Elín Jónasdóttir handverkskona með prjónana fyrir utan verslun Kaðlíns.
Elín Jónasdóttir handverkskona með prjónana fyrir utan verslun Kaðlíns.
FJÖLBREYTTUR heimilisiðnaður svo sem vefnaður, prjónaðar peysur, vettlingar, húfur, sokkar, sjöl og dúkar einkenna verslun Kaðlín handverkshópsins á Húsavík sem nú hefur starfað í nítján ár og verið með sölustarfsemi allt frá árinu 1994.

FJÖLBREYTTUR heimilisiðnaður svo sem vefnaður, prjónaðar peysur, vettlingar, húfur, sokkar, sjöl og dúkar einkenna verslun Kaðlín handverkshópsins á Húsavík sem nú hefur starfað í nítján ár og verið með sölustarfsemi allt frá árinu 1994.

Það er margt forvitnilegt sem laðar að ferðamennina í handverkshúsið en þeir nú flykkjast í bæinn enda fjölgar aðkomufólki gríðarlega yfir sumarið og margir líta við bæði til þess að skoða og versla t.d. ullarvörur, ýmislegt úr roði, tré og hrosshári; einnig heimagerðar sultur, fjallagrös, handunnin kort o.m.fl. Þá hafa leyndarmálakrúsir og lopapeysur á dúkkuna "Baby-born" vakið athygli.

Handverksverslunin er í Pakkhúsinu sem er eitt af gömlu húsum Kaupfélags Þingeyinga sem búið er að endurbyggja og þar er búið að innrétta bæði vinnuaðstöðu og aðstöðu til þess að reka verslun enda húsið á mjög góðum stað í miðbænum.

Þarna gefur m.a. að líta vefstól sem oft er unnið í og á verslunartíma má sjá ýmsar vinnuaðferðir við handverk sem margir hafa gaman af að kynnast og prjónað er og heklað eftir því sem tími er til á milli þess sem rætt er við viðskiptavinina.

Kaðlín handverkshópurinn samanstendur af 14 konum í bænum og skiptast þær á að vera í búðinni sem er opin alla daga vikunnar yfir sumarið.

Laxamýri. Morgunblaðið.