Halldór Jón Hansen barnalæknir fæddist í Reykjavík 12. júní 1927. Hann lést á líknardeild Landspítala - háskólasjúkrahúss á Landakoti 21. júlí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík 31. júlí.

Í meira en 40 ár lágu leiðir okkar Halldórs Hansen saman þar sem við vorum samstarfsmenn á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Halldór var ekki aðeins samstarfsmaður heldur einnig góður vinur sem ómetanlegt var að eiga að.

Þegar Halldór hóf störf hafði hann nýlokið sérnámi í barnalækningum. Fljótlega ávann hann sér virðingu og traust meðal þeirra sem við hann áttu samskipti, ekki síst hinna ungu skjólstæðinga og foreldra þeirra. Hann var mikill hugsjónamaður og braut viðfangsefni sín til mergjar af vísindalegum áhuga. Hann helgaði starfsævi sína heilsuvernd og geðvernd barna, hinum mjúku og lítt áþreifanlegu málum.

Við samstarfsmenn Halldórs kynntumst ekki aðeins lækninum og mannvininum Halldóri, heldur einnig tónlistarmanninum. Var tónlistin honum dyggur förunautur alla tíð og veitti honum mikla lífsfyllingu.

Halldór var glæsimenni og félagslyndur. Húmoristi var hann mikill og kunni ógrynni af skemmtilegum og hnyttnum sögum og tilvitnunum. Honum lá lágt rómur og hann talaði ekki með miklum tilþrifum eða áherslum, en gaf frásögninni einhvern þann tón að unun var á að hlýða. Þótt hógvær væri var hann heimsborgari og ferðaðist víða. Hann var einstakur tungumálamaður og talaði minnst sjö tungumál, flest reiprennandi.

Halldór var jafnlyndur, ekki urðu menn varir við að hann skipti skapi og ekki brýndi hann raustina þótt menn gerðu sér ljóst að þar fór tilfinningamaður. Ljúfmennska, sem hvíldi á þekkingu og mannkærleika, voru vopn hans - keppnismaður var hann enginn. Hann barðist aldrei fyrir eigin frama eða metorðum. Halldór var gæddur þeim fágæta eiginleika sem hagfræðingurinn Max Weber kallar "náðarforystu," sem skýrir hvers vegna á hann var kallað án þess að hann gerði kröfu um það sjálfur.

Líf Halldórs var ekki alltaf dans á rósum, hann hefur alla tíð átt við meiri og minni vanheilsu að stríða. Í merkilegu viðtali, sem birtist í Morgunblaðinu rétt fyrir andlát hans, sagði hann sjálfur frá að hann hefði þegar legið fjórar banalegur. Hann var yngstur fjögurra systkina og lifði þau öll, tvö þeirra létust langt fyrir aldur fram. Hann sagði okkur oft frá þessum systkinum sínum, og brá þá fyrir viðkvæmni í röddinni. Ekkert raskaði þó ró hans. Stundum verður manni á að hugsa, hvernig heimurinn væri ef fleiri menn, ekki síst í valdastöðum, byggju yfir eðliskostum Halldórs.

Það eru forréttindi að hafa fengið að fylgja Halldóri svo lengi. Við samstarfsmenn Halldórs fyrr og síðar þökkum honum samfylgdina og sendum þeim sem hann syrgja einlægar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Halldórs Hansen, barnalæknis og mannvinar.

Bergljót Líndal.

Vinur minn Halldór Hansen hefur kvatt. Þakklæti fyrir þá ómetanlegu vináttu fyllir hjartað á þessari stundu. Alltaf var hægt að banka upp á dyrnar á Laufásveginum og var manni vísað til sætis í sólríka stofuhorninu með útsýninu niður að Tjörn, og boðið að þiggja cappuccino og kökubita og hlusta á dýrlegan söng, eitthvað gamalt, eitthvað nýtt. Farið var yfir staflana af geisladiskum, sem að venju þöktu stofuborðið svo flóði niður á gólf, og öll blöðin og bækurnar líka. "Hefurðu heyrt ...? Þá verð ég að spila það fyrir þig." Svo hvarf hann upp á loft og kom niður með vínyl og græjurnar voru stilltar í botn. Eða þá að ég mátti til með að koma með honum upp til að sjá vídeóspóluna sem Dalton sendi, og þegar sú var búin var horft á aðra og enn aðra. Og alltaf var hægt að ræða það sem þyngst lá á hjarta og fá góð ráð, uppörvun, hvatningu, en mest um vert, skilning. Og manni opnaðist skilningur. Og alltaf var hægt að hlæja, því sögurnar voru margar og skemmtilegar. Alvarlegri voru frásagnirnar frá uppvexti á stríðstímum í Evrópu, og veikindum. Tíminn virtist aldrei líða inni á Laufásvegi. Tíminn bara var og átti heima hjá Halldóri.

Sömuleiðis verða ógleymanlegar allar stundirnar í New York og ferðalagið til Baden. Og sárveikur lagði hann það á sig að fara með mér til Vínar. Hann vildi sýna mér borgina sem hann elskaði eins og hann elskaði hana. Og þvílík ferð! Auðvitað enduðu allar slíkar borgarferðir með viðkomu í helstu hljómplötuverslunum, og ég gleymi ekki hvað Jimmy vinur okkar var hneykslaður á því að í hvert skipti sem Halldór kom í heimsókn þurfti að kaupa nýja ferðatösku til að koma farangrinum heim. "Hann hlýtur að eiga heilt herbergi af ferðatöskum" - var Jimmy vanur að segja.

Yndislegan vin minn kveð ég með söknuði og þökk fyrir að veita mér svo rausnarlega af ríkidæmi sínu. Tímann hefur hann skilið eftir hjá mér.

Sigríður Jónsdóttir.

Sá hann síðast á sinfóníutónleikum seint í vetur, þar sem hann sat í hjólastól við endann á "mínum bekk", þeim ellefta. Hugsaði mér gott til glóðarinnar að faðma hann í hléinu.

Í þetta skipti tók eilífðartíma að komast út úr bekknum því fleiri voru sama sinnis og ég og stór hluti af þeim er sátu á 1-10 bekk þurftu líka að knúsa hann og faðma. En mér tókst ætlunarverkið sem betur fer.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna um tíma með Halldóri á geðverndardeild barna á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, sem Sigurjón Björnsson sálfræðingur stofnaði og hann ásamt konu sinni, Margréti Margeirsdóttur, og fleira góðu fólki unnu brautryðjendastarf í þágu barna.

Halldór var ótrúlegur, - hann lék við barnið í sandkassanum á meðan ég talaði við foreldrana. Hvernig hann gat vitað meira um fjölskyldulífið en ég eftir að hafa horft á barnið leika sér var svo sem ekkert að fárast yfir, því þetta var hann Halldór.

Stundum skammaðist ég mín, þegar við töluðum saman við foreldrana í litlu skrifstofukompunni minni og hann keðjureykti. En það var ekkert mál í þá daga og þetta var líka hann Halldór Hansen.

Eftir viðtölin var frábærlega gaman að "ventilera".

Í lokin var svo talað um tónlist.

Mikil veisla það.

Samúðarkveðjur til Öglu Mörtu og allra sem sakna.

María Þorgeirsdóttir.

Erfitt er að meðtaka að Halldór sé ekki þarna lengur. Hans er svo sterk þörf. Það var ótrúlegt hve lengi Halldór gat lifað og umborið veikindi sín. Sjálfur sagði hann veikindin hafa veist léttari eftir að hann viðurkenndi og varð sáttur við að vera sjúklingur. Hann kenndi okkur áfram um lífið og tilveruna í veikindunum. Þess vegna hafði þetta langa sjúkdómsstríð líka tilgang. Æðruleysið og afstaða hans til þjáningarinnar var áhrifamikil. Þremur dögum fyrir andlátið lýsti Halldór því hvernig hann gæti staðið fyrir utan hina líkamlegu þjáningu, án nokkurra skuldbindinga nema þá að vera í núinu. Það veitti frelsiskennd að einbeita sér að augnablikinu, frelsið væri gott. Nú hefur Halldór fengið algjört frelsi og því er hægt að fagna jafnframt því að hans er sárt saknað.

Halldór Hansen sá ég í fyrsta skipti í bíósalnum á Hótel Loftleiðum fyrir rúmlega tuttugu árum. Hann hlustaði á mig og samstarfskonu mína Álfheiði fjalla um geðheilsu barna og foreldraráðgjöf. Andlitið vakti strax áhuga minn. Ósvikinn áhuginn, hreinlyndið og manngæskan skein úr andlitinu sem var um leið svo óendanlega hlýlegt og svolítið bangsalegt. Halldór tók í hléinu frumkvæði að samstarfi við okkur stöllur um könnum á geðheilsu fjögurra ára barna. Í kjölfarið starfaði ég við hlið Halldórs í u.þ.b. tvö ár. Þar varð upphafið af áratuga náinni og djúpri vináttu. Stuðningur hans í einkalífi og starfi var ómetanlegur. Halldór varð ráðgjafi Sálfræðistöðvarinnar og hvatti okkur stöllur alltaf til dáða. Hann skrifaði formála að Barnasálfræðinni og Tvíburabókinni. Formálarnir eru mjög "Halldórslegir" og lýsa hugarfari og djúpum skilningi á mannlífinu.

Halldór var einstakur húmanisti. Manngæskan, innsæið, hlýjan, styrkurinn, hógværðin og æðruleysið einkenndu hann framar öðru. Halldór kom strax að kjarna hvers máls og orðaði hlutina þannig að áður óþekktur sannleikur kom í ljós. Hann hafði ótrúlega hæfileika til að greina fólk. Hann sá alltaf hvaða mann fólk hafði að geyma. Hann fann óheilindi og fals í fari fólks og það líkaði honum ekki, og alls ekki ef átti að reyna að notfæra sér hann.

Halldór hafði óendanlega mikla þýðingu fyrir marga á álags- og erfiðleikatímum, þar á meðal mig. Með djúpu innsæi í sálarlíf annarra og skilningi á þjáningunni hjálpaði hann mörgum til að skilgreina þann flókna vanda að feta að nýju veginn áfram.

Með fölskvalausri samúð með manneskjunni, fágaðri og fordómalausri framkomu höfðaði hann til fólks. Ekki aðeins að leiftrandi gáfur og vitræn geta gerðu hann einstakan heldur hafði hann sjálfur oft þjáðst, ekki bara sem veikt barn, heldur vegna ýmissa áfalla sem snertu upprunafjölskyldu hans. Einnig vegna eigin baráttu og margháttaðrar togstreitu við að fara í gegnum sjálfsvitundarferlið til að öðlast eigið ég, fá sinn fasta kjarna, sína sjálfsmynd. Flókin tengsl og tíðir flutningar gerðu Halldóri erfiðara fyrir en mörgum að finna sig. Hann tilheyrði mörgum samfélögum, mörgu fólki. Enginn gerði sér betur grein fyrir því að "eitt af frumvandamálum hvers barns er að átta sig á eigin eðli": "Hver er ég - hvað gerir mig að mér?" Eftir sína löngu og ströngu göngu að "ég-vitundinni" hefur sennilega varla fyrirfundist neinn með eins djúpa sjálfsþekkingu og verið í eins sterkum tengslum við innri mann sinn og Halldór.

Halldór var maður friðarins. Það ríkti friður í kringum hann og afar þægilegt var að vera í nánd við hann. Hann var ekki maður baráttu eða togstreitu, ekki heldur þegar það snerti hann sjálfan. Hann var hafinn yfir þess háttar tilbúning manna. Hann vorkenndi frekar þeim sem efndu til átaka. Hann fann til með þeim og skildi að þeim leið ekki vel.

Heimsborgarinn Halldór var mjög skemmtilegur og mikill húmoristi. Það var alltaf hátíðlegt hjá fjölskyldunni þegar Halldór kom í mat, unun að sjá hann njóta matar og borða ís, einkum ef hann gekk óséður með hann í hendi eftir Lækjargötunni. Að hlusta og heyra manninn tala um tónlist gerði það kleift að skynja hvað hann átti við með milliliðalausri tjáningu. Á síðasta fundi rétt fyrir andlátið fann ég hina milliliðalausu tjáningu þegar Halldór gat fárveikur átt í djúpum umræðum um sálkönnun í bland við guðfræði. Í umræðunum kom að þeirri spurningu sem mig hafði alltaf langað til að spyrja, hvort hann væri trúaður. "Ég er ekki viss. Tilhneiging er fyrir hendi. Það er meiri þrá en vissa, en tilhneigingin er þar." Dæmigerður Halldór.

Ég verð ævinlega þakklát því að hafa kynnst Halldóri Hansen, einkanlega fyrir hvernig hann var en einnig fyrir hvað hann sagði fallegt við mig. Halldór býr alltaf innra með mér sem ein dásamlegasta mannvera sem ég hef kynnst.

Guðfinna Eydal.

Ég hitti hann fyrst haustið 1967. Hann stóð í prýddum Kristalsal Vínaróperunnar uppábúinn, dálítið álútur, með kaffibollann og sígarettuna. Við spjölluðum saman, hann þáði heimboð. Á þessum punkti hófst vinátta okkar.

Halldór var hagvanur í Vín alveg frá æskuárum. Hann hafði þó numið fræði sín aðallega í París og New York.

Han fór víða í störfum sínum, var heimsborgari. Hann fylgdist vel með tónlistarlífinu austan hafs og vestan og hafði lengi gert.

Ég man að ég spurði margs á leiðinni heim eftir sýninguna í óperunni þetta kvöld. Halldór svaraði þessari óðamála æsku með yfirvegaðri ró, bjartur í framan.

"Hefurðu heyrt Leontyne Price?" en hennar stjarna lýsti heiminn á þessum árum. "Jú, jú," svaraði hann, "hún er vinkona mín, við bjuggum í sama húsi í tvö ár í New York, ég þekki hana vel," svaraði hann yfirlætislaust. Þau urðu mörg slík augnablikin á fundum okkar.

Að koma heim til Halldórs var mjög sérstakt, og þá ég leit hans gríðarlega plötusafn fyrsta sinni spurði ég agndofa: "Veistu hvað þær eru margar?"

"Nei, nei, en ég á sjálfsagt annað eins niðri í kjallara," svaraði hann. Hann kunni samt skil á þessu öllu í smáatriðum. Það gat fylgt saga með hverjum flytjanda, höfundi eða verki - en það var lykilatriði að spyrja. Þarna var líka efni að finna, sem hvergi var til annars staðar: viðtöl, tónleikar, fyrirlestrar, námskeiðsbrot o.m.fl.

Hann fylgdist af kostgæfni með vexti söngvaranna okkar, kom á æfingar og var alltaf leiðbeinandi, gefandi og jákvæður. Engan mann hef ég heyrt tala af jafnmiklu og hógværu viti um söng og söngmenntir en lækninn Halldór Hansen.

Ég sá bók á borðhorni hjá honum, einskonar endurminningar í máli og myndum um Elly Ameling. Formálinn var eftir Halldór Hansen, ég spurði út í það. "Þessi orð eru úr bréfi frá mér, við Ellý erum miklir vinir, höfum þekkst lengi. Hún er duglegur bréfritari, ég skulda henni alltaf bréf," svaraði hann.

Barnalæknirinn Halldór Hansen var tíður gestur á tónleikum og með nærveru sinni einni hélt hann undir eitt mikilvægasta horn tónlistarlífsins. Sem skilningsríkur vinur og þolinmóður hlustandi reyndist hann tónlistarlífinu mikilvægur ráðgjafi og leiðbeinandi. Með víðsýni sinni og hjálpsemi hélt heimsborgarinn Halldór Hansen opnum gluggum út í veröldina og kynnti fyrir þjóðinni fjölda vina sinna, sem reyndust vera í framvarðasveit tónlistarmanna í heiminum. Fyrir hans orð komu margir listamenn hingað, sem með list sinni tosuðu okkur upp úr hversdeginum, ýttu okkur fram á veginn.

Það var lán að kynnast Halldóri Hansen og alveg sérstakt að eiga hann að vini, maður varð betri í návist hans.

Þegar ég sagði honum á vordögum að Árni Kristjánsson píanóleikari væri allur sagði hann á sinn sérstaka hátt eftir smáþögn: "Hann var maður sem vert er að sakna." Ég vil gera þessi orð Halldórs að mínum þegar við minnumst hans. Skarð þessara gengnu vina verður ekki fyllt. Þökk fyrir að þú varst sá sem þú varst.

Með söngkveðju vina,

Jónas Ingimundarson.

Þegar ég var lítill strákur þráði ég að komast í tæri við einhvern sem skildi mig og vissi eitthvað það um mig sem ég gat ekki fundið út sjálfur. Á fullorðinsárum ágerðist þessi þrá og eftir langa og stranga leit fann ég nokkra sem mættu þörfinni. Sá sem kom mér á sporið var listamaðurinn, mannvinurinn og læknirinn Halldór Hansen og fyrir það er ég honum þakklátur.

Í gegnum tíðina sat ég oft við fótskör Halldórs og spurði hann álits á ólíklegustu málefnum og hann svaraði jafnan af áhuga, alúð og ríku innsæi. Hann sagði mér frá áhugaverðum hugmyndum um uppeldi, heimspeki, listir, sálarfræði, geðlæknisfræði og guðfræði. Hann var æðrulaus, fordómalaus, opinmynntur og frábær sállæknir. Við sem fagfólk starfandi á þessum lendum helgum minningu hans best með því að fylgja yfirlætislausu fordæmi hans. Íslensk þjóð og mannkyn allt missir mikið við að missa Halldór Hansen.

Blessuð sé minning hans.

Haukur Ingi Jónasson.

Þrátt fyrir litadýrð jarðar og grósku sumars brá fyrir dimmum skugga við fráfall Halldórs Hansens læknis. Kynni okkar hjóna við Halldór hófust árið 1961 þegar hann hóf störf ásamt okkur á geðverndardeild barna í Heilsuverndarstöð Reykjavíkur. Þar vorum við samverkamenn til ársins 1967. Hann var þá nýlega kominn frá sérfræðinámi í Bandaríkjunum, þar sem hann nam barnalækningar og sállækningar barna. Það var ómetanlegt fyrir hina ungu starfsgrein sem var að byrja að hasla sér völl hér á landi, að fá notið hinnar yfirgripsmiklu þekkingar og færni Halldórs á þessu sviði. Hann var ekki aðeins einkar vel að sér í sálarfræði barna og lækningum þeirra, heldur hafði hann til að bera þá persónulegu eiginleika, sem ollu því að hann átti afar auðvelt með að ná til barna og næmi hans á sálarlíf þeirra var einstakt. Þetta fundu hinir litlu skjólstæðingar hans strax. Um þetta leyti var Halldór yfirlæknir á barnadeild Heilsuverndarstöðvarinnar og er óhætt að fullyrða, að þar var réttur maður á réttum stað. Þeir verða margir foreldrarnir, sem minnast hans með hlýju og þakklæti nú að leiðarlokum. Eitt lítið atvik úr sjóði minninganna skal hér rifjað upp. Lítill drengur á fimmta ári fékk slæma ígerð í auga. Foreldrar leita til sérfræðinga en meinið heldur áfram að vaxa. Í öngum sínum leita þeir til Halldórs, sem kemur að loknum vinnudegi og víkur ekki frá drengnum fyrr en mörgum klukkustundum síðar, þegar árangur lyfjameðferðar hans fer að koma í ljós og drengurinn ekki lengur í hættu. Skyldu ekki margir foreldrar geta sagt svipaða sögu? Halldór Hansen var maður mikilla mannkosta. Ævinlega var hann boðinn og búinn að ljá öðrum lið og hyggja okkar er að hann hafi sjaldnast tekið laun fyrir læknishjálp sína. Hann var víðsýnn, hleypidómalaus og yfirvegaður í öllu sínu lífi og starfi. Hann var heimsborgari, tungumálasnillingur og listunnandi af lífi og sál, einkum á sviði tónlistar. Margir eiga eftir að minnast hans lengi á þeim vettvangi. Við kveðjum Halldórs Hansen með þakklæti og virðingu. Við hjónin sendum aðstandendum og vinum Halldórs Hansens innilegar samúðarkveðjur.

Margrét Margeirsdóttir, Sigurjón Björnsson.

Mætur og góður maður er genginn og viljum við í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu votta honum virðingu okkar og þakklæti í örfáum orðum. Halldór var annar tveggja þýðenda þegar Mormónsbók, sem er eitt af fjórum helgiritum kirkjunnar, var fyrst þýdd yfir á íslensku. Meðan á þeirri þýðingu stóð, og oft síðar, sótti hann samkomur okkar, flutti þar ræður og aðstoðaði á ýmsan hátt. Fengum við þar að kynnast hinum mörgu mannkostum þessa mikla mannvinar. Um þá mannkosti mætti margt segja, og munu sjálfsagt margir um þá fjalla. Við viljum hér aðeins nefna þrjá þeirra, kærleika hans, með þeirri hlýju og hjálpsemi sem honum fylgir, algert fordómaleysi og tryggð. Halldór hafði mannbætandi áhrif á þá sem honum kynntust, það var honum eðlislægt.

Trúboðar kirkjunnar leigðu tvær íbúðir í húsi Halldórs á Laufásvegi 24 og voru þar til húsa í mörg ár. Er fjöldi þeirra sem þar dvöldu töluverður, því að þeir komu og fóru. Bundust þeir honum allir vináttuböndum og hugsa ávallt til hans með hlýju og þakklæti, og trega nú þegar hann er liðinn.

Við kveðjum Halldór með virðingu og þökk.

F.h. Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu

Sveinbjörg Guðmundsdóttir.

Barnageðlæknafélag Íslands vill minnast eins af sínum bestu félögum. Það er Halldór Hansen, sem nú er kvaddur.

Halldór vann brautryðjandastarf við að koma á fót meðferðardeild fyrir börn með geðræn vandamál.

Hann varð fyrstur íslenskra barnalækna til þess að nema barnageðlækningar í sérfræðinámi sínu í barnalækningum við Roosvelt Hospital í New York.

Heimkominn l961 tók hann til starfa við Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og starfaði til l997, alla tíð sem yfirlæknir. Þar var hann sem barnalæknir í nánu samstarfi við Geðverndardeild barna, sem starfrækt var við Heilsuverndarstöðina.

Honum var árið l967 falið það verkefni í nefnd með tveimur mætum mönnun að meta þörf fyrir meðferð barna með geðræn vandamál. Tillögur nefndarinnar leiddu til þess að árið l970 tók til starfa geðdeild barnaspítala Hringsins við Dalbraut 12, Reykjavík.

Vert er að minnast í því sambandi að konur í Kvenfélagi Hringsins komu fast og ákveðið að málum með fjárframlögum og siðferðislegum stuðningi, enda ætíð í fararbroddi fyrir velferð barna með líkamleg og sálræn vandamál.

Það var sjónarsviptir að nafninu Geðdeild barnaspítala Hringsins, þegar stjórnendur Landspítala töldu óþarft að tengja Hringskonur við nafn deildarinnar, og tóku upp nafnið Barna- og unglingageðdeild Landspítala, skammstafað BUGL.

Í einkaviðtölum sagði Halldór okkur félögum sínum að í starfi sínu við Heilsuverndarstöðina hefði sér fundist erfitt að vísa frá öðrum en íbúum Reykjavíkur og vann hann frá þessu sjónarmiði heilshugar að því markmiði að landsmenn allir ættu sömu möguleika til meðferðar og hjálpar með börn sín.

Halldór var l980 einn af stofnendum Barngeðlæknafélags Íslands. Hann sat oft í stjórn, fundrækinn, virkur félagi, tillögugóður og áhugasamur um hag félagsins vegna möguleika þess til að hafa áhrif til góðs til meðferðar barna með geðræn vandamál. Við ágreining var hann ætíð mannasættir og kom með tillögur sem allir sættu sig við með viturlegum ábendingum. Honum treystu allir. Hann var heiðursfélagi Barnageðlæknafélags Íslands. Sjaldgæfur maður var Halldór - við söknum hans. Mikil fyrirmynd var hann með hógværð sinni og umburðarlyndi.

F.h. Barnageðlæknafélagsins,

Gunnsteinn Gunnarsson.

Halldór Hansen barnalæknir sagði frá því að hann hefði verið svo lánsamur að veikjast sem barn. Í veikindum sínum kynntist Halldór tónlist sem veitti honum mikla ánægju í lífinu. Ef til vill urðu veikindi Halldórs einnig til þess að hann valdi sér barnalækningar að lífsstarfi. Það var lán íslensku þjóðarinnar.

Halldór Hansen starfaði lengst af við Heilsuverndarstöð Reykjavíkur, síðar Miðstöð ungbarnaverndar á Íslandi. Hann átti drjúgan þátt í uppbyggingu þess starfs og árangurinn er frábær. Í nágrannalöndum okkar látast börn enn úr mislingum. Í nokkurra klukkustunda fjarlægð er enn barnaveiki og lítið eitt lengra má finna stífkrampa. Svo má lengi telja. Þessir sjúkdómar hafa ekki greinst á Íslandi árum og áratugum saman. Árangur Íslendinga í ungbarnavernd er góður og þáttur Halldórs var afar stór.

Halldór Hansen var einn af frumkvöðlum barnalækninga á Íslandi sem með góðmennsku sinni og hjartagæsku skilaði frábæru lífsstarfi.

Með virðingu og þakklæti kveðjum við Halldór Hansen barnalækni.

Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum.

Reyndur trjáræktarmaður ráðleggur þeim sem stunda trjárækt, að hlúa vel að plöntunum fyrstu tvö árin. Sé það gert þarf lítið að sinna plöntunni eftir það - hún spjarar sig og mun dafna vel.

Þótt samlíking milli manna og plantna kunni að vera hæpin má þó líkja þessari reglu við mikilvægi ung- og smábarnaverndar, þess verkefnis sem Halldór Hansen gerði að ævistarfi sínu.

Ég kynntist Halldóri fyrst þegar ég hóf störf hjá Heilsugæslunni í Reykjavík fyrir um áratug, en hann var þá yfirlæknir Barnadeildar Heilsuverndarstöðvarinnar. Mér féll strax vel við þennan hógværa mann, sem þó gat ávallt sett fram með skýrum hætti markmið og gildi starfseminnar sem hann stýrði. En hin hlið Halldórs, sú sem sneri að tónlistinni, vakti þó ekki síður athygli, og ætla ég ekki í þessum fáu línum að lýsa því frekar. En mér er minnisstætt, þegar kaupa átti afmælisgjöf handa honum og sjálfsagt var að það yrði tónlist, þá kom í ljós að í versluninni vissu menn hvaða tónlist Halldór átti og hverju væri þar helst við bætandi - svo kunnur var hann sem tónlistarunnandi. Halldór átti við alvarleg veikindi að stríða allan þann tíma sem ég þekkti hann. Þá baráttu háði hann af slíku æðruleysi að aðdáun vakti. Hann sótti tónleika og sinnti starfi sínu sem fyrr, allt þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 1997.

Halldór Hansen var einn þeirra manna sem gera hvert samfélag ríkara með starfi sínu og viðkynningu. Ég tel það til forréttinda að hafa starfað með honum og þekkt hann.

Guðmundur Einarsson.

Vinur okkar Halldór Hansen var ljúfur og góður maður. Lítillæti og næmur skilningur á mannfólkinu einkenndi persónu hans. Líf Halldórs mótaðist öðru fremur af þrá hans til að leita fegurðar. Hennar leitaði Halldór ekki síst í fari mannanna, einkum hjá ungum börnum og listamönnum, - þar sem kvika sálarinnar er opnust. Forvitni Halldórs í þeirri leit átti sér engin takmörk og athyglisgáfu skorti hann ekki. Hann leit þó ekki svo á að hans væri að dæma, heldur skoðaði hann fyrst vel og gaf síðan góð ráð og uppörvun þegar eftir því var leitað.

Fegurðarinnar leitaði Halldór ekki síst í tónlist. Halldór og tónlistin áttu í ævilöngu ástarsambandi. Frá barnæsku var það ástríða hans að sækja tónleika og óperusýningar, bæði á Íslandi og hvar sem hann bar niður í heiminum, sem var víða. Að auki kom Halldór sér upp miklu hljómplötusafni, þar sem persónulegur smekkur hans og löngun til að kynnast verkum eða listamönnum réð vali, en ekki söfnunarþörf. Dýrlegir tónar ómuðu dag hvern um stofur hans, marga listamennina þekkti Halldór persónulega og skrifaðist á við þá. Ófáir tónlistarmenn, einkum söngvarar, nutu handleiðslu Halldórs og fengu lánaðar plötuupptökur hjá honum, ráð um raddbeitingu eða um val verkefna. Tónlistin gaf lífi Halldórs æðra gildi og hann gaf til baka með því að miðla öðrum af skilningi sínum og visku af fágætu örlæti. Það lá því beint við og var vel viðeigandi þegar Halldór tók þá ákvörðun að arfleiða Listaháskóla Íslands að tónlistarsafni sínu og húsi. Í skólanum verður til safn sem mun bera nafn Halldórs og sjóður til að styrkja unga tónlistarmenn. Tónlistararfur Halldórs mun því enn um langan aldur verða íslenskum tónlistarmönnum og unnendum klassískrar tónlistar til ánægju og yndisauka.

Líf Halldórs var auðugra en margra annarra, en það var þó svo sannarlega ekki alltaf dans á rósum. Það lá þó ekki fyrir Halldóri að kvarta heldur hélt hann alltaf ró sinni og lifði áfram með fágætri góðmennsku og reisn.

Nú þegar Halldór er allur finnum við enn betur hvílík gæfa og náð það var að fá að verða samferða honum og eiga hann að vini.

Selma og Árni Tómas.

Á lífsleið minni hef ég kynnst tveim óvenjulegum merkismönnum. Annar var frændi minn, sem var augnskurðlæknir, hinn Halldór Hansen barnalæknir. Halldór var alla tíð sérstakur góðvinur söngvara. Maður fann strax (eftir að hafa hlustað með honum á einhverja af hans nýjustu eftirlætisplötum) fyrir samkennd með honum, hvort sem um var að ræða viðkomandi listamann, flutning ljóðsins, eða meðferð og mótun lagsins - og ekki bara það - ljómandi augu hans og gleði yfir því að kynna þér tvær, þrjár aðrar upptökur, aðra listamenn, sem maður hafði ekki hugmynd um að væru til. Þær komu á óvart og voru jafnvel ennþá betri en sú nýja.

Halldór var eðlisgreindur maður og afskaplega þægilegur persónuleiki. Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar ég söng í fyrsta sinn á Íslandi, þá með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir að hafa heyrt mig syngja var hann fær um að veita mér aðstoð vegna efnisskrár tónleika viku síðar. Uppástungur hans reyndust afburðasnjallar (brilliant). Hvernig gat hann þetta? Hann virtist finna í einu vetfangi hvaða mann ég hafði að geyma og mat mig rétt sem listamann. Lausnir Halldórs Hansen og uppástungur voru séðar með innsæi læknisins, næmi og smekkvísi tónlistarunnandans. Að þýða úr einu máli á annað virtist lítið mál fyrir Halldór. Framkoma hans og jákvæði voru eins og sólargeisli þeim, sem honum voru samferða, og gilti þá einu hver átti í hlut.

Halldór "þeytti ekki sinn eigin lúður" eins og Ameríkumenn segja gjarnan. Hann þekkti alla í heimi tónlistarinnar, sérstaklega söngvarana og það sem viðkom söng. Það er undarlegt til þess að hugsa að hann var ekki söngvari sjálfur - sál hans söng.

Allir þeir söngvarar frá Íslandi, Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi, Ameríku og Norðurlöndum sem náðu að kynnast speki og visku Halldórs Hansen sungu betur með ögn meiri innileik og sannari tilfinningu eftir að hafa kynnst honum.

Far þú í friði, góði vinur, við söknum þín.

Ellen Lang.

Látinn er Halldór Hansen, einn helsti sérfræðingur Íslendinga um söng og söngtónlist.

Við heyrðum Halldórs getið þegar í upphafi söngnáms okkar og áttum síðar því láni að fagna að kynnast honum persónulega. Hann var einstaklega hlýr og skilningsríkur maður. Við gátum iðulega leitað til Halldórs hvort sem við vorum að æfa ný óperuhlutverk eða vegna tónleika. Hann veitti okkur ávallt stuðning; gaf góð ráð um efnisval og söngstíl, auk þess hafði hann allar upplýsingar varðandi verkefnin á reiðum höndum.

Halldór átti eitt besta og vandaðasta hljóðupptökusafn landsins. Þar skipaði hann klassískri söngtónlist í öndvegi. Hann var okkur innan handar ef hljóðupptökur vantaði. Það kom aldrei fyrir að hann ætti ekki að minnsta kosti 2-3 upptökur af því verki sem leitað var að, en oftast mun fleiri. Halldór afritaði fúslega á hljóðsnældur þær útgáfur sem hann átti og merkti með vélrituðum og vönduðum upplýsingum. Og það er lýsandi dæmi um þá alúð sem hann lagði í öll sín verk. Hann sýndi okkur mikla vinsemd. Við áttum margar góðar stundir með honum á Laufásveginum og hann sendi okkur snældur og upplýsingar hvar sem við vorum stödd í heiminum. Þannig má segja að safn hans hafi verið lifandi stofnun sem hann veitti greiðan aðgang að.

Halldór sótti alla þá tónleika og óperusýningar sem hann hafði tök á. Það var alltaf gaman og gefandi að syngja fyrir Halldór og fá frá honum viðbrögð og hvatningu, manni sem þekkti efnið út og inn og hafði unun af því að hlusta.

Halldór var heimsborgari, maður menningar og góðra lista. Hann lifði fyrir tónlistina og skilur eftir sig skarð í hópi tónlistarunnenda. Við erum þakklát fyrir að hafa kynnst Halldóri Hansen og geymum með okkur minninguna um hann og þau ráð sem hann gaf okkur í veganesti.

Þóra Einarsdóttir og

Björn Jónsson.

Mannvinurinn og starfsbróðirinn Halldór Hansen er allur - sennilega fæstum okkar að óvörum, því Halldór gekk alls ekki heill til skógar um árabil, heldur þurfti hann um langan tíma að takast á við hvern illvígan sjúkdóminn af öðrum. Með nýrunnu dánardægri Halldórs lauk þannig óvenjulegri syrpu af erfiðum veikindatímabilum, þar sem læknirinn sjálfur þurfti aftur og aftur að takast á við erfið veikindi í sjálfum sér. Þessu hlutverki sjúklingsins skilaði Halldór að hætti hins æðrulausa fagmanns, sem hefur alið með sér djúpa samkennd með ótal sjúklingum á löngum starfsdegi, og sem hefur jafnframt öðlast heimspekilega færni læknisins með því að praktísera þannig - og skilja það svo vel - að fagið sjálft - læknisfræðin - nýtur sín kannski fyrst og fremst sem listgrein - á við tónlistina - en þó með sterku raunvísindalegu ívafi. Eftir nokkra hetjulega sigra á erfiðum sjúkdómum varð Halldór þó loks að láta undan síga og gegna þessu eina örugga og jafnframt vægðarlausa lokakalli, sem við eigum öll í vændum - fyrr eða síðar.

Þannig er eitt myndbrota þeirrar minningar sem ég varðveiti af þessum ljúfa starfsbróður, sem ég fékk að kynnast nokkuð vel í afar farsælu samstarfi okkar á heilsugæslustöðinni í Árbæ. Ég mun ávallt minnast Halldórs með þakklæti fyrir ljúfmennsku hans, faglega ráðgjöf og mannbætandi viðkynningu.

Gunnar Ingi Gunnarsson.

Halldór hitti ég fyrst fyrir tilstilli frænku minnar, Maríu Markan. Ég var þá nýbyrjuð að læra söng og Maríu fannst að ekki fyrirfyndist betri maður til að ráðleggja ungum söngnema. Allt frá því fékk ég að njóta hæfileika og vináttu Halldórs.

Minningar tengdar Halldóri sækja á hugann. Stofan á Laufásveginum - heimur þar sem tónlistin fyllti tíma og rúm. Mér fannst ég vera örlítið betri manneskja eftir hverja stund með Halldóri þar.

Halldór var einstakur mannvinur og fordómalausasti maður sem ég hef kynnst. Mildi hans ásamt veraldarvisku gerði hann að óþrjótandi brunni sem allir gátu sótt í. Sérstaklega var næmi hans fyrir börnum mikið og honum var annt um velferð þeirra. Nú síðast þegar ég heimsótti Halldór á líknardeild Landakotsspítala nokkrum dögum fyrir andlát hans var honum þrátt fyrir veikindi sín efst í huga velferð mín og ungs sonar míns. Hlýjan streymdi frá honum í bland við eðlislæga kímni manns sem skilur allar hliðar mannlífsins.

Fyrir nokkrum árum hughreysti Halldór mig með þeim orðum að þeir, sem okkur þykir vænt um og deyja, lifa áfram í hjarta okkar og hafa því áfram áhrif á líf okkar.

Ég sakna vinar míns, Halldórs Hansen, en veit að manngæska hans lifir.

Ólöf Sigríður Valsdóttir.

Halldór Hansen var óvenju fjölhæfur og farsæll læknir. Hann var einn vinsælasti og virtasti barnalæknir á Íslandi. Halldór lagði stund á sérnám í barnalækningum og barnageðlækningum í Bandaríkjunum og þegar hann kom heim úr sérnámi vann hann brautryðjandastörf í geðvernd barna og unglinga ásamt Jakobi V. Jónassyni geðlækni sem nú er nýlátinn og Sigurjóni Björnssyni, fyrrverandi prófessor í sálarfræði. Geðverndardeild barna á Heilsuverndarstöð Reykjavíkur starfaði fram til ársloka 1970 en sama ár hóf starfsemi Barnageðdeild Hringsins á Landspítala sem síðar var nefnd Barna- og unglingageðdeild Landspítala - háskólasjúkrahúss. Starfsvettvangur Halldórs tengdist aðallega forvarnarstarfi á sviði heilsuverndar barna en hann starfaði sem yfirlæknir á barnadeild Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur í rúm 35 ár. Hann var kjörinn heiðursfélagi í Félagi íslenskra barna- og unglingageðlækna, Félagi íslenskra barnalækna og Geðverndarfélagi Íslands.

Halldór tók virkan þátt í starfi barna- og unglingageðlækna sl. rúm 30 ár. Ég átti því láni að fagna að kynnast honum í starfi árið 1975 þegar ég var nýkomin heim úr sérnámi í geðlækningum frá Bandaríkjunum. Hæfileikar hans til tjáningar og tengslamyndunar við börn voru einstakir. Skilningur hans á hlutverki foreldra og sú virðing sem hann bar fyrir foreldrum er mér sérstaklega minnisstæð.

Halldór var mikill drengskaparmaður, heiðarlegur, réttsýnn og hvers manns hugljúfi. Hann vann framúrskarandi störf að lækninga-, mannúðar- og menningarmálum í þágu samfélagsins alla starfsævi sína og hafði ávallt mannkærleika, trúmennsku og þekkingu að leiðarljósi. Hvar sem hann gat rétt hjálparhönd kom hann að og sérstaklega ber að nefna, auk læknisstarfa, uppeldisstörf út frá sálfræðilegri þekkingu hans, ýmiss konar félagsstörf í sérgreinafélögum, tónlistarstörf og tónlistargagnrýni en efst í huga hans var vanalega hagur þjóðfélagsins.

Ættingjum hans og vinum votta ég innilega samúð.

Megi minning Halldórs Hansen lengi lifa.

Helga Hannesdóttir.

Halldór Hansen vann til margra ára sem læknir hjá franska sendiráðinu í Reykjavík. Í viðurkenningarskyni fyrir fágæta verðleika sína og vel unnin störf var Halldór gerður að riddara (Chevalier) af frönsku orðunni Ordre National du Mérite.

Það var að áeggjan Charles de Gaulle Frakklandsforseta árið 1963 sem l'Ordre National du Mérite de la République Française var stofnað; mikilvægt heiðursmerki sem veitt er þeim er skara framúr á sínu sviði og er Frakklandsforseti þar lærifaðir og fyrirmynd, kallaður Grand Maître de l'Ordre National du Mérite, en tilnefningar koma frá ráðherrum.

Halldór Hansen hafði mjög gott vald á franskri tungu og þótti mér það afar hlýlegt að geta rætt við hann á frönsku á þeim tíma sem ég talaði ekki íslensku. Það var Halldór sem gaf mér innsýn í læknaheiminn íslenska fyrir rúmlega tíu árum og verð ég honum ævinlega þakklátur fyrir það. En ekki síst er ég þakklátur fyrir að hafa haft tækifæri til að kynnast þessum heiðursmanni sem búinn var svo mörgum verðleikum; heimsvönum manni sem bjó yfir mikilli þekkingu, fágaður og ákaflega vel að sér í öllu er viðkom menningu og listum, tungumálamaður mikill sem bjó yfir fáséðri samkennd og manngæsku.

Ég verð honum ævinlega þakklátur fyrir þær móttökur sem hann veitti mér er ég kom fyrst hingað til lands árið 1992. Leiðbeiningar hans og ráðleggingar veittu mér mikilvæga innsýn í íslenskan starfsvettvang og kveiktu áhuga minn á því að vinna sem læknir á Íslandi. Halldór kynnti mig fyrir góðu fólki sem fræddi mig enn frekar um barna- og unglingageðlækningar hérlendis. Það var svo raunin árið 1998 að mér varð kleift og gafst tækifæri til að flytjast hingað til lands, ásamt íslenskri eiginkonu minni og dóttur, og starfa sem barna- og unglingageðlæknir á BUGL. Það er ekki síst núna, þegar ég lít til baka, sem ég sé hversu vinsemd og hjálpsemi Halldórs var mér mikilvæg og gaf mér þá von að dag einn gæti ég starfað sem læknir á Íslandi.

Mín hinsta kveðja verður á frönsku til heiðursmannsins Halldórs Hansen, sem sæmdur var franskri orðu árið 1977 fyrir vel unnin störf.

Recevez, cher Halldór, l'expression de toute ma reconnaissance et de mes sentiments les plus respectueux. (Kæri Halldór, ég votta þér innilegt þakklæti og mína dýpstu virðingu.)

Bertrand Lauth.

Mér er vandi á höndum að kveðja Halldór Hansen, einhvern nánasta vin og sálufélaga, sem ég hef eignast á lífsleiðinni. Við Halldór kynntumst ekki fyrr en við báðir höfðum valið sömu sérgreinina, hvor í sínu lagi sitt hvorum megin við Atlantshafið. Við fengum með því tækifæri og ögrun til að ryðja braut innan sviðs barnageðlækninga hvor á sinn hátt. Ég var vel kominn á veg með mína sérfræði þegar ég hitti Halldór fyrst þar sem hann hafði forstöðu barnadeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur og sinnti til hliðar nýstofnaðri geðverndardeild barna þar við stöðina. Frá þeirri stundu áttum við nána samleið í næstum fjörutíu ár, bæði faglega og félagslega, auk þess sem áhugasvið okkar utan fagmennsku mættust í aðdáun á mannlífinu eins og það birtist í hverskonar listrænni sköpun, ekki síst tónlistinni. Á þennan máta eignuðumst við Halldór náið samfélag, bæði í stjórnsýslu skyldra stofnana okkar, Heilsuverndarstöðvar og Barnageðdeildar, og í félagsmálum barnageðlækna. Auk þess var Halldór tengdur fjölskyldu minni vináttuböndum, við vorum báðir ættaðir af Seltjarnarnesi, Halldór kominn frá Ráðagerði gegnum móður sína Ólafíu Þórðardóttur og ég frá Nesi þaðan sem faðir minn Ásgeir Guðmundsson var upprunninn. Síðar náði fjölskylda mín, eiginkona og börn nánum, ómetanlegum tengslum við Halldór. Fundir okkar urðu margir, jafnt persónulegir, faglegir og í félagsmálum.

Síðasta fundinum með Halldóri Hansen er nú lokið. Eins og venjulega fannst mér ég koma bættari frá þeim fundi með möguleika á að notfæra mér speki fornvinar míns í úrvinnslu þess sem næst bæri að höndum á lífsleiðinni. Ekki verður komið tölu á þau skipti sem við hittumst um ævina en nú eins og alltaf kom ég þaðan ríkari. Í þetta skipti sagði Halldór mér sitthvað sem ekki var ljóst áður um fyrstu útivist hans í Danmörku og Vínarborg. Frásögn hans snerti bæði fjölskyldumál hans, bágborið heilsufar hans og þjóðirnar sem hann dvaldi hjá - gjörsneydd biturð þrátt fyrir marga sára reynslu og óvenjulegt lífshlaup. Mótbyrinn varð Halldóri greinilega vaxtarbroddur fremur en að hann léti bugast.

Þessi síðasti fundur okkar varð í sjúkraheimsókn á líknardeildinni á Landakoti og var Halldór þá orðinn aðframkominn. Marga minnisstæða fundi áttum við Halldór, félagsfundi í Barnageðlæknafélaginu, stjórnarfundi þar auk ótal persónulegra heimsókna, stundum hjá mér en oftast á Laufásveginum.

Það var sama hvað á dagskrá var; Halldór sá alltaf einhverja nýja hlið á hverju máli, sem bætti dálitlu við heimsmynd viðmælendanna. Lengi hitti ég hann reglulega þar sem ég var að reyna að fá hann til að tala inn á band minningar sínar til þess að almenningur gæti notið sögu hans, speki, mannvits og fagmennsku. "Nei, Páll minn, mér líður aldeilis prýðilega með það að fara með þetta með mér. En ég skal segja þér hvað sem þú vilt." Og hann sagði mér svo ótalmargt og merkilegt að það á til að íþyngja mér að hafa ekki getað deilt því með öðrum.

Oft töluðum við um fortíð ætta okkar á Seltjarnarnesi þar sem móðir Halldórs, Lóa Hansen, og föðursystir mín, Lóa Wennerström, voru bestu vinkonur í uppvextinum og ævina út. Eins og svo algengt var í návist Halldórs sá hann alltaf aðra vinkla á lífskortinu en aðrir komu auga á. Ekki veit ég hversu mikið barnageðlæknisnám Halldórs hafði bætt við lífssjón hans - stundum fannst mér gjarnan að Halldór hefði sjálfur uppgötvað sannindi sállækninganna, svo samgróin voru persónuleiki hans og sjónarmið heimsmeistaranna sem kenndu honum í lífinu, tónlistarmannanna, rithöfundanna og frumkvöðla sálvísindanna í New York á fimmta áratugnum, fyrir utan flest stórmenni í eigin landi sem hann umgekkst og veitti hlutdeild í sjálfum sér. Oft hefur hvarflað að mér innilegt þakklæti til tilverunnar fyrir að hafa gefið mér hlutdeild í þeim einstaka manni sem Halldór Hansen var. Hans verður sárt saknað þótt sennilega hafi hann sjálfur orðið hvíldinni feginn.

Páll Ásgeirsson.