RÍKISSTJÓRN Ísraels samþykkti í gær að sleppa úr haldi hópi palestínskra fanga í því augnamiði að styrkja friðarferlið í Mið-Austurlöndum. Palestínumenn létu sér þó fátt um finnast og sögðu ákvörðunina ekki standast kröfur sínar.
RÍKISSTJÓRN Ísraels samþykkti í gær að sleppa úr haldi hópi palestínskra fanga í því augnamiði að styrkja friðarferlið í Mið-Austurlöndum. Palestínumenn létu sér þó fátt um finnast og sögðu ákvörðunina ekki standast kröfur sínar.

Ísraelska stjórnin samþykkti ákvörðunina með þrettán atkvæðum gegn níu, að sögn embættismanna. Harðlínumenn í stjórninni voru alfarið á móti og t.a.m. lét Avigdor Lieberman, ráðherra uppbyggingarmála, þau orð falla eftir ríkisstjórnarfundinn að "fremur ætti að drekkja þessum Palestínumönnum en sleppa þeim úr haldi".

Ísraelska leyniþjónustan mun leggja til lista með nöfnum 200-400 palestínskra fanga en sérstök nefnd á vegum stjórnvalda ákveður endanlega hverjum verður sleppt. Ísraelar hafa þegar lýst því yfir að ekki sé hægt að sleppa mönnum sem tekið hafa þátt í ódæðisverkum gegn ísraelskum ríkisborgurum, né heldur nokkrum liðsmönnum Hamas eða samtakanna Heilagt stríð.

Ekki fullnægjandi

Útvarpsstöð í Ísrael sagði að listinn hefði að geyma 350 nöfn en ljóst er að margfalt fleiri Palestínumenn gista fangaklefa í Ísrael, eða á bilinu sex til átta þúsund. Að sögn heimildarmanna AFP ítrekaði Mohammed Dahlan, öryggismálastjóri Palestínumanna, það einmitt í samtali við Shaul Mofaz, varnarmálaráðherra Ísraels, í gær að sleppa þyrfti öllum palestínskum föngum. "Við sögðum honum að þetta væri gott fyrsta skref en engan veginn fullnægjandi," sagði heimildarmaðurinn.

Jerúsalem. AFP.