18. september 2003 | Innlendar fréttir | 152 orð | 1 mynd

Fimmtugur broddhlynur er tré ársins

Tré ársins er broddhlynur sem stendur við Bröttuhlíð 4 í Hveragerði.
Tré ársins er broddhlynur sem stendur við Bröttuhlíð 4 í Hveragerði.
BRODDHLYNUR, sem stendur í garðinum í Bröttuhlíð 4 í Hveragerði, hefur verið valinn tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands. Tréð er í eigu Unnar og Ólafs Steinssonar garðyrkjumanns og er 7,56 metra hátt.
BRODDHLYNUR, sem stendur í garðinum í Bröttuhlíð 4 í Hveragerði, hefur verið valinn tré ársins af Skógræktarfélagi Íslands. Tréð er í eigu Unnar og Ólafs Steinssonar garðyrkjumanns og er 7,56 metra hátt. Þvermál stofns er 35 sm og frá stofni að ystu grein eru um 7 metrar en tréð er tæplega fimmtíu ára gamalt.

Magnús Jóhannesson, formaður Skógræktarfélags Íslands, afhenti Ólafi viðurkenningarskjal við athöfn og hafði á orði að ekki hefði leikið nokkur vafi á hvaða tré yrði fyrir valinu. Tréð bæri nafn með rentu og bæri ræktunarfólkinu gott vitni. Við athöfnina fluttu blásarar úr FÍH lög undir laufskrúði trésins.

Þetta er í sjötta sinn sem tré ársins er valið, en fyrsta tréð var útnefnt árið 1997.

Ólafur Steinsson, eigandi trésins, hefur búið ásamt fjölskyldu sinni í Bröttuhlíð 4 síðan 1945. Hann var í öðrum útskriftarárgangi frá Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi og rak í fjölmörg ár garðyrkjustöð sína við Bröttuhlíð.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.