KAFARAR í sprengjudeild Landhelgisgæslunnar hafa fundið tvær djúpsjávarsprengjur út af Hliðsnesi á Álftanesi. Verða þær gerðar óvirkar í dag og samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni má búast við að hávær hvellur heyrist í grennd.

KAFARAR í sprengjudeild Landhelgisgæslunnar hafa fundið tvær djúpsjávarsprengjur út af Hliðsnesi á Álftanesi. Verða þær gerðar óvirkar í dag og samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni má búast við að hávær hvellur heyrist í grennd. Almenningi er sögð engin hætta búin en lögreglumenn gengu í hús næst staðnum og báðu menn að dvelja ekki sjávarmegin í húsunum.

Talið er að sprengjurnar eigi rætur að rekja til sprengjuflugvélar af gerðinni Lockheed Hudson, sem hrapaði í sjóinn á þessu svæði á stríðsárunum með þeim afleiðingum að allir um borð fórust. Voru sprengjurnar notaðar til að ráðast á kafbáta óvinaþjóða. Kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins fundu torkennilegan hlut á svæðinu við æfingar á þriðjudag. Höfðu þeir samband við sprengjudeild Landhelgisgæslunnar í kjölfarið.

Verða færðar frá byggðinni

Í hvorri sprengju eru 215 kíló af efninu torpex en það er mun kraftmeira en TNT og jafnast allt þetta efni á við eitt tonn af dýnamíti, samkvæmt upplýsingum Gæslunnar.

"Vandinn sem sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar standa frammi fyrir er nálægð við íbúabyggð, staðsetning sprengnanna á grunnsævi og hversu viðkvæmur kveikibúnaðurinn er. Ef sprengjurnar væru ekki svo nálægt íbúabyggð væri hægt að eyða þeim þar sem þær eru nú. Hugmyndin er hins vegar að færa þær lengra í burtu frá byggð áður en þær verða sprengdar," sagði Dagmar Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.