Brynjar Páll Guðmundsson fæddist á Selfossi 18. nóvember 1997. Hann lést af slysförum hinn 20. júlí síðastliðinn. Foreldrar hans eru Guðmundur Jónsson, f. 13. júlí 1961, og Áslaug Pálsdóttir, f. 15. september 1958. Systkini Brynjars Páls eru Þórhildur Svava Svavarsdóttir, tannsmiður, f. 7. febrúar 1978, heitmaður hennar er Torfi Ragnar Sigurðsson, laganemi, f. 27. september 1980, og Jón Ingibergur Guðmundsson, f. 19. október 1995. Foreldrar Guðmundar eru Jón Ingibergur Guðmundsson, yfirlögregluþjónn á Selfossi, f. 20. október 1923, d. 22. apríl 2001, og Bryndís Sveinsdóttir, kona hans, f. 13. desember 1921. Foreldrar Áslaugar eru Páll Jónsson, tannlæknir á Selfossi, f. 22. ágúst 1924, og kona hans, Þórhildur Svava Þorsteinsdóttir, f. 4. febrúar 1931.

Útför Brynjars Páls fer fram frá Selfosskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Við vorum búin að vera nokkra daga í sumarhúsinu okkar. Þau Heiða og Nonni voru að hjálpa okkur að mála og verkið gekk mjög vel og allt var svo ljómandi fallegt svona nýmálað.

Þá hafði veðrið leikið við okkur hvern dag og á föstudaginn var hitinn 27 stig og blankalogn allan daginnn. En á örlagadaginn sunnudaginn 20. júlí var sólarlítið og hitinn komst í 17 stig. Hvað gat maður hugsað sér betra? Það var svo seinnipart dagsins að síminn hans Nonna hringdi, það var Þorsteinn tannlæknir bróðir hans og færði okkur þær hræðilegu fréttir að Brynjar Páll litli dóttursonur okkar hefði látist af slysförum úti í Selvogi þar sem Guðmundur og Áslaug voru í bústað með drengina sína.

Það er stutt leið úr Erlurimanum hingað í Seftjörnina og þeir bræður Jón Ingibergur og Brynjar Páll komu stundum oft á dag á hjólunum sínum til að heimsækja afa og ömmu. Þeir voru snarir í snúningum og hressandi blær fylgdi þeim alltaf og þeir voru horfnir áður en við var litið, en nú kemur Brynjar ekki meir og sorg og söknuður munu taka við.

Þegar við heyrðum ótíðindin flýttum við okkur í Sjúkrahúsið á Selfossi og í litlu kapelluna þar sem sr. Gunnar Björnsson hafði með okkur dásamlega helgistund sem verður fjölskyldunni ávallt ógleymanleg. Að því loknu fórum við í setustofu aðstandenda þar sem sr. Gunnar, Ágúst Örn Sverrisson læknir og Signhildur hjúkrunarfræðingur veittu okkur áfallahjálp, sem var ómetanleg og ég þakka með bljúgu hjarta fyrir hönd fjölskyldunnar. Það var léttir að geta grátið. Við biðjum foreldrum Brynjars Páls, bróður hans, systur og mági guðs blessunar á þessum erfiðu tímum og kveðjum nú litla vininn okkar hann Brynjar Pál hinstu kveðju og treystum því að hinn hæsti höfuðsmiður himins og jarðar greiði leið hans á ókunnum slóðum.

Þórhildur Svava Þorsteinsdóttir og Páll Jónsson.

Það verða ólýsanlega þung spor sem við stígum þegar við í dag fylgjum til grafar litla sólageislanum honum Brynjari Páli. Brynjar, eða Binni eins og við á Kvistási kölluðum hann, var tíður gestur með mömmu sinni og ávallt fjör á heimilinu þegar hann kom. Hann var með eindæmum frískur strákur, uppátækjasamur og skemmtilega stríðinn. Þetta fengum við oft að reyna. Ósjaldan höfum við setið saman fjölskyldan og sagt sögur af uppátækjum hans og haft á orði að hann væri okkar Emil í Kattholti. Brynjar Páll var áhugasamur um umhverfi sitt og eftirtektarsamur, sérfróður um hvers konar vinnuvélar og tæki og fræddi okkur hin um hestöfl og hásingafjölda trukka sem við sáum. Þennan áhuga fékk hann frá störfum pabba síns á þeim ófáu ferðum sínum með honum í slíkum tækjum.

Brynjar Páll og bróðir hans, Jón Ingibergur, voru í miklu uppáhaldi hjá frændum sínum, Kristjáni Patreki og Þorbergi, og var virðingarstiginn aldurstengdur sem leiddi til þess að Þorbergur tveggja ára tók Brynjar Pál sem fyrirmynd í öllu. Þeir bræður, Jón Ingibergur og Brynjar Páll, voru ákaflega hændir hver að öðrum, sjaldnast sáust þeir nema saman og er missirinn því Jóni Ingibergi mjög sár. Svövu systur sína dýrkuðu þeir báðir og var hrífandi að sjá þá ást sem á milli systkinanna ríkti.

Að leiðarlokum þökkum við fyrir þau tæpu sex ár sem við fengum að hafa Brynjar Pál með okkur, það voru forréttindi.

Elsku Ása, Gummi, Jón Ingibergur, Svava og Torfi, það eru erfiðir tímar og djúp sár í sálum okkar allra. Megi himnafaðirinn og tíminn lina þá þjáningu.

Þorsteinn, Jónína og börn.

Elsku Binni, við þökkum fyrir þær stundir sem við höfum fengið að njóta samveru þinnar, sem kannski oftar en ekki var í sumarbústað afa og ömmu í Grímsnesinu. Þar gátuð þið bræður unað ykkur frá morgni til kvölds við leik og sprell, og ef eitthvað var verið að taka til hendi vildir þú ólmur fá að vera með og hjálpa til. Söknuður verður að heyra ekki lengur í litlum frænda sem hringdi í Hafnarfjörðinn fullur af áhuga og vildi fá að vita allt um þyrlur, flugvélar og bíla.

Þótt sorg og söknuður sé í hjarta mun minning þín alltaf lifa með okkur um ókomna tíð.

Þökk fyrir okkar stundir,

þökk fyrir brosið þitt.

Þú hefur sól og hlýju,

sent inn í hjarta mitt.

(Höf. ók.)

Elsku Ása, Guðmundur, Jón Ingibergur, Svava og Torfi við biðjum þess að Guð styrki ykkur í sorginni.

Jón, Aðalheiður, Páll og Þór.

Það eru daufir litirnir yfir bænum okkar þessa dagana. Regnboginn hans Brynjars sem lýsti svo vel upp bæinn er lagstur til hliðar. Krafturinn og orkan sem bjó í þessum litla manni var með ólíkindum mikil.

Okkar leiðir lágu oftast saman í sundlauginni þar sem hann var á leik með stóra bróður meðan mamma var að synda. Svo var stoppað í pottinum eftir leikinn og tókum við þá oft lítið spjall saman. Sameiginleg frændsystkin voru oftast umræðuefnið og síðasta spjallið okkar snerist einmitt um hvort við værum að fá litla frænku eða frænda því von var nýju barni innan tíðar. Og komin var spenna í loftið.

Fjörið í kringum þennan litla mann var mikið og litaði hann lífið sterkum og skærum litum. Mínar innilegustu samúðarkveðjur sendi ég fjölskyldu hans allri. Og bið góðan guð um að gefa ykkur styrk til að takast á við framtíðina án hans.

Regnboginn hans mun rísa að nýju því minningin um fjörkálfinn litla mun lifa að eilífðu.

Vigdís Rós Gissurardóttir.

Það er ólýsanlega stutt á milli hláturs og gráturs. Örlagadaginn 20. júlí sl. sat ég með henni Svövu minni upp í sófa og klappaði bumbunni á henni, ég þóttist finna spark enda ekki nema tæpir tveir mánuðir í fæðingu frumburðarins, í sömu andrá hringir Gummi hennar Ásu með þær hörmungarfréttir að hann Binni litli væri dáinn. Skyndilega er veröldinni kippt undan manni og snúið á hvolf, eftir standa vandamenn og vinir lamaðir af sorg, uppfullir af endalausum spurning sem aldrei fást svör við. Af hverju hann? Af hverju fær svona lítill drengur ekki að vera aðeins lengur hjá okkur? Af hverju fær svona lítill drengur ekki einu sinni að kaupa skólatösku, eins og hann hlakkaði svo til? Af hverju fær svona lítill drengur ekki að fá fullorðinstennurnar sínar eins og hann hlakkaði svo til, því þá gæti hann sagt R? Það er eflaust einhver tilgangur með öllum þessum harmleik, en hann fáum við er eftir stöndum eflaust aldrei skilið.

Hún er mér alltaf minnisstæð ferðin á spítalann þegar ég sá Brynjar Pál fyrst. Í þeirri sömu ferð heimsótti ég aldraðan langafa minn í hinsta sinn, hann lést örfáum dögum síðar en þú komst heim af spítalanum og minnti mann á að svona væri gangur lífsins. Það er því erfitt að sætta sig við atburð sem þennan sem er þvert á gang lífsins. En huggun er að finna í endalausum minningum, um lítinn glaðværan glókoll með prakkaraglottið sitt, sem einhvern veginn vissi alltaf mun betur en við hin hver hans tilgangur væri, hann vildi allt gera og allt sjá á sem stystum tíma, það var sjaldan lognmolla í kringum litla drenginn sem ekkert hræddist. Brynjar minn, þín fimm litlu ár marka djúp spor í líf mitt er aldrei fennir yfir, ég er þess ævinlega þakklátur að hafa fengið þennan stutta tíma með þér og gæfi ég allt fyrir að fá að lengja þennan tíma þótt ekki væri nema um fimm mínútur.

Elsku Ása, Gummi, Jón Ingibergur og Svava mín, Guð gefi okkur styrk til að takast á við sorgina á þessum erfiðu tímum.

Þinn vinur

Torfi Ragnar Sigurðsson.

Elsku Binni. Það er erfitt að hugsa til þess að ég eigi ekki eftir að sjá þig aftur, trúi því ekki að þú sért dáinn. Að þú eigir ekki eftir að dingla, kíkja svo í gegnum bréfalúguna og athuga hvort það sé ekki einhver að koma til dyra. Bara í síðustu viku vorum við úti á bletti að spila golf, þú settir full mikinn kraft í höggin, og skaust oftast yfir holuna sem við höfðum búið til. Þau voru ófá skiptin sem ég, þú og Jón bróðir þinn vorum úti í bíló, í fótbolta eða eitthvað annað að bardúsa. Okkur datt nú ýmislegt í hug til að gera - sem ekki vakti nú fögnuð allra.

Elsku Binni, ég kveð þig með söknuði og bið góðan Guð að geyma þig.

Þinn vinur,

Arnar Freyr.