ÍSLENSKA karlalandsliðið í golfi tryggði sér þrettánda sætið á Evrópumóti landsliða sem lauk í Hollandi á laugardaginn. Íslenska liðið vann þá Portúgal 3-2 í jöfnum og spennandi leik þar sem nýliðinn Heiðar Bragason tryggði sigurinn á nítjándu holunni.
ÍSLENSKA karlalandsliðið í golfi tryggði sér þrettánda sætið á Evrópumóti landsliða sem lauk í Hollandi á laugardaginn. Íslenska liðið vann þá Portúgal 3-2 í jöfnum og spennandi leik þar sem nýliðinn Heiðar Bragason tryggði sigurinn á nítjándu holunni.

Örn Ævar Hjartarson og Magnús Lárusson léku fjórmenninginn og töpuðu 3/2. Fyrstur í tvímenningnum var Íslandsmeistarinn frá Akureyri, Sigurpáll Geir Sveinsson, og hann vann mótherja sinn á síðustu holu, 1/0, og jafnaði þar með leikinn.

Sigmundur Másson, annar nýliði í liðinu, var næstur á dagskrá og hann tapaði 3/2 þannig að Portúgal var komið 2-1 yfir og tveir leikir í gangi, báðir mjög jafnir.

Heiðar var næstur í röðinni og þar á eftir kom Haraldur Heimisson. Haraldur vann sinn mótherja á síðustu holu, 2/0, og því var allt jafnt þegar Heiðar skellti sér á nítjándu holuna. Taugarnar voru ekkert að vefjast fyrir nýliðanum, hann vann og tryggði sigurinn og 13. sætið.

"Við erum mjög sáttir við þetta sæti, raunhæft markmið hjá okkur fyrir mótið var næsta sæti fyrir ofan, það tólfta. Það náðist ekki en fyrir öllu var að komast í B-riðilinn og sleppa þar með við að fara í undankeppni fyrir næsta mót," sagði Ragnar Ólafsson aðstoðarlandsliðsþjálfari í samtali við Morgunblaðið eftir mótið. Hann sagðist sérstaklega ánægður með nýliðana þrjá, þeir hefðu komið sterkir til leiks.

Spánverjar urðu Evrópumeistarar, lögðu Englendinga í úrslitum, og Svíar urðu í þriðja sæti.

Magnús Lárusson og Ragnar héldu í gær til Tékklands þar sem Magnús verður með unglingalandsliðinu í Evrópumóti þess aldursflokks þannig að það er nóg að gera hjá þessum unga kylfingi.