[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÁKI Ármann Jónsson, yfirmaður veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar, segir að ákvörðun umhverfisráðherra um að banna veiðar á rjúpu í þrjú ár hafi komið sér á óvart.

ÁKI Ármann Jónsson, yfirmaður veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar, segir að ákvörðun umhverfisráðherra um að banna veiðar á rjúpu í þrjú ár hafi komið sér á óvart. Í kjölfar þess að Náttúrufræðistofnun lagði fram tillögur sínar um að friða rjúpuna í fimm ár var meðal annars leitað eftir umsögn Umhverfisstofnunar og í henni kom fram að stofnunin væri mótfallin tillögum um alfriðun en legði í staðinn til styttingu veiðitímabilsins og bann við veiðum á ákveðnum vikudögum.

"Greinargerð okkar byggðist á því að rjúpan er ekki í sögulegu lágmarki eins og Náttúrufræðistofnun heldur fram. Lágmark rjúpnastofnsins er ekki lægra nú en áður," segir Áki en rjúpnastofninn sveiflast frá hámarki niður í lágmark á um tíu ára fresti. "Þegar Náttúrufræðistofnun talar um sögulegt lágmark á hún við að topparnir fara lækkandi. Við töldum að alfriðun væri einungis réttlætanleg ef stofninn stefndi í allsherjarhrun, sem er ekki því hann hefur áður verið í sömu lægð og hann er núna og náð sér upp aftur," segir Áki og bætir við að alfriðun væri einnig réttlætanleg ef öðrum friðuðum tegundum, t.d. fálkanum, stafaði hætta af fækkun tegundarinnar. "Það á ekki heldur við núna, fálkinn er ekki í hættu samkvæmt okkar gögnum, heldur hefur hann styrkst undanfarin ár ef eitthvað er."

Að mati Umhverfisstofnunar var því friðun rjúpunnar ekki réttlætanleg að svo komnu máli. "Að okkar mati var sölubann á rjúpuna besti kosturinn í stöðunni og það hefði farið langt með að draga nægjanlega úr veiðum. Það gekk hins vegar ekki eftir og því lögðum við til að flýta fyrir uppsveiflu rjúpunnar með því að stytta veiðitímabilið og banna veiðar á sunnudögum og jafnvel miðvikudögum líka, til að draga úr veiðiálaginu á rjúpunni en sú aðferð er notuð við veiðistjórnun í öðrum löndum. Auk þess lögðum við til að griðsvæði rjúpunnar yrðu kortlögð og griðasvæðum í framhaldinu fjölgað," segir Áki.

Afleiðingar styttri veiðitíma ekki nákvæmlega þekktar

Í greinargerð Náttúrufræðistofnunar til umhverfisráðherra var fjallað um styttingu veiðitímabilsins og kom þar meðal annars fram að stytting veiðitímabilsins leiddi til aukins álags á rjúpuna þann tíma sem má veiða hana og að veiðin væri allajafna mest fyrstu vikurnar. Áki segir að það sé rétt hjá Náttúrufræðistofnun að veiðiálagið sé mest fyrstu vikurnar en ekki sé vitað nákvæmlega hvaða afleiðingar stytting veiðitímans muni í raun hafa og á meðan er aðeins um vangaveltur að ræða. Hann segir að ef hugmyndir Umhverfisstofnunar um styttingu tímabilsins og frídaga hefðu náð fram að ganga hefði verið hægt að sjá með mælingum á veiðum og sóknardögum hvaða árangri þær skiluðu og ef í ljós kæmi að þær aðgerðir hefðu ekki skilað árangri mætti taka upp alfriðun.

Áki bendir jafnframt á að lækkandi toppar hjá rjúpunni á Íslandi séu ekki einsdæmi, heldur sé þetta raunin í öðrum rjúpnastofnum á Skandinavíu og raunar hjá öðrum fuglastofnum líka. "Vaxtartoppar hjá læmingjum eru til dæmis næstum því horfnir þrátt fyrir að læmingjar séu ekki veiddir."

Að sögn Áka hafa vísindamenn á Skandanavíu í auknum mæli bent á að aðrir þættir gætu verið orsakavaldar, t.d. mengun, ósonlagið, gróðurhúsaáhrif og önnur umhverfisáhrif sem sjáist ekki og það gæti verið það, ekki síður en veiðiálagið, sem valdi vandanum.

"Að vísu hefur Náttúrufræðistofnun réttilega bent á að veiðarnar eru eini þátturinn sem hægt er að hafa áhrif á enda lögðum við fram okkar tillögur um hvernig draga mætti úr veiðinni."

Eftirlit með veiðum á rjúpunni rofnar

Áki segir að veiðibannið muni ennfremur hafa þær afleiðingar að það eftirlit sem fór af stað árið 1995 með veiðikortakerfinu, rofni nú þegar stofninn er í lágmarki en engar veiðitölur eru til um rjúpnastofninn í því ástandi. Áki telur endurkröfur vegna greiddra veiðikorta sanngjarnar enda séu um 60% þeirra sem stunda veiðar rjúpnaveiðimenn og bendir á að þeir peningar sem komið hafi inn í veiðikortasjóð hafi staðið undir rannsóknum á fuglalífi en innkoma sjóðsins mun minnka verulega næstu árin og því sé umhugsunarvert hvort ríkið ætli að taka að sér að greiða fyrir þær rannsóknir.