Fyrstu tónleikar Ungmennakórs Nýja Íslands verða í Vesturfarasetrinu á Hofsósi.
Fyrstu tónleikar Ungmennakórs Nýja Íslands verða í Vesturfarasetrinu á Hofsósi.
UNGMENNAKÓR Nýja Íslands í Kanada er staddur á Íslandi og mun kórinn halda tónleika víðs vegar um landið næstu daga. Um 30 kórfélagar eru í hópnum og með þeim um 20 aðstandendur.

UNGMENNAKÓR Nýja Íslands í Kanada er staddur á Íslandi og mun kórinn halda tónleika víðs vegar um landið næstu daga. Um 30 kórfélagar eru í hópnum og með þeim um 20 aðstandendur. Fyrstu tónleikarnir verða haldnir í Vesturfarasetrinu á Hofsósi sunnudaginn 27. júlí kl. 15.00. Þriðjudaginn 29. júlí heldur kórinn svo tónleika í Glerárkirkju á Akureyri kl. 20.00.

Stofnandi og stjórnandi kórsins er Rósalind Vigfusson sem getur rakið ættir sínar til Ólafsfjarðar í gegnum Krossaættina, til Flateyjardals og Hvassafells í Eyjafirði og Stóragerðis í Myrkárdal. Einar Vigfusson útskurðarmeistari, eiginmaður hennar, er líka af Krossaætt og svo ótrúlegt sem það kann að hljóma, þá eru þau bæði algjörlega kynhreinir Íslendingar. Sömu sögu er að segja um David Gislason bónda á Svaðastöðum við Árborg sem er fararstjóri hópsins. Forfeður Davids voru m.a. frá Arnarnesi í Arnarneshreppi og Dvergsstöðum í Eyjafirði.

Ungmennakór Nýja Íslands (The New Iceland Youth Choir) var stofnaður haustið 1999 eftir að Graduale-kór Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar hafði verið í heimsókn í Íslendingabyggðum Kanada sumarið áður og vakið mikla hrifningu. Þar vestra er mun minni söngmennt en almennt gerist á Íslandi. Þar er söngmennt lítil í skólum og skólakórar eru varla til. Þess vegna er afrek Rósalindar þeim mun merkilegra, að stofna kór sem syngur fyrst og fremst íslensk lög og aðallega á íslensku, þó svo að unga fólkinu sé íslenskan að sjálfsögðu engan veginn jafntöm og foreldrum þeirra, hvað þá öfum og ömmum. Rósalind hafði þó kynnst kórsöng sjálf hjá föður sínum, Jóhannesi Palsson, sem var fiðluleikari og tónlistarkennari þar vestra og stjórnaði þar ýmsum kórum barna og fullorðinna. Kórinn hefur vaxið úr 16 félögum í 27 sem búa í Arborg, Riverton, Geysir, Hnausa og Gimli sem eru lítil sveitarfélög á kanadískan mælikvarða við sunnanvert Winnipegvatn í Manitoba.

Kórinn hefur vakið verðskuldaða athygli þar í landi. Hann hefur komið víða fram og sungið fyrir forseta Íslands, forsætisráðherra og biskup Íslands og var valinn til að syngja fyrir Elísabetu Englandsdrottningu sl. haust þegar hún var þar í opinberri heimsókn. Hann hefur sungið á Íslendingahátíðum og þorrablótum vestra og sungið í útvarp og sjónvarp. Þá kom út geisladiskur með söng kórsins fyrir rúmu ári.

Frá Akureyri liggur leið kórsins um Mývatnssveit til Egilsstaða en þar verða tónleikar í kirkjunni fimmtudaginn 31. júlí kl. 20. Daginn eftir verða tónleikar í kirkjunni á Höfn í Hornafirði. Tónleikaferðinni lýkur svo í Reykjavík, þar sem haldnir verða tónleikar 3. og 4. ágúst.