Þorlákur Árnason, þjálfari Vals, var ekki sáttur við dómgæslu í leiknum gegn Fram í gær og fannst mjög á sitt lið hallað. "Það væri mjög gott að fá hlutlausa dómgæslu framvegis.
Þorlákur Árnason, þjálfari Vals, var ekki sáttur við dómgæslu í leiknum gegn Fram í gær og fannst mjög á sitt lið hallað. "Það væri mjög gott að fá hlutlausa dómgæslu framvegis. Þetta var mjög ósanngjarn vítaspyrnudómur eins og sennilega allir sem voru á vellinum sáu. Mér finnst hafa verið verulega hallað á okkur í sumar hvað þetta varðar. Ég veit ekki hvort menn séu búnir að ákveða það að gefa öðrum meira en okkur en það lítur oft þannig út. Við getum ekki annað en haldið áfram og lagt okkur fram og vonað að dómararnir geri það líka".

Þorlákur var hins vegar mjög sáttur við leik sinna manna. "Við spiluðum vel í leiknum. Við byrjuðum frekar varfærnislega, ætluðum okkur að sækja hratt á þá og ég myndi segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið allt í lagi af okkar hálfu en ég var mjög ánægður með hvernig liðið spilaði í seinni hálfleik.

Þetta var bara spurning um að við myndum ná að skora annað markið, sem tókst því miður ekki þrátt fyrir fjöldamörg marktækifæri. Eftir að við fengum á okkur fyrra markið þá virtist koma stress í mannskapinn og þeir ná svo að skora, í varnarmann og inn," sagði Þorlákur Árnason þjálfari Vals.