Eitt af verkum Steinunnar Þórarinsdóttur á sýningunni í Nurnberg.
Eitt af verkum Steinunnar Þórarinsdóttur á sýningunni í Nurnberg.
STEINUNN Þórarinsdóttir myndhöggvari tekur um þessar mundir þátt í alþjóðlegri höggmyndasýningu í Nurnberg í Þýskalandi. Sýningin ber yfirskriftina "Haltestelle!

STEINUNN Þórarinsdóttir myndhöggvari tekur um þessar mundir þátt í alþjóðlegri höggmyndasýningu í Nurnberg í Þýskalandi. Sýningin ber yfirskriftina "Haltestelle!Kunst" eða List á stoppistöðvum og er við Zeltnerschloss-kastalann í miðborg Nurnberg og einnig á nokkrum áningarstöðvum strætisvagna í borginni. Kastalinn er frá 14. öld og á sér merkilega sögu en þar dvaldi m.a. málarinn Albrect Durer en hann er einn af þekktustu sonum Nurnberg. Síðustu áratugi hefur þar verið menningarmiðstöð sem er rekin af hinu opinbera. 30 listamenn frá 28 löndum taka þátt í sýningunni en Steinunni var boðið af skipuleggjendum sýningarinnar að taka þátt og er hún eini Íslendingurinn. Menntamálaráðuneytið og Myndstef styrktu þátttöku hennar. Sýningin er skipulögð í samvinnu við borgaryfirvöld og hefur verið í undirbúningi í tvö ár.

Steinunn sýnir útilistaverk sem hún nefnir þar ytra "Being There". Verkin eru staðsett við síkið sem umlykur Zeltnerschloss-kastalann og eru sérstaklega búin til fyrir sýninguna. Tveir menn í fullri líkamsstærð, annar úr áli en hinn úr pottjárni, hafa fengið sér sæti á garðbekkjum, en slíkir bekkir eru staðsettir víðsvegar við síkið og eru gjarnan notaðir af áhugasömum veiðimönnum.

Sýningin hefur vakið mikla athygli og verið fjallað um hana í dagblöðum og öðrum fjölmiðlum í Þýskalandi.

Mikill fjöldi manns hefur séð sýninguna en henni lýkur eftir nokkra daga.