Aðalsteinn Jóhannsson framkvæmdastjóri landar urriða úr Seltjörn.
Aðalsteinn Jóhannsson framkvæmdastjóri landar urriða úr Seltjörn.
ÁFORMAÐ er að sleppa í dag 1000 urriðum í Seltjörn á Reykjanesi. Fiskurinn er af svonefndum ísaldarstofni, svipuðum og í Veiðivötnum og gamla stofninum í Þingvallavatni. Fyrirtækið Reykjanes Adventure ehf. tók Seltjörn á leigu í vor af Reykjanesbæ.

ÁFORMAÐ er að sleppa í dag 1000 urriðum í Seltjörn á Reykjanesi. Fiskurinn er af svonefndum ísaldarstofni, svipuðum og í Veiðivötnum og gamla stofninum í Þingvallavatni.

Fyrirtækið Reykjanes Adventure ehf. tók Seltjörn á leigu í vor af Reykjanesbæ. Vatnið er við Grindavíkurveg, á landi Reykjanesbæjar. Hyggst fyrirtækið byggja upp stofninn í vatninu og endurvekja veiðiánægjuna en það tók vatnið á leigu til fimm ára.

"Ég veiddi mikið í vatninu hér áður fyrr. Þetta er ákaflega fallegt og vel staðsett veiðivatn, stutt fyrir fólk að fara. Mig langaði því að bjarga vatninu," sagði Aðalsteinn Jóhannsson hjá Reykjanes adventure ehf. þegar blaðamaður leit við á dögunum. Þá var Aðalsteinn og samstarfsfólk hans að gera könnun á vatninu. Vitjaði um tvo litla netstubba sem þau lögðu kvöldið áður. Komu fimmtán fiskar í netin. "Þetta kemur mér virkilega á óvart, þetta eru svo litlir netstubbar. Hann segir að það sýni að enn sé töluvert af fiski í vatninu og hann sé feitur og pattaralegur.

Leigutakar vatnsins ákvaðu strax að rækta upp ísaldarsilungsstofn í vatninu en hafa ekki getað sleppt fiskinum fyrr en nú vegna hitans. Vatnið hefur nú kólnað og er áformað að sleppa 1000 fiskum, 2-4 punda að þyngd, í vatnið í dag.

Við það ætti veiðin að glæðast en hún hefur verið frekar dræm í vor. Þó hafa veiðimenn sem þekkja vatnið vel fiskað ágætlega.

Lögð er áhersla á fluguveiði í Seltjörn og að veiðimenn sleppi ósærðum fiski aftur í vatnið. Þó má hver maður taka með sér tvo fiska eftir daginn. Aðalsteinn segir að þetta sé liður í því að byggja upp stofninn. Hægt er að kaupa sér veiðileyfi fyrir dag í einu en einnig er boðið upp á sérstök sumarkort sem gilda allt sumarið.

Ísaldarurriðinn í Veiðivötnum og Þingvallavatni er einstæður. Hann er stórvaxinn og feitur. Er talið að hann hafi einangrast ofan ófiskgengra fossa fljótlega eftir að ísöld lauk og þaðan er nafnið fengið. Óvíða í heiminum er til hreinni stofn af þessari tegund urriða, að því er fram kemur á heimasíðu Veiðivatna. Urriðar af ísaldarstofni eru sérlega hraðvaxta og verða síðar kynþroska en urriðar af sjógöngustofnum eða stofnum í láglendisvötnum.