ELDRIBORGARAR á Eyrarbakka tóku sér ferð á hendur föstudaginn 18. júlí s.l. og óku um nokkurn hluta sögusviðs Njálssögu.

ELDRIBORGARAR á Eyrarbakka tóku sér ferð á hendur föstudaginn 18. júlí s.l. og óku um nokkurn hluta sögusviðs Njálssögu. Fyrst var komið við í Sögusetrinu á Hvolsvelli, þar sem Magnús Finnbogason leiddi hópinn um sögusýninguna og reyndar einnig sögulega sýningu um kaupfélögin, sem þar er líka til húsa. Þá var ekið undir leiðsögn Magnúsar upp Rangárvelli og numið staðar við Gunnarsstein, en þar las Magnús kaflann um bardagann við Knafahóla úr Njálu. Bíll ferðalanganna var ekki búinn til fjallaferða, svo snúið var við og ekið framhjá Keldum og Gunnarsholti niður á þjóðveg og sem leið liggur austur og inn í Fljótshlíðina að Hlíðarenda. Eftir litla dvöl þar var svo haldið í Rauðuskriður að Gunnarshólma. Þegar í Hvolsvöll kom, var fram borin íslensk kjötsúpa í fornum sal í Sögusetrinu. Leiðsögn Magnúsar náði ekki einungis vel til atburða úr Njálu, heldur kynnti hann nútímann, bændur og býli í leiðinni.

Ferðalangarnir voru heppnir með veður, enda hlýjasti dagur sumarsins, með sól og blíðu.