Stefán Gíslason lék vel í liði Keflvíkinga.
Stefán Gíslason lék vel í liði Keflvíkinga.
KEFLVÍKINGAR fögnuðu sigri á Blikum í Keflavík í gærkvöldi og má segja að þeir hafi landað sigrinum á æsispennandi lokamínútum fyrir áhorfendur. Þeir skoruðu tvö síðustu mörkin á tveimur síðustu mín. leiksins, 3:1. Keflvíkingar halda öruggri forustu í 1. deild en liðið er með 26 stig að loknum 11 umferðum en Þór frá Akureyri er þar næst í röðinni með 21 stig. Staða Breiðabliks er hinsvegar verri en liði er í fallsæti með 10 stig en Leiftur/Dalvík er þar fyrir neðan með átta stig.

Leikurinn byrjaði mjög vel. Bæði liðin áttu hörkuskot að marki strax á upphafsmínútunum - fyrst var það Stefán Gíslason fyrir Keflvíkinga, en fyrir gestina var það Kristófer Sigurgeirsson sem skaut rétt framhjá. Liðin skiptust á að sækja og voru að spila mjög skemmtilega knattspyrnu í fyrri hálfleik. Á 26. mínútu fengu Keflvíkingar hornspyrnu. Haraldur Guðmundsson og Stefán Gíslason stukku manna hæst í vítateignum en náðu þó ekki að gera sér mat úr spyrnunni. Knötturinn datt inn í markteig og þar var Hörður Sveinsson vel vakandi og náði að skora, 1:0. Á 34. mín. náðu Blikar að skora eftir hornspyrnu, 1:1. Þar var að verki Ívar Sigurjónsson, en hann nýtti sér varnarmistök Keflvíkinga. Eftir að gestirnir náðu að jafna leikinn róaðist leikurinn. Þau færi sem heimamenn fengu, stöðvuðust flest í höndum Páls Gísla Jónssonar, markvarðar Breiðabliks, sem átti mjög góðan leik.

Seinni hálfleikur var mjög bragðdaufur. Keflvíkingar voru meira með knöttinn, en sköpuðu sér fá færi. Það var á síðustu 10. mínútunum sem leikurinn fór aftur í gang. Þá voru Keflvíkingar mun hættulegri. Besta færi Blikanna var þegar Hörður Bjarnason komst einn inn fyrir vörn Keflvíkinga eftir glæsilegan einleik, en Ómar Jóhannsson, markvörður Keflvíkinga, kom á réttum tíma út úr markinu og varði vel skot Harðar. Á 88. mínútu lék Magnús Þorsteinsson í gegnum vörn Breiðabliks og skoraði fallgegt mark, 2:1. Gestirnir úr Kópavogi sóttu hart að marki Keflvíkinga undir lokin. Þeir fengu hornspyrnu á síðustu mínútu leiksins. Keflvíkingar náðu knettinum og Guðjón Antoníusson sendi hann fram völlinn. Þar var Þórarinn Kristjánsson einn á auðum sjó. Þórarinn lék á markvörð Blikanna, sem felldi hann inni í teig. Gylfi Orrason, ágætur dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu og gaf Páli markverði rautt spjald. Úr vítaspyrnunni skoraði Zoran Ljubicic, 3:1.

Í liði gestanna var Páll Gísli markvörður mjög góður. Þá áttu þeir Sævar Pétursson og Kristófer Sigurgeirsson ágætan leik. Í sókninni hjá Blikum bar einna mest á Ívari Sigurjónssyni og Herði Bjarnasyni, eftir að hann kom inn á.

Í liði heimamanna áttu þeir Stefán Gíslason og Jónas Sævarsson mjög góðan leik. Jónas var mjög vinnusamur á miðjunni. Scott Ramsey sýndi oft ágæta takta. Magnús Þorsteinsson var sprækur í framlínunni eins og Þórarinn, eftir að hann kom inn á. Þá áttu varnarmenn Keflvíkinga góðan leik.

Maður leiksins: Jónas Sævarsson Keflavík

Atli Þorsteinsson skrifar