ÉG SÁ fallega mynd af Hornbjarginu í Morgunblaðinu 27. júlí sl. og með henni var frásögn Ragnars Jakobssonar þegar hann kleif Hornbjarg frá fjöru og upp á brún. Þetta var vissulega vel gert á þeim tíma.

ÉG SÁ fallega mynd af Hornbjarginu í Morgunblaðinu 27. júlí sl. og með henni var frásögn Ragnars Jakobssonar þegar hann kleif Hornbjarg frá fjöru og upp á brún. Þetta var vissulega vel gert á þeim tíma. Ég tel þó nauðsynlegt að bæta nokkrum staðreyndum við þessa frásögn sem á köflum er mjög hástemmd og farið með nokkrar rangfærslur. Ég þykist vita að þessir ágallar séu á ábyrgð greinarhöfundar.

Sjálfur hef ég næstum árvisst allt frá 1960 og fram á síðustu ár stundað eggjatöku í Harðviðrisgjá (kölluð Gjáin meðal bjargmanna) og á ég því að þekkja nokkuð vel til aðstæðna þar. Eftir að hætt var að síga eftir eggjunum af brún var farið niður Gjána frá brún, eggin borin saman af þræðingunum og upp í Gjáarhillu. Þaðan voru þau í fyrstu borin í hvippum upp á brún en síðar var farið að fygla þeim upp á streng frá Gjáarhillu. Um miðjan sjöunda áratuginn var hætt að taka eggin upp á brún, heldur voru þau borin niður Gjána og austur með Gjáarstandi eða niður með Urðarnefi alla leið í fjöru og sótt þaðan á bát. Eggjatekjan fór því fram á öllu því svæði sem Ragnar átti leið um þegar hann kleif bjargið. Efri þræðingur og neðri þræðingur undir Gjárhillunni hafa alla tíð verið tæpir á köflum, en samt fóru menn eftir þeim með 150-200 egg í hvippu, svo fyrir lausan mann að ganga um efri þræðinginn í góðu veðri var engin hættuför að frátöldum strengnum sem klippir í sundur báða þræðingana og útilokar för um neðri þræðing og torveldar mjög för um efri þræðing. Það er hins vegar ranghermt í greininni í Morgunblaðinu um Ragnar að eggjum hafi á seinni árum verið fýrað niður í bát. Sá háttur var hafður á í Gránefjum í Hælavíkurbjargi en aldrei í Hornbjargi.

Ragnar er hvorki sá fyrsti né eini maðurinn sem hefur farið yfir strenginn í efri þræðingi. Arnór Stígsson frá Horni, sem að öðrum fyglingum ólöstuðum er líklega færasti bjargmaður sem stundað hefur Hornbjarg, var fyglingur þeirra Hornmanna á árunum 1939 til 1946 og seig að segja má allt bjargið frá Ystadal og austur í Almenningsskarð. Lengsta sig Arnórs var frá efsta Gísla-miðhöggi í Kálfatindum niður í Hvolf austan Rana, en það sig mun vera rúmir 300 metrar, því bæta þurfti vel við festina sem var 120 faðmar. Margir menn voru á festinni og þegar dregið var upp hlupu menn með festina niður á dal. Þá var eins gott að fyglingurinn hefði fæturna í lagi. Arnór seig einnig niður á báða þræðingana í Gjánni, fór úr festinni og gekk þræðingana. Fór hann þá meðal annars laus úr festi yfir strenginn í efri þræðing sem Ragnar fór yfir. Arnór flutti árið 1946 til Ísafjarðar og fór að smíða mublur. Hann kom norður til bjargsiga tvö vor eftir það, 1947 og 1948, en hefur ekki klappað Hornbjargsmublunni síðan.

Síðustu áratugina hafa Tryggvi Guðmundsson, lögfræðingur, systursonur minn, Einar Valur Kristjánsson, nú forstjóri HG, og Rósmundur Skarphéðinsson stýrimaður, verið manna harðastir í eggjatöku á Gjáarsvæðinu. Fleiri hafa verið með þeim annað slagið. Hafa sumir þessara manna farið yfir strenginn í efri þræðingnum, meira að segja með egg í hvippu. Kristmundur Skarphéðinsson, bróðir Rósmundar, fór sem ungur og óreyndur maður yfir strenginn með á annað hundruð egg í hvippu, en hann hafði ekki áttað sig á því að hann átti að snúa við þar sem strengurinn tók þræðinginn í sundur. Eftir að komið er yfir strenginn er ekki stórmál fyrir vana bjargmenn að fara austur þræðinginn inn í Gjá og þaðan upp Gjána og upp á brún. Hafa margir gert þetta þótt þeir hafi ekki farið í einum áfanga frá fjöru upp á brún.

Merkilegust er þó sagan af Sigurði Magnússyni, bjargfélaga mínum (hann fórst í Hælavíkurbjargi 1974) þegar hann fjórtán ára gamall fór sömu leið og Ragnar Jakobsson fór áður. Sigurður var á Hornbjargsvita hjá Jóhanni Péturssyni vitaverði. Jóhann sendi Sigurð til fugla- og eggjatekju í Hólm undir Hornbjargi. Sigurður hafði lítinn mat meðferðis og svaf undir segldúksdulu sem hann strengdi milli tveggja steina. Þegar Jóhann ætlaði að sækja Sigurð á þriðja degi gerði norðaustan garð og rigningu og varð Jóhann frá að hverfa. Sigurður, eða Siggi eins og hann var jafnan kallaður, var orðinn matarlaus, blautur og kaldur og átti ekki annars úrkosta en að reyna að komast upp á brún bjargsins og þaðan til Látravíkur. Á þeim tíma þekkti hann lítið til bjargsins en rambaði á að fara sömu leið og Ragnar fór upp glufuna austan Urðarnefs. Þar reyndi hann að komast alla leið upp í Gjáarhillu, en síðustu faðmarnir eru úr sléttu meitilbergi svo hann komst ekki lengra. Munaði litlu að hann hrapaði þegar hann fór niður aftur. Á leiðinni niður sá hann efri þræðinginn og fetaði sig austur eftir honum og kom þar að þessum margumtalaða streng. Glorsoltinn og kaldur klóraði hann sig yfir rennblautan strenginn. Hann sagði mér síðar að þarna hefði litlu mátt muna að hann hrapaði alla leið niður í fjöru. Hann gekk síðan þræðinginn austur í Gjá og þaðan komst hann upp Gjána og heim í Látravík. Þetta hefur sennilega verið árið 1961. Siggi var einn mesti afreksmaður í bjargi sem ég hef þekkt, ótrúlega sterkur og fimur og kunni ekki að hræðast.

Að lokum vil ég ítreka að greinarkorn þetta er ekki skrifað á nokkurn hátt til að gera lítið úr afreki Ragnars Jakobssonar er hann kleif Hornbjarg heldur til að gefa mönnum gleggri mynd af þessu svæði í Hornbjargi og þeirri starfsemi bjargmanna sem þar átti sér stað á vorin og nú fer senn að heyra sögunni til.

Eftir Kjartan Sigmundsson

Höfundur er skipstjóri og býr á Ísafirði og kennir sig við Hælavík.