Kalda stríðið í algleymingi 1961 og íslenskir blaðamenn leggja kalt mat á vígbúnað í bandarískri herstöð. Frá vinstri: Páll Beck frá Vísi, Gísli J. Ástþórsson frá Alþýðublaðinu og greinarhöfundurinn, þá á Vikunni.
Kalda stríðið í algleymingi 1961 og íslenskir blaðamenn leggja kalt mat á vígbúnað í bandarískri herstöð. Frá vinstri: Páll Beck frá Vísi, Gísli J. Ástþórsson frá Alþýðublaðinu og greinarhöfundurinn, þá á Vikunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir 40 árum var ríkisútvarpið eitt um hituna á ljósvakanum en á hinn bóginn hefur dagblöðum fækkað; þau voru þá fimm. Þetta var tímabil flokksmálgagnanna og öll blöð voru þá enn prentuð með gamla laginu, hver lína steypt í blý. Þá var mikill uppgangstími eftir skort og skömmtun á árunum eftir stríðið, Viðreisnarstjórnin byrjuð að taka til hendi og mikil bjartsýni ríkjandi.

EFTIR 45 ár í blaðamennsku er tilefni til að líta yfir liðna áratugi og freista þess að gera sér grein fyrir hvernig sumt hefur breytzt á blöðunum og í samfélaginu, en annað lítið sem ekki neitt. Efnið er svo viðamikið að ég hef kosið að beina athyglinni sérstaklega að blöðum og fólki á sjöunda áratug síðustu aldar eða rúmlega það; árunum frá 1960 til 1973. Þetta eru síðustu ár blýaldarinnar á blöðunum sem kalla mætti svo, en þá urðu mikil tímamót með því að gömul tækni, sem fólst í að hver lína var steypt í blý, var lögð til hliðar.

Tæknilega hliðin á blöðunum er óþekkjanleg frá því sem var, en eftir stendur óbreytt það sem úrslitum ræður: snjallir blaðamenn og vönduð vinnubrögð. Langt er síðan sérhæfing hófst á dagblöðunum og sá tími er liðinn annarsstaðar en á smáblöðum að sami maður gangi í hvað sem uppá kemur. Svo dæmi sé tekið af Morgunblaðinu þar sem ég þekki bezt til, þá starfa þar í fyrsta lagi fréttamenn, sem verða samkvæmt eðli málsins að fylgjast vel með og geta unnið hratt. Í annan stað eru blaðamenn sem sinna almennum greinaskrifum og geta samtöl af ýmsum toga verið í þeirra verkahring. Í þriðja lagi er pólitísk blaðamennska, leiðaraskrif og greinar með pólitísku inntaki. Í fjórða lagi hafa blöðin komið sér upp sérhæfðum blaðamönnum sem fjalla til að mynda um útvegsmál, viðskipti, bíla eða listir.

Sagt var löngum að blaðamenn gætu ekki vænzt langrar ævi; starfið væri óhollt og streita fastur förunautur. Hugmyndina um hinn dæmigerða blaðamann á blýöld höfðu menn úr amerískum kvikmyndum. Þar situr hann í ærandi hávaða innan um fjölda manns, grúfir sig yfir ritvélina í reykskýi; sígarettustubburinn ævinlega í munnvikinu. Einhverntíma hefur þesskonar blaðamaður átt stoð í raunveruleika á útlendum stórblöðum, en sú mynd er afar fjarlæg raunveruleikanum eins hann birtist til að mynda á Morgunblaðinu.

Að vísu minnist ég þess frá árunum í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti að þar var ekki mjög hljóður vinnustaður. Enda þótt menn væru stúkaðir af varð töluverður kliður frá gömlu ritvélunum, sem einnig varð til þess að menn urðu að tala hærra. Þá var mikill gestagangur af götunni; gamlir og góðir Moggavinir litu inn einhverra erinda eða bara til að spjalla og sumir voru háværir. Fáir náðu öðrum eins rómstyrk og Örlygur Sigurðsson listmálari og í þeim viðræðum lét Matthías ritstjóri ekki sitt eftir liggja og hafði gaman af því að yfirgnæfa málarann.

Með tölvuvinnslunni varð sú breyting að ritvélakliðurinn hvarf og jafnframt þurftu menn ekki sífellt að brýna róminn. Ég dáðist oft að því eftir að Morgunblaðið flutti í nýja húsið í Kringlunni hvað lítið heyrðist í öllum þeim fjölda sem þar vann í stóru, svo til skilveggjalausu rými. Einn ágætur maður sem erindi átti við Lesbók, stanzaði í dyrunum, leit yfir salinn og spurði: "Er þetta hljóð bænastund, eða er þetta alltaf svona?"

Á blýöldinni varð beinlínis að lemja gömlu ritvélarnar og menn gerðu það yfirleitt af töluverðri fimi. Margir notuðu þó í mesta lagi tvo fingur á hvorri hendi; það var biblíuaðferðin sem svo var nefnd: Leitið og þér munuð finna. Með verzlunarpróf uppá vasann hafði maður þó þann verklega ávinning að geta skrifað blindskrift á þessi blýaldartæki og gamla Ericu notaði ég í um tvo áratugi, eða þar til tölvubyltingin á níunda áratugnum gerði hana endanlega að forngrip. Mér finnst núna að hún hafi verið hliðstæða við ýmis tól frá hestaverkfæraöldinni sem ég hafði kynnst. Hitt er svo annað mál að tæki og tól ráða ekki úrslitum um hvort blöð eru góð eða léleg; hvort skapandi hugsun ræður ferðinni eða það metnaðarleysi sem lætur gott heita ef hægt er að fylla síðurnar af einhverri froðu og koma blaðinu út.

Um 2100 blöð á 45 árum

Á 45 ára tímabili sá ég um að koma vikulega út blaði, fyrst Vikunni og síðar Lesbók Morgunblaðsins. Lætur nærri að það séu 2.100 blöð. Allan tímann leit ég á það sem forréttindi að fá að vinna þetta verk, en jafnframt var það eitthvað hliðstætt því að hlaupa maraþonhlaup; aldrei má hlaupa svo hratt að úthaldið bresti. Blaðamennska af þessu tagi hefur í för með sér kynni við mikinn fjölda úrvalsfólks úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Það var samfelldur skóli og í því liggur stærsti kostur þessa starfs.

Á blöðunum höfðu alltaf verið eldhugar sem höfðu mikil áhrif, bæði innan blaðanna sem utan. Um 1960 voru pólitískar skylmingar ekki nærri eins vægðarlausar og verið hafði á meðan Jónas frá Hriflu lét til sín taka og notaði Tímann til að ná sér niðri á andstæðingum sínum. Menn gátu reyndar orðið illkvittnir í pólitískri blaðamennsku á tímum kalda stríðsins. Á því hefur sem betur fer orðið mikil breyting en líklega lifði lengst í kolum illkvittninnar á Þjóðviljanum; til að mynda í pistlum Magnúsar Kjartanssonar.

Á Morgunblaðinu hafði Valtýr Stefánsson verið kraftmikill frumkvöðull og átti mestan þátt í að móta viðtalsformið sem sérstakt blaðaefni. Í byrjun þess tímabils sem hér um ræðir hafði Matthías Johannessen tekið við keflinu; hann fágaði samtalsformið enn frekar og gerði það eiginlega að bókmenntagrein. Þá voru samtöl yfirleitt skrifuð sem spurningar og svör en í seinni tíð hefur fremur orðið ofaná að höfundurinn skrifi stærsta hlutann sem óbeina ræðu: "NN segir að" og svo framvegis. Stöku sinnum er svo bein ræða viðmælandans.

Bæði samtalsformin geta verið góð en ljóst er að óbein ræða gefur blaðamanninum meira frelsi. "Segulbandsviðtöl", spurningar og svör þar sem allt er skrifað beint upp eftir segulbandi, þóttu ótæk vinnubrögð á Morgunblaðinu og sjálfur tamdi ég mér þá aðferð að skrifa ekki orð niður í samtölum, heldur að skrifa eftir minni strax á eftir og fella niður það sem ástæða þótti til. Sú regla gilti hvort sem var að viðtal var ekki birt nema viðmælandinn fengi að lesa það yfir.

Fyrir 40 árum fór nýr og frísklegur andi um síður Tímans með Indriða G. Þorsteinssyni í ritstjórastóli en Tíminn var í rauninni afar íhaldssamt blað og gamlir framsóknarmenn litu með nokkurri tortryggni á þennan unga ritstjóra sem hafði hneykslað þá með verðlaunasögunni Blástör í Samvinnunni. Þá varð þessi vísa fleyg:

Blá er Blástararsagan

og blár er höfundurinn,

blátt verður blaðið af henni

en bláust er dómnefndin.

Alþýðublaðið tók frísklegan sprett um svipað leyti og fékk nýstárlegt útlit undir forustu Gísla J. Ástþórssonar, sem var skólaður í Bandaríkjunum og síðar lengi blaðamaður á Morgunblaðinu. Oft mátti sjá á blöðunum að ungir menn tóku spretti en blöðin skorti fé og menn voru of fáliðaðir. Þá var unnið meira en góðu hófi gegndi og svo tók þreytan völdin.

Á blýöldinni var ekki um að ræða að gera neitt svipaðar kúnstir með útlitið og nú er hægt, en raunar hefur það verið vanmetið hvað hægt er að gera í svart-hvítu, ef saman fer listræn meðferð á letri, ekki sízt í fyrirsögnum, og góð uppsetning eða umbrot eins og það var kallað. Umbrot, orð sem allir blaðamenn þekkja, ber í sér vísun til blýaldarinnar þegar hver lína í dálki var steypt í blý. Færi grein í tvídálk eða þrídálk, var línuröðin brotin í tvennt eða þrennt. Stundum gat komið fyrir að menn misstu blýlínurnar eða "satsinn" í gólfið þegar unnið var í flýti og þótti frekar ergilegt. Menn mældu ekki í sentimetrum, heldur "síseróum" og blaðamenn urðu að læra muninn á "petít" og "nonparel". Nú hafa ný tækniorð leysti þessi af og þau eru afkvæmi tölvualdarinnar.

Mikil breyting hefur orðið á útliti blaðanna en þegar það er borið saman á þessu fjörutíu ára tímabili sést að mestu munar í auglýsingunum. Fyrir fjórum áratugum voru þær vægast sagt heldur fátæklegar, jafnvel hallærislegar, oftast settar saman á blöðunum og lengst af höfðu hvorki blöðin né auglýsendur efni á að birta auglýsingar í lit. Ég tel að á árunum um og eftir 1960 hafi Vikan verið langt á undan öðrum íslenzkum blöðum með listrænt útlit en á blýöldinni hygg ég að Þjóðviljinn hafi verið nokkuð á undan hinum dagblöðunum að þessu leyti.

Á Samvinnunni og Vikunni

Upphafið á mínum ferli í blaðamennsku má rekja til þess að í ársbyrjun 1955 réðst ég til tímaritsins Samvinnunnar, sem að sjálfsögðu var prentað í Eddu, sjálfu framsóknarprentverkinu. Þar gekk ég í fyrsta sinn inn í klið setjaravélanna og vann með ungum prentnema sem raðaði saman síðum Samvinnunnar, oft með myndum af leiðtogum Sambandsins sáluga. Prentneminn, Jón Svan Sigurðsson, hefur heldur betur látið til sín taka í prentsmiðjuheiminum. Svansprent er nú ein af stærstu og beztu prentsmiðjum landsins.

Benedikt Gröndal, ritstjóri Samvinnunnar, var um þetta leyti kominn í framboð til Alþingis og hafði ekki lengur tíma til að sinna blaðinu. Líklega var það einber tilviljun að ég var kallaður til en sá fljótt að starfið átti vel við mig. Benedikt var Ameríkulærður og vel að sér um blaðamennsku þess tíma; hann hlaut því að verða lærifaðir minn fyrsta sprettinn. En meinið var að ég hafði takmarkaðan áhuga á því efni sem eðli málsins samkvæmt þurfti að vera í blaðinu. Það fór enda svo að ég varð ekki mosavaxinn í aðalstöðvum samvinnuhreyfingarinnar við Sölvhólsgötu, en útsýnið úr skrifstofunni á 5. hæð - beint yfir skrifstofu núverandi menntamálaráðherra - var þó hrífandi.

Ákjósanlegur tími til að rífa upp blað

Tækifærið til að takast á við alvöru verkefni í blaðamennsku kom 1959 þegar mér bauðst ritstjórastarf hjá Vikunni sem Hilmar Kristjánsson gaf út og hafði Jökull Jakobsson rithöfundur verið ritstjóri um nokkurt skeið. Auk hans voru þar blaðamennirnir Jónas Jónasson, síðar útvarpsmaður, og Bragi Kristjónsson, síðar fornbókasali. Þeir stóðu ekki lengi við en aðrir frískir menn komu í staðinn; þeirra á meðal Ólafur Gaukur tónlistarmaður, Loftur Guðmundsson rithöfundur, Guðmundur Karlsson blaðamaður og Sigurður Hreiðar, sem tók við ritstjórninni af mér 1967. Fleira gott fólk vann á ritstjórninni um skemmri tíma.

Vikan hafði verið til húsa í Steindórsprenti, nyrst í Tjarnargötu, og ritstjórnin hafði aðeins þrönga kompu til umráða. Þarna var blýöldin í öllu sínu veldi; sífelldur kliður frá setjaravélum og þyngri niður frá prentvélunum sem voru í sama sal. Vorið 1960 keypti Hilmar nýtt húsnæði fyrir skrifstofur og prentsmiðju í Skipholti 35, í húsi sem var og er áfast byggingunni þar sem Sjónvarpið starfaði lengst af. Þá fannst okkur mikill munur á orðinn; prentsmiðjan á hæðinni fyrir neðan og hávaðinn minni - og lærlingurinn úr Eddu var orðinn prentsmiðjustjóri.

Tíminn var ákjósanlegur til að rífa upp blað; haftatíminn að baki, Viðreisnarstjórnin byrjuð að taka til hendi með nýja og frjálslegri viðskiptahætti og enn sjö ár þar til grimmileg samkeppni hófst með tilkomu Sjónvarpsins. Helztu keppinautarnir á vikublaðamarkaðnum voru dönsku blöðin, Hjemmet og Familie Journal, sem enn voru mjög vinsæl, svo og Fálkinn. En honum hafði þá mjög fatazt flugið og skipti eiginlega ekki máli.

Markhópur Vikunnar hafði verið ungt fólk, svo og húsmæður sem um 1960 voru langflestar heimavinnandi. Það var vitaskuld freistandi að fara í fótspor dönsku blaðanna en metnaður okkar stóð til annars; við vildum gera Vikuna að blaði sem mark væri tekið á og smám saman tókst það. Upplagið sem verið hafði 8 þúsund þegar við fluttum í Skipholtið, komst uppí 16 þúsund um 1964 og hélt því þar til Sjónvarpið gerði strik í reikninginn. Á þeim tíma var Vikan næst Morgunblaðinu að stærð og yfirleitt 52 síður.

Að sjálfsögðu varð að vera drjúgur skammtur af dægradvöl eða afþreyingarefni; þar á meðal framhaldssögur. En markmiðið var alltaf að gera Vikuna að alvöru blaði.

Þungaviktarmenn í röð greinahöfunda

Eftir því sem Vikunni óx ásmegin fékk ég nokkra góða höfunda til að leggja blaðinu lið. Stefán Jónsson fréttamaður á útvarpinu var þar á meðal, snjall stílisti og hagmæltur vel, en hafði yndi af gráu gamni og gátu orðið eftirmál. Stefán var skemmtilegur ferðafélagi; oft hermdi hann eftir Jóni alþingismanni á Akri og orti þá ambögulegar vísur, stundum jafnvel á ensku.

Ásgeir Jakobsson var að hefja sinn rithöfundarferil á þessum árum; brátt kunnur fyrir safaríkt tungutak og greinaflokkar hans sem síðar birtust í Lesbókinni um Eyvind og Höllu, svo og Þórð kakala, voru með því bezta sem birtist í blöðum á þeim tíma. Ásgeir gekk fljótt til liðs við Vikuna eftir að hann fluttist suður frá Akureyri og vakti strax athygli með fyrstu grein sinni um þann atburð á Vestfjörðum þegar pólitískir andstæðingar Hannibals Valdimarssonar tóku hann höndum og fluttu á báti.

Um tíma skrifaði Helgi Sæmundsson, fyrrum ritstjóri Alþýðublaðsins, mánaðarlega greinar í Vikuna. Helgi var snjall penni og húmoristi; hann hafði lag á að segja hlutina þannig að eftir var tekið, þó alltaf án persónulegrar rætni. Mesta athygli og umtal vakti grein hans um skógrækt á Íslandi: Eins og skegghýjungur á andliti ungar konu. Þar var Helgi á undan sinni samtíð og talaði fyrir skoðun, sem síðan hefur fengið almennt fylgi, nefnilega þeirri, að fráleitt sé að fórna okkar fáu og smáu birkiskógum fyrir útlendar trjátegundir. Síðast en ekki sízt er þess að geta að Matthías Johannessen frumbirti í Vikunni viðtöl við Þórberg Þórðarson en þá hófust kynni okkar Matthíasar sem leiddu síðar til þess að ég hætti hjá Vikunni og flutti mig yfir á Lesbók

Greinar, sem nefndar voru "aldarspeglar" fjölluðu bæði um kosti og lesti ýmissa þjóðkunnra manna, höfðu orðið umtalað og vinsælt lestrarefni. Flesta þeirra skrifaði Bragi Kristjónsson, en nokkra skrifaði ég sjálfur. Annar sem kom að því verki var Vilhjálmur Vilhjálmsson blaðamaður á Alþýðublaðinu; þjóðkunnur þaðan sem dálkahöfundurinn Hannes á horninu, en almennt kallaður VSV eða Vaffi. Höfunda aldarspeglanna var aldrei getið; líklega til þess að gefa þeim frjálsari hendur, en ritstjórinn varð að standa klár að afleiðingunum.

Fyrir aldarspegil Vaffa um Aron í Kauphöllinni var ég sem ábyrgðarmaður blaðsins dæmdur fyrir meiðyrði; ekki þó vegna þess að Vaffi hefði sagt eitthvað ljótt um Aron, heldur vegna þess að hann rakti samskipti Arons við bónda á Kjalarnesi þar sem Aron hafði fengið að byggja sumarbústað, en í óþökk þessa bónda. Sagði í greininni, að bóndinn hefði veitt læk úr farvegi sínum á bústaðinn og girt sérstaka girðingu í kringum sumarbústað Arons og sett þar inn mannýgan bola. Þetta fór fyrir dómstóla og vakti athygli að Aron tók sjálfur að sér málsvörn og vann. En samt féll þessi meiðyrðadómur og ég var dæmdur í málamyndasekt, sem skipti engu, en fyndnast var að ég þurfti að taka allt til baka sem sagt hafði verið; staðreyndir sem staðfestar höfðu verið í réttarhöldum.

Frumherjafuni

Á árunum eftir 1960 var einhverskonar funi í loftinu á ritstjórn Vikunnar, frumherjafuni. Við vitum að funi kveikist af funa og margoft kveikti Ólafur Gaukur í okkur með snjöllum hugmyndum. Ég sá eftir honum þegar hann fór, en að sjálfsögðu var það rétt skref; framtíðin svo að segja skrifuð í skýin í tónlistarheiminum - og um þessar mundir var hann einmitt að kynnast Svanhildi konu sinni. Ég sá líka eftir Hilmari Kristjánssyni þegar hann fór og eftirlét föður sínum, Axel í Rafha, stjórnina. Hilmar hafði líkt og Ólafur Gaukur þann hæfileika að upptendra menn og það gerði hann sannarlega þegar hann veiddi til sín reynda blaðamenn til þess að takast á við Mynd, nýja dagblaðshugmynd, þar sem fyrirmyndin var þýzka blaðið Bild. Þesskonar blað gat átt framtíð en nægilegan undirbúning skorti, blaðið prentað í gamalli og hálfónýtri prentvél, og síðast gerði verkfall útslagið.

Axel í Rafha var dugnaðarþjarkur; vel greindur maður sem hófst úr fátækt til efna á mælikvarða þess tíma. Hann gat verið erfiður og ósanngjarn yfirmaður, en oft var ég gestur á heimili hans í Hafnarfirði og þar hitti ég allt annan mann, sannan höfðingja. Eftir að Ólafur Gaukur fór varð Sigurður Hreiðar blaðamaður nánasti samstarfsmaður minn og með honum var frábært að vinna. Við byrjuðum þá fyrstir manna með bílaumfjöllun; fórum að reynsluaka bílum og skrifa um þá. Sigurður hefur lengstan feril allra í þeirri grein; vinnur nú við að rita sögu bílsins á Íslandi.

Gott vikublað, fannst okkur þá, þurfti að endurspegla samtíðina; þar á meðal menningarviðburði. Við gerðum leikhúsunum skil og dægurmúsíkinni. Sú breyting hefur orðið í þeirri tónlist á þessum áratugum að eiginlega er hætt að tala um danshljómsveitir eins og áður tíðkaðist; hljómsveitir flytja eigin efni og yfirleitt er markmiðið að gefa út disk. Í þessum geira hefur orðið útrás og mikill sköpunarkraftur sem vakið hefur athygli út fyrir landsteinana.

Á sjöunda áratugnum var þessi flóra miklu minni en við áttum samt góðar danshljómsveitir, stundum stórar, og menn tóku hlutverk sitt alvarlega. Kristján Kristjánsson var kóngurinn, "king of swing" með sinn KK-sextett, en Svavar Gests gat skartað Ellý Vilhjálms sem ef til vill er okkar bezta söngkona á dægurlagasviði fyrr og síðar. Ragnar Bjarnason var vinsæll þá eins og nú og Haukur Morthens var uppá sitt bezta. Lídó við Skaftahlíð, þar sem aðalbækistöðvar DV eru nú, var þá einn vinsælasti dansstaðurinn.

Teikningar Halldórs Péturssonar og Baltasars

Blýöldin var við lýði; prentunin stundum slæm og við horfðum öfundaraugum á dönsku blöðin sem prentuð voru með offsettækni. Sú tækni var ekki einu sinni út við sjóndeildarhring. En annað mikilvægt höfðum við í staðinn. Framan af voru það afburða góðar teikningar Halldórs Péturssonar; ekki sízt forsíðumyndir sem oft voru spéspegill einhverra þekktra fyrirbæra í þjóðfélaginu. Fyrir réttum 40 árum kom Baltasar til liðs við Vikuna, magnaðasti alhliða teiknari sem völ var á og hann fylgdi mér raunar yfir á Lesbók þegar þar að kom. Í rauninni skiptir minna máli hvort blað er prentað með blýaldartækni eða nútíma offsettækni ef það hefur aðgang að öðrum eins teiknurum og þeim Baltasar og Halldóri Péturssyni.

En ýmislegt annað var fáránlega tímafrekt og snúið í framkvæmd á móti því sem nú er; þar á meðal gerð fyrirsagna. Þær teiknaði ég árum saman vegna þess að fyrirsagnaletrin á Vikunni voru bæði slitin og ljót. Til dæmis um þá vinnu sem stundum var lögð í fyrirsagnir má geta þess að í Jólablaði 1964 birtist allstór grein um þann atburð þegar hópur manna austan úr sveitum varð úti á Mosfellsheiði. Þetta var upp úr miðri 19. öld og þeir voru á leið í verið. Til þess að gera fyrirsögnina dramatíska voru sagaðir út hnéháir stafir úr einangrunarplasti, ekið með þá í skammdeginu austur á Mosfellsheiði þar sem fyrirsögninni var raðað upp á hjarnið og hún ljósmynduð.

Frá upphafi gerði ég útlitsteikningu af Vikunni og eftir henni var unnið í stað þess að raða blýlínudálkunum einhvernveginn saman og freista þess að láta allt ganga upp. Vikan var það stórt blað að ritstjórinn hafði tæpast tíma fyrir þá vinnu til langframa. Þá var Runólfur Elentínusson ráðinn sem útlitsteiknari og var í því mikill styrkur fólginn. Síðar tók við því starfi Snorri Sveinn Friðriksson, fágaður smekkmaður, myndlistarlærður, sem veitti seinna forstöðu leikmyndadeild Sjónvarpsins þar til hann lézt fyrir aldur fram. Miðað við þá möguleika sem við höfðum á blýöldinni er "lúkkið", eins og nú tíðkast að segja, merkilega gott.

Skarkað í tuttugu manna hópnum

Samfélagið þá var ennþá minna en nú og við töluðum oft um tuttugu manna hópinn, sem blöðin væru sífellt að tala við og tala um. Okkur fannst stundum að við værum að bera í bakkafullan lækinn með enn einu viðtali við einhvern af okkar ástsælu og góðu leikurum og skemmtikröftum. Þetta snerist og snýst enn um að finna viðmælendur sem kunna þá list að vera skemmtilegir og þekktir; það gátu verið tónlistarmenn, leikarar, stjórnmálamenn, íþróttamenn og skáld.

Í þessu sambandi má ég til með að víkja ögn að nútíma fjölmiðlun. Leikarahópurinn hefur stækkað margfaldlega síðan 1960, tónlistarfólki hefur fjölgað enn meir og sjö árum síðar kom alveg ný tegund af þekktum persónum til sögu: Sjónvarpsfólk. Síðast en ekki sízt er íslenzk kvikmyndagerð orðin fullburðug listgrein. En hvað gerist í glanstímaritum, útvarpi, svo og í þáttum sjónvarpsstöðvanna á vorum dögum? Það er sama hvort það er Sjálfstætt fólk Jóns Ársæls eða Laugardagskvöld með Gísla Marteini, Mannlíf eða Nýtt Líf eða Vikan; þar er alltaf sama fólkið og talar hvað við annað. Tuttugu manna hópurinn sem var í sviðsljósinu um og eftir 1960 hefur ekki stækkað. Ennþá er smæðin og nálægðin og kunningskapurinn megineinkenni. Hrein auglýsingamennska virðist alltof oft ráða efnisvali.

Að einu leyti hefur fátæktin í efnisvali jafnvel farið vaxandi; Jón Ársæll gæti hæglega verið gestur hjá Gísla Marteini, sem væri ákaflega líklegur gestur í Sjálfstæðu fólki hjá Jóni Ársæli og hjá báðum má búast við að sjá Ladda, Hilmi Snæ, KK, Diddú, Selmu, Birgittu Haukdal, Guðna Ágústsson og Bubba, sem ég gæti trúað að ætti Íslandsmetið frá því á síðasta ári. Þetta er allt ágætis fólk, oft skemmtilegt, en hvert orð er fyrirsjáanlegt og allt er þetta mjög þreytulegt og ófrumlegt. Sem betur fer er þetta ekki alltaf og allsstaðar svona slæmt.

Blaðamannafundir og brennivín

Daglegur veruleiki blaðamanna á blýöldinni, einkum þó fréttamanna, var að mæta á blaðamannafundi sem fyrirtæki og einstaklingar héldu þá eins og nú. Munurinn var sá, að í þá daga þótti sjálfsagt að hafa vínveitingar á þessum fundum og hefur líklega verið búizt við því að ella nenntu menn ekki að koma. Þessi tízka var vitaskuld fráleit og kom sér bæði illa fyrir blöðin og einstaklinga í blaðamannastétt sem áttu oftar samleið með Bakkusi en góðu hófi gegndi. Þarna var vandamál sem nú er úr sögunni; svo að segja á hverju blaði voru í þá daga menn sem ekki gátu þefað af víni án þess að úr yrði fyllirí.

Á þessum blaðamannafundum fór oft mikið fyrir Agnari Bogasyni, ritstjóra og útgefanda Mánudagsblaðsins. Hann var karakter sem eftir var tekið en löngum stundum sat hann á Borginni með viskíglasið og þverslaufuna og þar náði hann í efni í blaðið. Mánudagsblaðið var sérstakur kapítuli í blaðaflórunni; einhverskonar vísir að "gulri pressu" sem svo er nefnd og hefur lengi tíðkast í útlöndum. Síðar spruttu upp blöð sem fóru í fótspor Mánudagsblaðsins en hvað sem veldur hefur ekkert slíkt blað verið gefið út nú um alllangt skeið.

Áfengisvandamálið keyrði stundum um þverbak í boðsferðum blaðamanna til útlanda. Ófáar voru slíkar ferðir í boði Loftleiða og Flugfélags Íslands; einnig boð frá ferðamálayfirvöldum og jafnvel Nató. Tveggja vikna Natóferð um Bandaríkin 1961 var heldur óskemmtileg að því leyti að farið var beina leið úr einni herstöð í aðra og þær virtust allar eins. Kalda stríðið var þá í algleymingi og við kynntumst hugsunarhætti herstjórnarmanna sem okkur var framandi og fannst hann óhugnanlegur. Við sáum að heimurinn var í rauninni á heljarþröm og það var óhugnanlegt að sjá síma í einhverri mikilvægri herstöð sem forsetinn mundi nota ef til þess kæmi að fyrirskipa kjarnorkustríð. Eina skemmtunin í viðræðum við herforingja var þegar Thorolf Smith útvarpsmaður, sérfróður um ævisögu Abrahams Lincoln, leiddi talið að þessum dáða Bandaríkjaforseta og þvældi þeim út í eitthvað þar sem þeir stóðu á gati.

Blaðamannafundur með Kennedy

Það var þó vissulega fræðandi og eftirminnilegt að dvelja í sólarhring um borð í flugvélamóðurskipi og fylgjast með æfingu; fljúga út í skipið á smárellu sem krækti í vír á flugdekkinu og snarstoppaði. Djúpsprengjum var dúndrað í hafið til að sprengja upp ímyndaða kafbáta og herskipið titraði.

Þannig gátu jafnvel Natóferðir bætt við í sjóð lífsreynslunnar. Uppúr stendur þó dagstund í þessari ferð 1961 þegar okkur gafst tækifæri til að vera viðstaddir blaðamannafund hjá Kennedy forseta í Washington. Segja mátti að við hittum á óskastund; allt var á suðupunkti. Nóttina áður hafði misheppnast innrás á Kúbu, Svínaflóainnrásin svonefnda. Bandaríski herinn hafði staðið á bak við aðgerð sem var illa undirbúin og dæmd til að mistakast og þarna var fyrsta stóra áfallið í forsetatíð Kennedys. Innlenda pressan var mætt á hinn vikulega blaðamannafund; nú skyldi forsetinn tekinn í karphúsið. Við fengum að vera viðstaddir en myndavélar voru teknar af okkur og vandlega var leitað að vopnum. Við höfðum ekki leyfi til að gera fyrirspurnir.

Kennedy forseti var greinilega undir miklu álagi; hann var eins og klappaður í stein, svör hans stutt og kuldaleg. Þekktir blaðamenn biðu í viðbragðsstöðu og forsetinn benti alltaf á einhvern tiltekinn og nefndi nafn hans. Stemmningin var rafmögnuð. Efnislega man ég ekki hvað spurt var um og ekki heldur svör forsetans. En honum var stórlega brugðið. Hvorki á blýöldinni né síðar hefur mér fundizt eins og þá að ég væri að upplifa söguna gerast.

Listræn bylting um 1960

Hefur tíðarandinn breytzt á Íslandi á þessum fjórum áratugum? Áreiðanlega. En það er ekki alltaf auðvelt að höndla tíðarandann eða breytingar á honum. Hitt er víst, þó að maður taki ekki alltaf eftir því, að hver áratugur hefur sinn tíðaranda. Auðveldara er að sjá breytingu á tízkunni; hún hefur breytzt mikið frá um 1960 þegar konur settu hárið upp í "heysátu" við flest hátíðleg tækifæri og kjólarnir voru í anda naumhyggjunnar. Vikan átti á þessum árum aðild að fegurðarsamkeppninni, sem ekki var þá lengur haldin á palli úti í mýri hjá Vetrargarðinum - og sá vinsæli skemmtistaður er einnig horfinn fyrir löngu. Við birtum þá myndir af þátttakendum, en Vikan var svo blönk að blaðið hafði ekki efni á að láta taka myndirnar á stofu hjá ljósmyndara. Blaðið átti Rolleiflex-myndavél og í sparnaðarskyni tók ég sjálfur myndirnar. Til dæmis man ég þegar við stilltum Maríu Guðmundsdóttur upp við steinvegg og ég tók þar af henni fyrstu myndirnar á löngum og farsælum ferli hennar. Síðar kom Kristján Magnússon ljósmyndari til liðs við blaðið, en svona var þetta á blýöldinni; ritstjórinn varð að geta gengið í hvað sem var.

Almennt hefur lífið ekki breytzt eins mikið og margir hinir yngri halda og telja að um 1960 hljótum við að hafa verið á skelfilegu steinaldarstigi, rétt stigin út úr torfkofunum og ekki einu sinni búið að finna upp gemsann. En það var fjarri lagi. Heimili ungs fólks voru þá búin íslenzkum húsgögnum, sem voru oft með mun listrænni áherzlu á formið en það sem nú er á boðstólum. Íslenzk húsgagnagerð, sem nú er tæpast til, hafði þá átt skammvinnan blómatíma og var undir áhrifum frá dönskum hönnuðum sem voru þá þeir frægustu í heiminum. Ungt fólk vildi ekki þunglamalegar mublur úr búi foreldranna; vönduðum hlutum var því miður fargað vegna þess að þeir þóttu gamaldags. Abstraktmálverkið á sama tíma hafði haft víðtæk áhrif; formið skipti öllu máli og léttleikinn var í fyrirrúmi. Snjallir íslenzkir húsgagnahönnuðir héldu sýningar sem við kynntum; menn eins og Sveinn Kjarval, Gunnar S. Guðmundsson og Gunnar Magnússon. Þá var það metnaður fólks í byrjun búskapar að eignast málverk; ung heimili voru ekki síður menningarleg en nú þó að minna væri um "græjur". Önnur eins bylting í húsbúnaði hefur ekki átt sér stað síðan.

Á þessum tíma var ég kominn með fjölskyldu í fjögurra herbergja íbúð við Kleppsveg sem við keyptum fokhelda. Glugga að innanverðu, baðherbergið og allt eldhúsið varð að mála og slípa og lakkmála þar til maður gat speglað sig í herlegheitunum. Þetta var slæm hefð og óheyrileg vinna sem tók langan tíma; eins og flestir aðrir gerði ég það sjálfur. Þá tíðkuðust gólfteppi sem náðu út í hvert horn og innlendar gólfteppagerðir eins og Axminster blómstruðu. Allar urðu þær síðar að leggja upp laupana. Við höfðum sjálfvirka þvottavél og þurrkara í eldhúsinu; baðið var með svörtum flísum. Ég sé bara ekki að nýjar blokkaríbúðir séu betur útfærðar núna nema síður sé.

Draumur, sem flestir gátu ekki látið rætast fyrr en síðar, var að eignast lítinn bíl, helzt Volkswagen. Þá var ekki um það að ræða að bílaumboð lánaði í bíl. Menn urðu að fara í banka og slá víxla. Ekki rættist þessi draumur hjá okkur fyrr en eftir mörg ár; ég fór í nokkur ár allra minna ferða á hjóli.

Hekla var þá eins og nú með umboð fyrir Volkswagen og seldi þetta vinsæla farartæki eins og heitar lummur. Sagt var í góðlátlegu gríni að Sigfús forstjóri í Heklu færi í sunnudagabíltúra uppfyrir bæinn til þess eins að telja hversu mörgum Volkswagenbílum hann mætti. Toyota var þá ekki orðið að stórveldi, en Gunnar Ásgeirsson gerði það gott með Volvoumboðið og framsóknarmenn fóru í Sambandið og splæstu í Chevrolet eða Buick. Willysjeppinn var búinn að vera þarfur þjónn frá því stríðinu lauk, en fjölskrúðugri jeppaöld var að renna upp með því að Bifreiðar og landbúnaðarvélar fluttu inn Rússajeppa.

Hvað er menningarbragur?

Mundum við sjá mun á útliti og klæðnaði fólks ef við gætum gægst fjörutíu ár aftur í tímann og tekið okkur stöðu einhvers staðar á Laugaveginum? Við sæjum undir eins muninn á hárgreiðslu kvenna, en mig grunar að munurinn á almennum klæðnaði þætti ekki stórvægilegur; þó voru enn allmargir í grænu Gefjunarúlpunum sem urðu einskonar þjóðbúningur á tímabili. Bítlatízkan var ekki alveg búin að slá í gegn; áhrifin frá ´68-kynslóðinni ókomin og tími blárra gallabuxna ekki runninn upp nema hjá mönnum í erfiðisvinnu. Síðar vildu sumir sýna samstöðu með þeim og gallabuxur urðu bæði pólitísk yfirlýsing og slík yfirgnæfandi tízka, að áratug síðar voru þær orðnar allsráðandi. Að ganga ekki í öðru var líka partur af því að "snobba niðurávið" sem þótti nokkuð gott.

Blýaldarfólkið hafði farið í sparifötin þegar við átti og það var alltaf hátíðleg stemmning á leiksýningum í Þjóðleikhúsinu; allir í sínu fínasta pússi. Forsalur Borgarleikhússins var á hinn bóginn innréttaður eins og vöruskemma í samræmi við tíðarandann um og eftir 1970 og þá þótti sumum jafnvel hallærislegt að mæta á leiksýningu í öðru en hvunndagsgallanum. Þótti sumum lítill menningarbragur orðinn, en spyrja má: Hvað er menningarbragur? Vitaskuld var þetta aðeins nýr bragur á menningunni, en sumpart hefur sá bragur gengið til baka.

Fyrir fjörutíu árum var Pressuball Blaðamannafélagsins viðburður í samkvæmislífinu og hver einasti samkomugestur mætti samkvæmisklæddur. Á ljósmynd sem birtist í Vikunni sést Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gantast við borðfélaga sína og það er sannarlega stíll yfir fólkinu. Pressuballið lognaðist síðan útaf, líklega vegna þess að gala-samkvæmi urðu afar langt frá ríkjandi tízku.

Lífskjör landsmanna voru þá ekki í fremstu röð í heiminum eins og nú er orðið og þá var enn nokkur ljómi yfir því að vera sigldur. Það breyttist snarlega. Eftir 1960 varð gríðarleg aukning á ferðalögum landsmanna til útlanda og tveir brautryðjendur í ferðabransanum keppu um sálirnar: Ingólfur Guðbrandsson í Útsýn og Guðni Þórðarson í Sunnu. Gömlu skrúfuvélarnar voru öruggar en nokkuð hæggengar; í fyrstu ferð minni til Parísar um þetta leyti tók flugið sjö tíma.

Framan af vildi fólk sjá sig um og þriggja vikna rútubílaferðir voru vinsælar, en á þessum áratug verður sú breyting að dvöl á sólbaðsstað verður ofaná. Alltaf var þungt á metum að geta verzlað, enda geipilegur munur á vöruúrvali og verðlagi í byrjun sjöunda áratugarins hjá okkur og úti í Evrópu. Í öllum utanlandsferðum með flugi var heilmikil upplifun að koma í gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Þar var í fyrsta lagi fríhöfnin og síðan var hægt að verðlauna sig fyrir góð innkaup á barnum. Þar reyndu margir að skola niður fullmörgum bjórum og voru óstyrkir á fótunum á leið út í vélina. Mér finnst eftir á að þetta hafi verið mjög frumstætt; einhverskonar "barbarismi". En það fylgdi því gífurleg eftirvænting og ég sakna alltaf þessarar stemmningar. Hún er ekki til í hinni nýju Leifsstöð.

Niðurlag í næsta blaði.

EFTIR GÍSLA SIGURÐSSON

Höfundur er blaðamaður.