Bagdad-búar fylgjast með útsendingu arabísku Al-Jazeera-stöðvarinnar á myndum af líkum sona Saddams í gær.
Bagdad-búar fylgjast með útsendingu arabísku Al-Jazeera-stöðvarinnar á myndum af líkum sona Saddams í gær.
BANDARÍKJAHER sýndi fréttamönnum líkin af Uday og Qusay Hussein í gær en fram kom í máli útfararstjóra og meinafræðinga Bandaríkjahers að átt hefði verið við andlit bræðranna þannig að líkin líktust þeim sem mest eins og þeir voru í lifanda lífi.

BANDARÍKJAHER sýndi fréttamönnum líkin af Uday og Qusay Hussein í gær en fram kom í máli útfararstjóra og meinafræðinga Bandaríkjahers að átt hefði verið við andlit bræðranna þannig að líkin líktust þeim sem mest eins og þeir voru í lifanda lífi. Mátti sjá að skegg bræðranna hafði verið rakað og snyrt en alskegg Qusays hafði m.a. þótt villa mönnum nokkuð sýn á myndunum, sem voru birtar opinberlega í fyrradag. Þá kom fram hjá fulltrúum Bandaríkjahers að á hvoru líki fyrir sig væri að finna meira en tuttugu sár eftir byssukúlur.

Bandaríkjamenn leggja allt kapp á að sannfæra Íraka um að þeir Uday og Qusay séu allir, enda telja þeir að þannig sannfærist fólk best um það að dagar ríkisstjórnar Saddams Husseins séu sannarlega á enda runnir í Írak. Þar sem margir efuðust enn eftir að Bandaríkjamenn birtu myndir í fyrradag af bræðrunum var hópi óháðra fréttamanna boðið að skoða líkin í gær.

Líkin geymd í frysti

Bæði líkin voru illa lemstruð, slæmar skeinur voru sjáanlegar og einnig brunasár. Líkin voru þó minna blóðug en á myndunum sem voru birtar í fyrradag. Sögðu fréttamenn reyndar að andlit bræðranna hefðu verið snyrt svo mikið að þau líktust helst andlitum vaxbrúða.

Uday er talinn hafa dáið af völdum höfuðhöggs. Tvö skotsár eru hins vegar á höfði Qusays, að sögn krufningarlækna, annað á bak við hægra eyrað. Sögðust læknarnir ekki telja að bræðurnir hefðu sjálfir veitt sér þessi sár en því hefur verið fleygt að hugsanlega hefði Uday sjálfur ráðið sér bana þegar honum var orðið ljóst að hann ætti enga undankomuleið.

Fulltrúar Bandaríkjahers sögðu að líkin yrðu geymd í frysti á alþjóðaflugvellinum í Bagdad þar til einhver ættingi gerði kröfu til þeirra. Viðræður hafa þó staðið yfir við fulltrúa framkvæmdaráðs Íraks, sem nýverið var sett á laggirnar, um hvernig unnt er að varðveita líkin í samræmi við trúarsiði múslíma.

Einn úr læknasveit Bandaríkjahers sagði að lík Udays og Qusays hefðu hlotið sömu meðhöndlun og öll önnur. Er gert ráð fyrir að lokaskýrsla um dauða bræðranna liggi fyrir innan sex vikna. Fréttamenn fengu m.a. að sjá járnbita sem skurðlæknar fjarlægðu úr líki Udays, en bitanum var komið fyrir í fæti hans í skurðaðgerð árið 1996, sem framkvæmd var eftir að reynt var að ráða hann af dögum. Læknar sögðu ennfremur að krufning hefði leitt í ljós að bræðurnir hefðu verið við góða heilsu þegar þeir féllu í skotbardaganum á þriðjudag.

Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur varið myndbirtingu af líkum Udays og Qusays en sagði þó að ákvörðun þar að lútandi hefði ekki verið auðveld. Mikilvægt væri hins vegar fyrir Íraka að sjá með eigin augum að þeir væru liðnir fyrir fullt og allt.

Bagdad. AP, AFP.