttur á slysadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi og að sögn vakthafandi læknis fékk hann heilahristing og skarst á höfði en slasaðist ekki alvarlega. Líðan hans var eftir atvikum góð í gærkvöld.

Samkvæmt vinnuverndarlögum er óheimilt að ráða ungmenni yngri en 18 ára til vinnu "þar sem fyrir hendi er slysahætta sem gera má ráð fyrir að börn og unglingar geti átt í erfiðleikum með að átta sig á eða forðast vegna andvaraleysis eða skorts á reynslu eða þjálfun". Í reglum um vélknúin leiktæki í skemmtigörðum segir meðal annars að heimilt sé að ráða gæslumenn til þess að annast rekstur vélknúinna leiktækja og daglegt eftirlit með þeim undir yfirstjórn rekstrarstjóra. "Gæslumenn skulu vera orðnir fullra 17 ára og hafa næga þekkingu, þjálfun og hæfni til að stjórna viðkomandi leiktæki. Gæslumenn skulu sjá um að rekstur gangi eðlilega og að farþegum eða öðrum stafi ekki hætta af."

Eigandi skemmtigarðsins segir að pilturinn hafi ekki stjórnað tækinu heldur hafi starfssvið hans verið að hleypa gestum út um hlið að loknum ferðum með því. Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlitsins, segist ekki geta tjáð sig um vinnutilhögunina í skemmtigarðinum við Smáralind á þessu stigi málsins. Atvikið verði rannsakað nákvæmlega og hvort eðlilega hafi verið að verki staðið miðað við reglur um vinnu barna og ungmenna.