Þór frá Akureyri komst í annað sæti 1. deildar í knattspyrnu er þeir lögðu HK að velli í gær með þremur mörkum gegn einu. Fyrri hálfleikur var tíðindalítill til að byrja með og liðin skiptust á að sækja án þess að skapa sér umtalsverð færi.

Þór frá Akureyri komst í annað sæti 1. deildar í knattspyrnu er þeir lögðu HK að velli í gær með þremur mörkum gegn einu.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill til að byrja með og liðin skiptust á að sækja án þess að skapa sér umtalsverð færi. Gísli Ólafsson var með varnarmönnum Þórs til að byrja með, hann komst í ágætt færi á 10. mínútu sem Atli Már Rúnarsson í marki Þórs varði í horn. Leikurinn var í jafnvægi og fátt markvert gerðist allt fram að 34. mínútu þegar Freyr Guðlaugsson fékk boltann úti við hægri hornfána, lék á varnarmann HK, þá út í teig og skaut loks fram hjá Gunnleifi Gunnleifssyni í marki HK og kom Þórsurum yfir, 1:0. Hörður Már Magnússon fékk ákjósanlegt færi til að jafna metin mínútu síðar en Atli Már sá við honum. Þórsarar sóttu stíft það sem eftir lifði hálfleiksins en þeim tókst ekki að auka forystuna áður en flautað var til leikhlés.

Þórsarar voru betri aðilinn í seinni hálfleik og juku forystu sína sanngjarnt á 65. mínútu þegar Alexander Santos afgreiddi fyrirgjöf Péturs Kristjánssonar í netið. Gestirnir gerðust einum of værukærir eftir markið og það nýttu leikmenn HK sér og minnkuðu muninn í 2:1. Þar var að verki Hörður Már en skot hans hafði viðkomu í varnarmanni á leið sinni í mark Þórs. HK lagði allt í sölurnar til þess að jafna metin á kostnað varnarinnar og það gátu Þórsarar notfært sér á 90. mínútu þegar Jóhann Þórhallsson innsiglaði sigur gestanna og skoraði þriðja mark Þórs og sitt 13. á tímabilinu.

Hlynur Birgisson og Pétur Kristjánsson áttu fínan leik fyrir Þór, einnig var Jóhann Þórhallsson áberandi en hann fór þó illa með nokkur prýðisgóð færi. Hjá HK átti Hörður Már góðan leik og Gísli Ólafsson var áberandi í fyrri hálfleik.

Maður leiksins:

Hlynur Birgisson.

Benedikt Rafn Rafnsson skrifar