Besti vinur mannsins ásamt besta vini mannsins.
Besti vinur mannsins ásamt besta vini mannsins.
VÍKVERJI telur sig slarkfæran og vel það þegar að tölvumálum kemur. Allt síðan að hann lærði að stimpla inn "load" á gömlu (og góðu) Sinclair Spectrum tölvuna sína hefur hann verið tiltölulega farsæll tölvunotandi. Eða hvað?

VÍKVERJI telur sig slarkfæran og vel það þegar að tölvumálum kemur. Allt síðan að hann lærði að stimpla inn "load" á gömlu (og góðu) Sinclair Spectrum tölvuna sína hefur hann verið tiltölulega farsæll tölvunotandi. Eða hvað? Kann hann í rauninni nokkuð? Altént virðist þekkingarsamfélag það sem tengist tölvum vera afar lag- og stéttarskipt. Hver ykkar lesenda kannast ekki við það að fá illt augnaráð og jafnvel óþolinmótt andvarp einhvers tölvusnillingsins þegar manns eina sök er að vita ekki eitthvað sem - að áliti þess sem maður er að tala við a.m.k. - er á hvers manns vitorði?

VÍKVERJI er þannig giska fær í því sem viðkemur "yfirborði" tölvunnar. Það er að segja að gluggaumhverfi Windows-kerfisins og skyldra forrita er honum nokkuð tamt og hann er fljótur að læra inn á slíkt. Hann hikar t.d. ekki við að segjast afar fær í Excel í vinnuumsóknum þótt hann hafi í raun aldrei komið nálægt því annars ágæta forriti! Annað er hins vegar uppi á teningnum er að innviðum tölvunnar kemur; tengingar, drif, diskar, snúrur og hvað þetta fargan allt heitir sem er inn í henni blessaðri. Þar stendur Víkverji nánast alltaf á gati. Svona líkt og með bílinn - keyra kann Víkverji en hann þekkir hvorki haus né sporð á því sem undir húddinu er. Víkverji telur sér það hins vegar til tekna að undanfarið finnst honum hann vera að læra meira og meira inn á tölvuheima þótt árangurinn megi telja í millimetrum dag hvern. Stóð sig meira að segja að því á dögunum að fylgjast áhugasamur með er einhver tölvugúrúinn var að krukka eitthvað í tölvunni hans.

VÍKVERJI er kominn undir þrítugt og tilheyrir því þeirri kynslóð sem er ansi dreifð hvað tölvuþekkingu viðkemur. Þeir sem nú eru undir tvítugu þekkja vart heim án bloggs eða Nets en margir þeirra sem komnir eru yfir fimmtugt þora vart að snerta tölvur af ótta við að þá springi þær í loft upp. Kynslóð Víkverja er einhvers staðar þarna á milli. Víkverji getur hins vegar státað af því að hafa lifað það lengi með tölvum að hann er kominn með fortíðarþrá gagnvart ákveðinni tegund. Því á milli innsláttar, tölvupóstsskrifa og slíks á skrifstofuvæna PC reikar hugurinn stundum aftur til gömlu (og góðu) Sinclair-tölvunnar. Til að svala þessari þrá lét Víkverji sér eitt sinn nægja að læðast inn í geymslu og taka gripinn út, tengja við sjónvarpið og hlaða inn nokkrum af uppáhaldsleikjunum sínum af snældum, eins og hátturinn var þá. En í dag - þökk sé nútíma PC og hinu yndislega Neti - er þetta óþarfi. Víkverji fer einfaldlega inn á veglega heimasíðu, tileinkaða þessari fornfrægu tölvu (www.worldofspectrum.org) þar sem honum býðst, sér að kostnaðarlausu, að hlaða niður Sinclair-hermi. Þannig getur hann spilað alla leikina "sína" í gegnum PC og fengið fortíðarþránni svalað og vel það. Á síðunni er meira að segja hægt að festa kaup á öllum gullmolunum fyrir u.þ.b. þúsundkall, og fær maður þá einn geisladisk með um 10.000 leikjum á (hver leikur er ekki nema nokkrir tugir bæta). Hugsa sér!