SEM flugáhugamanni þykir mér einna vænst um þann þátt þess er snýr að sögunni enda mikið andlegt fóður að hafa úr rituðum heimildum, jafnt innlendum sem erlendum.

SEM flugáhugamanni þykir mér einna vænst um þann þátt þess er snýr að sögunni enda mikið andlegt fóður að hafa úr rituðum heimildum, jafnt innlendum sem erlendum.

Virðing mín fyrir flugsögu Íslands, og því mæta fólki sem skóp hana, er ómæld og um margra ára skeið hefur það verið eitt af mínum árlegu endurmenntunarnámskeiðum að renna yfir allar helstu íslensku flugsögubækurnar. Í hvert skipti finnur maður nýja fleti, ný sjónarhorn og nýja túlkun á þessari glæsilegu sögu. Í hvert sinn verður maður jafnstoltur af öllu þessu fólki sem erfiðaði við að byggja flugmálin upp í hendurnar á okkur sem yngri erum og það var svo sannarlega enginn dans á rósum. Við sem yngri erum fundum ekki upp flugið - við erfðum það, erum með það í fóstri og okkur ber skylda til að skila því margefldu til arftaka okkar.

Til hamingju með afmælið, Flugleiðir

Nú ber svo við að eitt af flugfélögum þjóðarinnar fagnar þrjátíu ára afmæli sínu og kýs að efna til sérstakrar Reykjavíkurflugsýningar af því tilefni. Ég vil nota þetta tækifæri og færa starfsfólki og hluthöfum Flugleiða, en í þeirra röðum eru flestir mínir bestu vinir, innilegustu afmælisóskir og árna þeim heilla í framtíðinni og gæta að því að gleyma hvorki flugsögu né flugáhuga þegar ekki eru tyllidagar.

Í tengslum við afmælið góða eru svo tvennslags viðaukar. Annars vegar sá, að 60 ár eru nú liðin frá því að ein af DC-3 flugvélum fyrirtækisins var smíðuð vestur í Kaliforníu þó svo að hún hafi ekki komið til Íslands fyrr en 12 árum síðar. Hún er ein af vel á annað hundrað flugvéla sem fyrirtækið hefur haft í sinni þjónustu síðan flug á Íslandi hófst fyrir 84 árum. Í þessu sambandi varð mér hreint og klárt brugðið við að því skyldi ekki fagnað samtímis að einnig eru 60 ár liðin frá því að fyrsta flugvél Loftleiða, Stinson Reliant, kom til Íslands og það sem meira er að flugvél sömu Stinson-gerðar er einmitt til hérlendis og meira að segja í eigu Flugleiða. Sem sé báðar flugvélarnar eru jafnáþreifanlegar. Stinson-vélin er eiginlega ekki síðri flugsögulegur gripur en DC-3 vélin, jafnvel meira virði sem slík.

Fílar í glervöruverslun flugsögunnar

Eftir allan þennan flugsögulestur gegnum árin situr vitaskuld margt eftir í kollinum, annað hvort væri nú. Því fannst mér 30 ára afmæli fyrirtækisins og 60 ára smíðaafmæli einnar flugvélar heldur þunnur þrettándi hjá stórfyrirtæki með alla þessa viðburðaríku 84 ára flugsögu í farteskinu. Strax kom upp í hugann ýmislegt annað sem er raunar enn merkilegra í flugsögulegu samhengi en það er vissulega háð persónulegu mati hvers og eins.

Við áreynslulausa nánari athugun fann ég tæplega 40 merkisafmæli í flugmálum Íslands sem langflest tengjast forsögu Flugleiða og þá hljóp ég einungis á heilum áratugum og bætti síðan við 75 og 25 ára afmælum. Þar sem einkafyrirtæki eru nú farin að efna til flugsýninga með miklu auglýsingabrambolti skoðaði ég líka árið sem fyrsti flugdagur á Íslandi var haldinn af Flugmálafélaginu og Svifflugfélaginu fyrir 65 árum en síðan hafa allir í fluginu nær undantekningalaust sameinast um slíkan dag og skartað sínu fegursta af krafti og með sannfæringu.

Því miður þynntist listinn yfir afmælisviðburðina eftir því sem nær dró nútímanum þar sem heimildir voru ekki í aðgengilegu formi. Það atriði, eitt og sér, er alvarleg áminning fyrir okkur í fluginu um að hysja upp um okkur buxurnar í þeim efnum og það fyrr en seinna. Það er nefnilega rétt sem vitur maður hefur sagt nokkrum sinnum við mig: "Flugsagan gerist í dag." Okkur öllum í fluginu ber að umgangast sögu okkar með virðingu og aðdáun. Meðan við gerum það ekki sjálf er ekki hægt að ætlast til þess að fólkið í landinu líti upp til flugmálanna en það er brýnt nú á þessum tímum þegar alls kyns öfl sækja úr öllum áttum að fluginu. Dæmi um það er t.d. aðför nokkurra einstaklinga að Reykjavíkurflugvelli sem er farin að smitast út í fleiri sveitarfélög og oftúlkun á opinberum flugmálareglugerðum.

Saga Flugleiða gleymd í eigin viðhafnarbókum

Flesta af þessum stórmerku afmælisáföngum fann ég með því að fletta bókunum Fimmtíu flogin ár - atvinnuflugsaga Íslands 1937-1987 í tvær kvöldstundir meðan horft var á sjónvarpið með öðru auganu. Svo kostulegt sem það er, þá eru þetta bækur sem Flugleiðir sjálfar gáfu út í viðhafnarútgáfu til að minnast 50 ára afmælis samfellds atvinnuflugs. Ég spyr nú bara eins og fávís maður: Les enginn af stjórnendum Flugleiða flugsögubækurnar sem fyrirtæki þeirra eyddi milljónum króna í að gefa út og eru Flugleiðum til mikils sæmdarauka?

Fyrst yfirmenn Flugleiða eru nú á annað borð að verja stórfé í afmælisfagnað sem þennan eiga þeir einnig að sjá sóma sinn í að halda fagnandi upp á að einn af forverum Flugleiða, Flugfélag Íslands (nr. 2), á nú 75 ára afmæli en í kringum það eru ennfremur fimm flugsöguleg tímamót.

Enn síður telja þessir menn ástæðu til að fagna með gleði og glaumi einum merkasta viðburði í flug- og meira að segja atvinnusögu Íslands. Það er hvorki meira né minna en gullafmæli Loftleiðaævintýrisins sem markast af hluthafafundi Loftleiða fyrir 50 árum (1953) og er talinn vera einn sögufrægasti og átakamesti fundur af því tagi allar götur síðan. Þá hafa þessir menn fagnað af minna tilefni en því að nú er einnig liðin hálf öld síðan Loftleiðir hófu fyrstar allra að bjóða lág fargjöld yfir Norður-Atlantshafið. Í sjálfu sér eru þessi tvö gullafmæli hvorki meira né minna en 50 ára afmæli Norður-Atlantshafsleiðakerfis Flugleiða. Í dag væri þetta fólk líklega ekki sitjandi á skrifstofum sínum, með rykfallnar flugsögubækur sínar uppi í hillu, nema fyrir það að Loftleiðir skutu yfir þá skjólshúsi með því að reisa hina myndarlegu skrifstofubyggingu, og heilt hótel við hliðina, fyrir 39 árum.

Ef mannskapurinn vill vera aðeins smámunasamari gæti verið full ástæða til að skála í kampavíni eða kók til að minnast þess að fyrsta flugferð Flugfélags Akureyrar (flugfélags Íslands nr. 3) var farin fyrir 65 árum en Flugleiðir sjálfar eru beint sprottnar upp úr einmitt þessu merka Akureyrarflugfélagi. Hér er því um að ræða sjálft 65 ára afmæli fyrstu flugferðar Flugleiða.

Svona mætti lengi áfram telja en upptalningin sem hér fylgir með talar einfaldlega sínu máli.

Svo til að gefa hinum örvæntingarfullu og hroðvirknislegu vinnubrögðum kringum þessa Reykjavíkurflughátíð fínna yfirbragð er þessu gefinn stimpill Menningarnætur Reykjavíkur þannig að almenningur trúi þessari sérkennilegu og vafasömu útgáfu af flugsögu Íslands sem á boðstólum er. Það á eiginlega hvorki að bendla flug né menningu við svona starfshætti.

Lengi lifi Wright-bræður

Hinn viðaukinn við Reykjavíkurflugdaginn góða er 100 ára afmæli flugsins í heiminum - hins sögufræga afreks Wright-bræðra. Það eiga sem flestir í flugmálum að fagna þessu stórafmæli og sem formaður Fyrsta flugs félagsins fagna ég því alveg sérstaklega, og tek hattinn ofan fyrir öllum, er finna slíkt framtak hjá sér.

Nafn áhugamannafélags okkar er beinlínis sótt í þetta einstæða flugafrek og við getum státað af því að skarta þeim Wright-bræðrum í félagsmerki okkar. Okkar litla félag var gagngert stofnað fyrir tíu árum í þeim tilgangi einum að efna til hópferðar á 90 ára afmæli flugsins í Kitty Hawk og það var gaman að sjá fjöldann allan af íslenskum flugáhugamönnum standa stolta á nákvæmlega sama stað og þeir Wright-bræður fóru í fyrsta sinn á loft. Það var eiginlega svolítið merkileg tilfinning.

Þann áratug sem síðan er liðinn hefur Fyrsta flugs félagið kappkostað að hlúa að minningu Wright-bræða og reynt eftir bestu getu að halda merki þeirra uppi hér á landi. Eins og vera ber vorum við fyrstir á Íslandi í ár til að minnast 100 ára afmælisins með útsýnisflugi yfir hálendi Íslands á Boeing 747-þotu frá flugfélaginu Atlanta í apríl sl. en Atlanta hefur jafnan stutt flugáhugafólk með ráðum og dáð og vonandi uppskorið ríkulega til baka frá okkur. Í júlí sl. héldum við 100 ára afmælisflughátíð í Smáralind þar sem við færðum flugið til almennings með þeim árangri að um 30.000 manns heimsóttu okkur.

Það sem eftir lifir árs munum við síðan verða með ýmsa aðra afmælisviðburði sem eiga eftir að koma nokkuð á óvart.

Frumkvæði og samkeppni hefur ávallt reynst fluginu best

Það er heillamerki að fá örlitla samkeppni í þessu 100 ára flugafmælisstússi okkar flugáhugamannanna enda hefur samkeppni ávallt verið fluginu til mikillar gæfu og verið drifkraftur allra helstu framfara. Þetta á jafnt við um tækni- og viðskiptalegu hliðina. Þegar horft er yfir flugsögu Íslands blasir við að helstu vendipunktar hennar voru þegar dugmiklir einstaklingar, stundum bara með yfirgripsmikla flugþekkingu að baki, höfðu frumkvæði, þorðu að taka ákvarðanir, þorðu að taka áhættu og hófu sig síðan upp úr meðalmennskunni. Það er einföld söguleg staðreynd að flugið þrífst alltaf best í samkeppni og með framtíðina í huga er það grundvallarmisskilningur að flugrekstur og ferðaþjónusta verði rekin í gegnum ráðuneyti eða aðrar opinberar stofnanir.

100 ára afmæli - 1903

Fyrsta flugið í heiminum. Wright-bræður fóru í sitt fyrsta flug í Kitty Hawk í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Þetta sögulega afrek markar upphaf nútímaflugsins. Þeir fóru á loft, gátu haldið hæð og stjórnað flugvélinni sem var auk þess vélknúin.

90 ára afmæli - 1913

Fyrsta flug Avro 504. Flugvél af þessari gerð átti eftir að verða fyrsta flugvél Íslendinga aðeins sex árum síðar. Þetta er tveggja sæta tvíþekja og fór flugið fram í Yorkshire á Englandi árið 1913.

75 ára afmæli - 1928

Flugfélag Íslands (nr. 2). Félagið var stofnað af 25 hluthöfum. Fyrsta flugvél félagsins hlaut nafnið Súlan, var af þýskri gerð, Junkers F 13, og rúmaði fimm farþega og tvo í áhöfn. Félagið hætti rekstri fjórum árum síðar og var forveri Flugfélags Íslands (nr. 3), sem síðar varð hluti af Flugleiðum hf.

Fyrstu reglubundnu flugferðirnar milli Reykjavíkur og Akureyrar. Súlan flaug með bæði póst og farþega í rúma þrjá mánuði, einkum til Akureyrar, en vélin lenti á samtals 25 stöðum á landinu og flutti um 500 farþega, þ.m.t. fjölmörg stutt útsýnisflug.

Fyrsta lending íslenskrar flugvélar í Vestmannaeyjum. Fyrsta flugvélin er reyndi lendingu í Vestmannaeyjum var Avro 504 frá Flugfélagi Íslands (nr. 1) árið 1920. Hún varð frá að hverfa og á heimleiðinni til Reykjavíkur lenti flugvélin í miklum og sögufrægum hrakningum, varð reyndar að nauðlenda vegna bensínleysis. Súlan varð fyrst til að lenda í Eyjum.

Fyrsta flug frá Reykjavík til Austfjarða. Súlan flaug fyrst þessa lengstu flugleið í innanlandsflugi hér á landi. Vélin var um 8½ klst. á leiðinni með viðkomu á nokkrum stöðum. Þótti landsmönnum mikið til koma um hraðann enda var þetta flug nefnt "hraðferðin" í fjölmiðlum.

Síldarleitarflug og landhelgisflug á Íslandi. Farið var á Súlunni. Auk tveggja flugliða voru um borð tveir Íslendingar sem síðar urðu þjóðþekktir fyrir störf sín á sviði sjávarútvegs og siglinga, Loftur Bjarnason útgerðarmaður og Eiríkur Kristófersson skipherra. Um líkt leyti var farið í fyrsta landhelgisgæsluflugið.

Fyrsti íslenski flugmaðurinn hefur flugnám. Sigurður Jónsson, Siggi flug, hefur flugnám í Þýskalandi. Hann lauk prófi vorið eftir og öðlaðist íslenskt flugskírteini nr. 1. Sigurður hóf störf á Junkers F 13 vélum Flugfélags Íslands (nr. 2) árið 1930 og varð þar með fyrsti íslenski flugmaðurinn er flaug með farþega.

Fyrstu íslensku flugvirkjarnir hefja nám. Flugfélag Íslands auglýsir eftir mönnum er vildu fara til Þýskalands í nám á kostnað félagsins. Fyrir valinu urðu þeir Björn Olsen, Gunnar Jónasson og Jóhann Þorláksson sem komu til baka eftir ár.

Fyrsti íslenski flugloftskeytamaðurinn hefur störf. Gunnar Backmann símritari setti fjarskiptatæki í Súluna og starfrækti þau í tengslum við síldarleitarflug.

Fyrstu íslensku flugfrímerkin. Gefin út af Póst- og símamálastjórn með flugvélamynd.

70 ára afmæli - 1933

Fyrstu Fokker-flugvélarnar koma til Íslands. Hollendingar stunduðu veðurrannsóknir á Íslandi og notuðu m.a. tvær flugvélar af gerðinni Fokker D. VII sem þóttu reynast vel í fyrri heimsstyrjöldinni. Þeir dvöldu hér í ár og höfðu bækistöðvar í Vatnsmýrinni á svipuðum slóðum og fyrsta flugvél á Íslandi fór á loft 14 árum áður. Tilgangur Hollendinganna var að kanna veðráttuna í háloftunum yfir Íslandi og afla upplýsinga vegna væntanlegra flugferða yfir N-Atlantshaf með viðkomu á Íslandi. Oft var farið í tvísýnar háloftaflugferðir yfir vetrarmánuðina. Árið 1965, 32 árum síðar, tók Flugfélag Íslands fyrstu Fokker-vélina í sína þjónustu en hún var af gerðinni F-27.

Hópflug Ítala á Íslandi. Hópflug Ítala á leið yfir N-Atlantshaf hefur viðkomu á Íslandi á leið á heimssýninguna í Chicago í Bandaríkjunum. Hópflugið var undir stjórn Balbos, flugmálaráðherra Ítalíu, en flugflotinn taldi 24 stóra flugbáta. Ítölsku flugmennirnir dvöldu í Reykjavík í sex daga og er ekki ofsögum sagt að heimsóknin hafi sett bæjarlífið á annan endann og flugköppunum fagnað sem þjóðhöfðingjum.

Íslandsheimsókn Lindbergh-hjónanna. Aðeins sex árum eftir sögufrægt flug sitt yfir N-Atlantshaf komu flugkappinn Charles Lindbergh og eiginkona hans, Anna, í heimsókn til Íslands. Tilgangurinn var að kanna veðurfar og hugsanlega lendingarstaði á flugleiðinni yfir úthafið fyrir bandaríska flugfélagið Pan American. Þau hjón komu á eins hreyfils Lockheed Sirius-flugvél og dvöldu í Reykjavík í nokkra daga en jafnhlédrægum manni og Lindbergh þótt nóg um allt umstangið sem hann olli hér í höfuðborg Íslands.

65 ára afmæli - 1938

Fyrsti flugdagurinn haldinn hátíðlegur á Íslandi. Flugmálafélag Íslands og Svifflugfélagið halda mikla flugsýningu á Sandskeiði með fjölbreyttri dagskrá, m.a. listflugi. Alls munu 5.000 manns hafa safnast saman á sýningarsvæðinu. Allar götur síðan hafa stórir flugdagar á Íslandi verið haldnir á vegum Flugmálafélags Íslands enda um að ræða eina helstu auglýsingu, kynningu og fjáröflunarleið fyrir grasrótarflugið á Íslandi en sem kunnugt er sprettur atvinnuflugið upp úr þeirri rót.

Elsta varðveitta flugvél Íslendinga kemur til Íslands. Þýskur svifflugsleiðangur kemur til landsins með þrjár svifflugur af nýjustu gerð og eina eins hreyfils, tveggja sæta landflugvél. Leiðangurinn var sendur hingað til lands á vegum Flugmálafélags Þýskalands, Íslendingum að kostnaðarlausu nema uppihald og flutningar. Þjóðverjarnir áttu að rannsaka svifflugsskilyrði hérlendis og kenna áhugamönnum svifflug. Flugmálafélag Íslands og ríkisstjórn Íslands keyptu síðan landflugvélina sem var af gerðinni Klemm KL 25 en gekk almennt undir nafninu "Klemminn" og bar síðar einkennisstafina TF-SUX. Hún var endursmíðuð af Gísla Sigurðssyni flugvélasmið, sem nú er nýlátinn, og var um árabil til sýnis í Flugstöðinni í Vestmannaeyjum. Um haust fyrir 65 árum fóru þeir Agnar Kofoed-Hansen og Bergur G. Gíslason, úr stjórn Flugmálafélagsins, í skipulegt könnunarflug á TF-SUX í alla landshluta í leit að hentugum stöðum fyrir flugvelli. Í þessum leiðangri tók einnig þátt einkaflugvélin TF-LÓA eða "Bláfuglinn" og var lent á 33 stöðum þar sem enginn flugvöllur var fyrir hendi en á ýmsum þeirra eru nú nokkrir af bestu innanlandsflugvöllum Íslands. "Klemminn" er elsta flugvélin sem varðveist hefur á Íslandi og er nú í vörslu Flugmálafélags Íslands.

Fyrsta flugvél Flugfélags Akureyrar kemur til Íslands. Flugvélin, TF-ÖRN, kom til Reykjavíkur með skipi og var sett saman í Vatnagörðum þar sem hún fór í þrjár reynsluflugferðir án farþega undir stjórn Agnars Kofoed-Hansen, sem síðar varð fyrsti flugmálastjóri Íslands. Flugvélin var keypt ný frá WACO-verksmiðjunum í Bandaríkjunum, af svokallaðri YKS-gerð, og gat rúmað fjóra farþega og flugmann auk þess sem unnt var að breyta henni í sjúkraflugvél. Hún var upphaflega landflugvél og gat sem slík flogið á 260 km hraða á klst. en vegna flugvallaleysis hér varð að breyta henni í sjóflugvél með 200 km hámarkshraða. Þetta er í raun fyrsta flugvél Flugleiða því Flugfélag Akureyrar (síðar FÍ nr. 3) er forveri þess, stofnað 1937 sem er upphafsár samfelldrar atvinnuflugsögu á Íslandi.

Fyrsta flug Flugfélags Akureyrar, síðar Flugleiða. Flugvélinni TF-ÖRN var sérstaklega ætlað að halda uppi flugferðum milli Reykjavíkur og Norðurlandsins enda gjarnan kölluð "Akureyrarflugvélin". Fyrsta flug vélarinnar til Akureyrar tók tvær klst. og 15 mínútur. Flugmaður var Agnar Kofoed-Hansen en með honum var vélamaður, Gunnar Jónasson. Þeir fluttu með sér 200 kg af pósti. Eftir komuna norður flaug Agnar með stjórnarmenn Flugfélagsins í kynnisflug en strax lá fyrir leiguflugferð frá Siglufirði til Raufarhafnar fyrir Síldarverksmiðjur ríkisins sem tók 50 mínútur en þar var staldrað við í fjórar klukkustundir. Líklega var þetta fyrsta ferð á Íslandi þar sem flugvél var beinlínis notuð í viðskiptalegum tilgangi.

Fyrsta ískönnunarflug á Íslandi. Að tilhlutan forsætisráðherra flaug TF-ÖRN frá Akureyri norður í höf til þess að rannsaka ísalög úti fyrir Norðurlandi en áður hafði orðið ísa vart á þeim slóðum. Agnar Kofoed var við stjórnvölinn en með í för voru Edvard Sigurgeirsson ljósmyndari og og skipstjórinn Stefán Jónsson.

Fyrsta almannavarna- og náttúrufræðiflug á Íslandi. TF-ÖRN sendur af ríkisstjórn og Menningarsjóði til Suðausturlands til að rannsaka nýhafið Skeiðarárhlaup og samband þess við eldstöðvarnar í Grímsvötnum. Þetta var fyrsta flugferðin yfir Vatnajökul og Öræfajökul. Teknar voru um 500 ljósmyndir og kvikmynd. Sem fyrr flaug Agnar Kofoed en með honum um borð voru Björn Jónsson vélamaður, Pálmi Hannesson, rektor MR, og Steinþór Sigurðsson magister.

Flugréttindi veitt í fyrsta skipti á Íslandi. Fyrsti maðurinn sem fékk flugpróf á Íslandi var Björn Pálsson. Agnar Kofoed-Hansen kenndi honum á tveggja sæta, eins hreyfils Irwin-einkaflugvél, TF-LÓA, kölluð "Bláfuglinn" en vélina hafði Björn keypt í félagi við nokkra aðra áhugaflugmenn. Björn hafði um nokkurt skeið verið virkur í starfi Svifflugfélagins á Sandskeiði. Á þessum árum starfaði Björn sem bifreiðastjóri á Kleppi en tíu árum síðar hóf hann að stunda sjúkraflug á eigin flugvél og starfrækti sjúkraflugsþjónustu í um 35 ár. Á því tímabili varð Björn þjóðhetja fyrir margar svaðilfarir sínar til að bjarga fjölda mannslífa fyrir tilverknað flugsins.

Flugmálafélag Íslands biður formlega um Reykjavíkurflugvöll. Flugmálafélagið ritar bæjarstjórn Reykjavíkur bréf og vill strax gangast í það verk að leggja flugvöll í Vatnsmýrinni. Í samráði við ríkisstjórn Íslands hafði Flugmálafélagið látið gera verkfræðiuppdrátt af fyrirhuguðum flugvelli og bráðabirgðakostnaðaráætlun er hljóðaði upp á 90.000 krónur.

60 ára afmæli - 1943

Fyrsta flugvél Loftleiða til Íslands. Þrír af af stofnendum Loftleiða hf., Alfreð Elíasson, Kristinn Olsen og Sigurður Ólafsson, koma með fyrstu flugvél sína til Íslands og var mikið ævintýraflug frá Winnipeg til New York þar sem vélin var sett í skip til Íslands. Flugvélin var fjögurra sæta Stinson S.R.8CM Reliant og hlaut einkennisstafina TF-AZX. Flugfélagið Loftleiðir var síðan formlega stofnað um fimm mánuðum síðar, eða í apríl 1944. Þetta var fyrsta flugvélin sem Loftleiðir eignuðust.

Landgræðsluflugvélin Páll Sveinsson smíðuð. Flugvélin var smíðuð hjá Douglas-verksmiðjunum í Kaliforníu. Flugfélag Íslands keypti hana átta ára gamla frá Bretlandi árið 1951 og hlaut hún nafnið Gunnfaxi og einkennisstafina TF-ISB. Hún var strax tekin í notkun á innanlandsflugleiðum og síðar í leiguflugferðum og skíðaflugi til Grænlands og á Grænlandi. Flugvélin afrekaði m.a. að lenda á skíðum á Bárðarbungu á Vatnajökli fyrir röskum 30 árum. Árið 1974 komst Gunnfaxi í hendur Landgræðslunnar og var skírð Páll Sveinsson.

50 ára afmæli - 1953

Loftleiðaævintýrið. Sögufrægur og stormasamur aðalfundur Loftleiða haldinn í Reykjavík þar sem ný stjórn tekur við undir formennsku Kristjáns Guðlaugssonar lögmanns. Árið áður ákváðu Loftleiðir að hætta innanlandsflugi vegna afskipta stjórnvalda af skiptingu innanlandsflugleiða og mátti litlu muna að Loftleiðum yrði breytt í skipafélag. Þetta ár fyrir hálfri öld urðu þáttaskil í starfsemi Loftleiða því nýja stjórnin réðst, með takmörkuðu fjármagni, í mikla útrás í millilandaflugi á N-Atlantshafsflugleiðinni og leiguflugi víða um heim. Árangurinn var slíkur að árið 1953 markar upphaf þess sem jafnan hefur verið kallað Loftleiðaævintýrið og var mesta uppgangstímabil í flugsamgöngusögu Íslands, fyrr og síðar.

Loftleiðir fyrstir með lág fargöld yfir Atlantshafið. Loftleiðir auglýsa í fyrsta sinn lág fargjöld, mun lægri en önnur félög buðu á flugleiðinni yfir N-Atlantshafið. Þegar í upphafi lentu Loftleiðir í stórstríði við SAS og IATA, Alþjóðasamtök flugfélaga. Loftleiðir urðu þannig fyrsta lággjaldaflugfélagið á þessari fjölförnustu úthafsflugleið í heiminum.

Loftleiðir hefja reglubundið áætlunarflug til Hamborgar. Árinu áður hóf félagið vikulegar áætlunarferðir milli Evrópu og Bandaríkjanna með viðkomu á Íslandi og þar með var lagður hornsteinninn að því N-Atlantshafsleiðarkerfi sem Flugleiðir búa ennþá að í dag.

Eina DC-3 flugvélin sem keypt var til Íslands. Flugfélag Íslands keypti vélina frá Northwst flugfélaginu í Bandaríkjunum og seldi hana aðeins fjórum árum síðar til norska flugfélagsins Braathen. Þetta var eina vélin af þessari gerð sem kom til Íslands og var einvörðungu ætluð til farþegaflutninga og var notuð sem slík í innanlandsflugi. Allir aðrir íslenskir "Þristar" voru upphaflega herflugvélar af C-47 gerð sem hafði verið breytt fyrir flutningaflug með farþega og vörur.

40 ára afmæli - 1963

Loftleiðir kynna viðdvalartilboð á Íslandi. Á þessum árum urðu Loftleiðavélar á leiðinni yfir N-Atlantshaf að millilenda á Íslandi. Til að laða fleiri ferðamenn til Íslands kynntu Loftleiðir í fyrsta sinn viðdvalartilboðið "Stop Over in Iceland" og er þetta talin vera snjallasta alþjóðamarkaðsherferð í íslenskri ferðaþjónustu. Árið áður var fyrsta skóflustungan tekin að nýrri stórbyggingu Loftleiða á Reykjavíkurflugvelli og var hluta hennar, sem átti að vera flugstöð, breytt í Hótel Loftleiðir fyrir viðdvalarfarþega og ári síðar var hinn hlutinn opnaður fyrir skrifstofur félagsins.

Flugfélag Íslands hefur áætlunarflug til Færeyja. Flugfélagið hafði sótt um áætlunarleyfi tveimur árum áður en í þetta fyrsta áætlunarflug sitt varð félagið að nota leiguflugvél. Hins vegar lenti fyrsta íslenska flugvélin í Færeyjum 14 árum áður, eða árið 1949. Það var Catalina-flugbátur Flugfélagsins sem bar nafnið Skýfaxi, TF-ISK, og var undir stjórn Antons Axelssonar flugstjóra. Það sama ár hóf Flugfélagið áætlunarflug til London og Ósló.

Flugfélag Íslands hefur skíðaflug til Austur-Grænlands. Fyrsta skíðaflugið var til Meistaravíkur á Douglas DC-3 flugvél er var með sérstökum skíðabúnaði. Þetta var flugvélin Gljáfaxi, TF-ISH, en síðar voru einnig sett skíði undir Glófaxa, TF-ISA. Þetta fyrsta flug á íslenskri skíðaflugvél var farið af yfirflugstjóra Flugfélagsins, Jóhannesi R. Snorrasyni, en með honum í áhöfn var Jón R. Steindórsson flugmaður er síðar varð yfirflugstjóri Flugleiða. Skíðaflugið var einn sérstæðasti þátturinn í Grænlandsflugi Flugfélagsins en það stóð yfir í um áratug. Þetta voru ævintýralegar ferðir fyrir starfsfólk Flugfélagsins en veittu mikla öryggiskennd fyrir íbúa í afskekktum byggðarlögum á Austurströnd Grænlands.

30 ára afmæli - 1973

Flugleiðir stofnaðar. Formlegur stofndagur er 20. júlí. Um miðjan mars náðist samkomulag um sameiningu Flugfélags Íslands og Loftleiða er samþykkt var á aðalfundum félaganna í lok júní. Fyrstu stjórnarformenn Flugleiða voru kjörnir þeir Kristján Guðlaugsson og Örn Ó. Johnson en forstjórastólana skipuðu þeir Alfreð Elíasson og Örn Ó. Johnson.

Flugleiðir taka til starfa. Fyrsti stjórnarfundur Flugleiða var haldinn 1. ágúst og þar með hófst starfsemi félagsins. Millilandaflugáætlun Flugfélags Íslands og Loftleiða var samræmd í október. Fyrsti aðalfundur Flugleiða var haldinn þremur árum síðar og enn liðu tvö ár þar til allur flugrekstur beggja flugfélaganna var sameinaður undir merkjum Flugleiða.

Loftleiðir hefja áætlunarflug til Chicago. Áætlunarflug hefst um vorið með Dougals DC-8-63 þotum með 245 farþegasæti. Tveimur árum fyrr höfðu Loftleiðir sett á stofn söluskrifstofu í Chicago. Um tíma, á árunum kringum 1980 var flogið einu sinni í viku beint á milli Lúxemborgar og Chicago án viðkomu á Íslandi. Flugi til Chicago var síðar hætt.

25 ára afmæli - 1978

Flugrekstrarafmæli Flugleiða. Félagið tekur formlega við öllum flugrekstri Flugfélags Íslands og Loftleiða eftir fimm ára aðlögunartíma. Jafnframt var ákveðið að taka upp nýtt félagsmerki og nota erlenda heitið Icelandair á félagið.

Íslendingar stíga inn í breiðþotuöldina. Flugleiðir undirrita kaupleigusamning um breiðþotu af gerðinni Douglas DC-10-30CF og kom hún til lands snemma næsta ár. Hún var skrásett í Bandaríkjunum og þann skamma tíma sem hún var í rekstri náði hún aldrei að verða skráð hér á Íslandi sem fyrsta breiðþotan í flugflota landsmanna. Um 13 árum síðar skráir Flugfélagið Atlanta fyrstu breiðþotuna í íslenska flugflotann, Lockheed Tristar.

Flugleiðir hefja áætlunarflug til Baltimore. Þessi flugleið var opnuð á fimmta afmælisári félagsins. Um skeið var flug til Baltimore lagt niður en síðar endurvakið.

Eftir Gunnar Þorsteinsson

Höfundur er formaður Fyrsta flugs félagsins, áhugamanna- og ferðafélags í flugi.