ROKKTÓNLEIKAR voru haldnir á umferðareyju í Lönguhlíðinni í Reykjavík fyrir skömmu. Þar voru komnir saman þrír guttar úr hverfinu sem spiluðu rokk af miklum krafti og sýndu glæsileg tilþrif.

ROKKTÓNLEIKAR voru haldnir á umferðareyju í Lönguhlíðinni í Reykjavík fyrir skömmu. Þar voru komnir saman þrír guttar úr hverfinu sem spiluðu rokk af miklum krafti og sýndu glæsileg tilþrif. Skemmtunin var samt ekki alveg ókeypis fyrir aðdáendur því hljómsveitarmeðlimir þáðu mjög gjarnan framlag af vegfarendum og hlupu þá með fötu, sem reyndar var hluti af trommusettinu, til áhorfenda á milli laga og jafnvel í miðju lagi ef vel bar í veiði. Þeir höfðu nokkra aura upp úr krafsinu, fyrst var hundraðkall alveg nóg en þegar einhver setti í fötuna þúsundkall, að því drengirnir sögðu, fannst þeim það nokkurs konar lágmarksgjald.

Morgunblaðið mætti óvænt á svæðið, borgaði tollinn og hitti rokkarana sem kynntu sig sem Kristófer gítarkall, Sigurður trommukall, báðir 8 ára, og Breki, 6 ára rafmagnsgítarkall, sem tók sérstaklega fram að hann væri alveg rosalegur rokkari. Óvíst var með leyfi fyrir hátíðinni en þá var kassabíll hljómsveitarinnar tilbúinn til að ferja hljóðfæri og hljómsveit hið snarasta á brott - líka ef þeir yrðu kallaðir inn í háttinn.

Lengst til vinstri á myndinni er Sigurður, sem að öllu jöfn lék á trommur en greip í gítarinn, næst Kristófer gítarleikari með trommukjuðana og Breki - 6 ára rafmagnsgítarkarl.