BIRGIR Leifur Hafþórsson virðist kunna vel við sig í Eyjum en síðast þegar keppt var í Vestmannaeyjum, árið 1996, sigraði hann með nokkrum yfirburðum. Það var síðast þegar Birgir Leifur keppti á Íslandsmótinu og miðað við byrjunina hjá honum ætti hann vel að geta endurtekið leikinn frá 1996.

Birgir Leifur spilaði frábært golf á öðrum degi Íslandsmótsins og á tímabili voru menn farnir að tala um nýtt vallarmet en það á Helgi Dan Steinsson GS sem fór á 63 höggum á stigamóti GSÍ í fyrra. Hann tók metið einmitt af Birgi Leifi sem hafði farið á 64 höggum. En honum tókst ekki að slá vallarmetið en kom engu að síður inn á frábæru skori, 65 höggum og þriggja högga forysta staðreynd þegar mótið er hálfnað. "Já, ég er mjög sáttur við spilamennskuna og er bara að uppskera það, að ég hef æft stíft að undanförnu og er búinn að koma mér í gírinn. Síðasta vika var einnig góð hjá mér og það er ágætt að vita að maður er ekki búinn að gleyma henni, ég hef greinilega náð að vista þetta eitthvað á harða diskinn og vona að það verði þar lengi."

Birgir var sex undir pari þegar tólf holur voru búnar en á síðustu sex holunum, sem margir telja að séu holurnar sem eiga eftir að ráða úrslitum í Eyjum enda erfiðasti partur vallarins, fékk hann tvo skolla og missti af tækifærinu á vallarmeti. "Ég fékk skolla á fimmtándu og sautjándu og það var frekar klaufalegt hjá mér, ég þrípúttaði fimmtándu og missti stutt pútt á þeirri sautjándu en í heildina var þetta mjög gott, ég setti niður tvö góð pútt og spilaði bara nokkuð stöðugt. Ég tók allar ákvarðanir rétt í dag og fylgdi því, stundum liggur það ekki alveg fyrir manni en það gerði það í dag og það var sérstaklega ánægjulegt að hafa klárað á fugli á átjándu." Birgir Leifur sagði að veðrið hafi verið mun betra en hann hafi átt von á enda gáfu veðurspár ekki til kynna þá blíðu sem leikið hefur við kylfinga fyrstu tvo keppnisdagana. "Þetta er algjör bónus, maður var nokkrum sinnum á "snús" takkanum á vekjaraklukkunni í morgun enda bjóst maður við rigningu en þetta er búið að vera flott hvað hefur ræst úr veðrinu." Birgir Leifur segist ánægður með þær breytingar sem gerðar hafa verið á vellinum. "Það er búið að þrengja hann talsvert og vallarstarfsmenn hafa aðeins sleppt sér í röffunum en mér finnst það bara gott mál, þú þarft að vera beinn til þess að geta skilað góðum bolta á flatirnar. Völlurinn er bara frábær.

Ég reikna nú með að mótið vinnist á skori undir pari en veðrið getur auðveldlega sett þar strik í reikninginn, en maður er svo sem ekkert að hugsa um það heldur tekur eitt högg í einu," sagði Birgir Leifur.

Eftir Sigursvein Þórðarson