Hulda Guðbjörnsdóttir fæddist á Máskeldu í Saurbæjarhreppi í Dalasýslu hinn 16. janúar 1920. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 23. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðbjörn Jakobsson, f. 1894, d. 1981, og Feldís Felixdóttir, f. 1894, d. á Máskeldu 1968. Systkini Huldu voru Jón, f. 1916, d. 1937, drengur andvana fæddur 1917, Ósk, f. 1918, d. 1920, Fjóla, f. 1923, d. 1995, Óskar, f. 1927, d. 1999. Hálfbróðir samfeðra er Jón Guðbjörn, f. 1943.

Sambýlismaður Huldu var Jón Eyjólfsson, f. 19. apríl 1904, d. 16. júlí 1952. Börn þeirra eru: 1) Guðmunda, f. 13. júlí 1938, gift Einari Kristinssyni, f. 1934, börn þeirra Kristinn Jón, f. 1959, Jón, f. 1960, Feldís Hulda, f. 1963, og Álfheiður Magný Lilja, f. 1968. 2) Eyja Margrét, f. 3. júní 1942, sambýlismaður Guðmundur Birgir Bjarnason, f. 1939, synir þeirra Jón, f. 1972, og Bjarni Valur, f. 1978. 3) Helga, f. 13. júlí 1944, gift Helga Rögnvaldssyni, f. 1947, börn þeirra Hulda, f. 1972, Rögnvaldur, f. 1974, og Smári, f. 1982. 4) Jón Guðbjörn, f. 3. apríl 1949, kvæntur Bjarneyju Þórðardóttur, f. 1953, börn þeirra eru Valgerður Kristín, f. 1972, Guðjón Björn, f. 1973, María Sigríður, f. 1981, Hulda Ósk, f. 1986, og Þórður, f. 1990.

Hulda stundaði búskap á Glæsivöllum og Fremri-Hrafnabjörgum en lengst af í Miðskógi í Dölum. Hún fluttist til Reykjavíkur árið 1976, á Laugarnesveg 106. Síðustu fjögur árin var hún á hjúkrunarheimilinu Skjóli.

Útför Huldu fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Ég kveð þig, elsku mamma mín, og þakka þér fyrir allt. Það var svo margt sem ég vildi segja þér síðustu dagana þegar þú varst orðin svo lasin að þú gast ekki talað lengur og ég vissi ekki hvort þú vissir af mér hjá þér. Það var svo erfitt að horfa á þig svona, ég sakna þín svo sárt og það er svo margs að minnast, allra stundanna sem við áttum saman. Alltaf varstu svo sterk og alltaf hugsaðir þú mest um okkur börnin þín sem vorum þér allt. En nú veit ég að þér líður vel og Guð tekur á móti þér. Ég þakka þér fyrir allt, elsku mamma mín, og Guð geymi þig.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig,

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér.

Því veit mér feta veginn þinn

og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Þín

Helga.

Elsku amma mín. Núna ertu farin - sofnuð svefninum langa. Ég veit að nú líður þér vel, en það er samt svo erfitt, ég sakna þín.

Nú ertu leidd, mín ljúfa,

lystigarð Drottins í,

þar áttu hvíld að hafa

hörmunga' og rauna frí,

við Guð þú mátt nú mæla,

miklu fegri en sól

unan og eilíf sæla

er þín hjá lambsins stól.

(Hallgrímur Pétursson.)

Brostu til alls og allra

í árvakri mannúðargjörð

og brosið mun

birtast þér aftur

í brosi

frá himni og jörð.

(Magnús Jónsson.)

Þú átt alltaf stað í hjarta mér, amma mín. Guð geymi þig.

Þín

Hulda H.