CHARLES Taylor, forseti Vestur-Afríkuríkisins Líberíu, sagðist í gær hafa þegið boð Oluseguns Obasanjo um pólitískt hæli í Nígeríu.
CHARLES Taylor, forseti Vestur-Afríkuríkisins Líberíu, sagðist í gær hafa þegið boð Oluseguns Obasanjo um pólitískt hæli í Nígeríu. Hann gaf hins vegar engar vísbendingar um hvenær hann hygðist yfirgefa land sitt, sem mátt hefur þola áratugalanga borgarastyrjöld.

Obasanjo, sem er forseti Nígeríu, kom til Líberíu síðdegis í gær og átti fund með Taylor á herflugvelli í höfuðborginni Monróvíu. Sagðist hann eftir fundinn hafa gert Taylor tilboð "sem hann hikaði ekki við að þiggja". Tilboðið fælist m.a. í því að Taylor fengi öruggt hæli í Nígeríu.

Taylor hefur verið ákærður fyrir stríðsglæpi í nágrannaríki Líberíu, Síerra Leóne, og á nú verulega undir högg að sækja, bæði heima fyrir og erlendis, enda er honum að miklu leyti kennt um þær hörmungar sem yfir Líberíu hafa dunið frá árinu 1989. Obasanjo sagði hins vegar í gær að tilboð hans væri nauðsynlegt ef menn vildu frið í Líberíu og varaði við því að hann myndi ekki una því "að vera áreittur af nokkrum manni eða stofnun fyrir að hafa boðið Charles Taylor til Nígeríu".

Bush sendir "könnunarsveit"

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur ítrekað sagt að hann vilji að Taylor víki. "Mig grunar að hann geri það," sagði Bush í vikulegu útvarpsávarpi sínu á laugardag. "Ég mun ekki sætta mig við annað."

Taylor hefur sagst vera reiðubúinn að víkja en ítrekaði þá skoðun sína í gær að þátttaka Bandaríkjanna í friðargæslu í landinu "skipti öllu máli". Bush hefur aftur á móti ekki viljað gefa upp hvort hann sé reiðubúinn til að senda bandaríska hermenn til Líberíu. Fimmtán bandarískir hermálasérfræðingar, eins konar "könnunarsveit", héldu hins vegar til landsins í gær til að kanna aðstæður.

Hvorki Taylor né Obasanjo tjáði sig um það í gær hvenær sá fyrrnefndi færi frá en Obasanjo sagði þó að hann teldi ekki að það yrði "á næstunni". "Við teljum að brotthvarf hans megi ekki eiga sér stað við ótryggar aðstæður [...] þannig að það ylli meira blóðbaði," sagði Obasanjo.

Monróvíu. AFP, AP.