[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
A ð tala við Einar Örn er að vissu leyti eins og að stíga inn í texta eftir hann, hugsanir skjótast fram og aftur, setningar taka óvænta stefnu, breyta um átt í miðju kafi, innskot hleypa öllu í bál og brand, fara með okkur út af sporinu, en síðan er...

Að tala við Einar Örn er að vissu leyti eins og að stíga inn í texta eftir hann, hugsanir skjótast fram og aftur, setningar taka óvænta stefnu, breyta um átt í miðju kafi, innskot hleypa öllu í bál og brand, fara með okkur út af sporinu, en síðan er komið inn aftur; löngu síðar klárar hann setningu sem ég held að sé komin í algjörar ógöngur. Eins og í textunum hefur hann frá svo mörgu að segja, allt frá því hann fór fyrst að syngja með Purrki Pillnikk, þó Einar Örn hafi aldrei beinlínis sungið, hefur hann verið að veita okkur innsýn í kollinn á sér, leyft hugsununum að flæða fram, ófeiminn við að láta allt flakka.

Þegar Sykurmolarnir voru hvað frægastir fyrir hálfum öðrum áratug eða svo, kölluðu blaðamenn úti í heimi Einar Örn "Media Terrorist", fjölmiðlaskelfi, enda fengu þeir oftar en ekki að kenna á honum, fengu ekki að komast upp með aulaskap og yfirborðsmennsku, en fyrir þeim sem þekkja hann var sú lýsing alltaf hálf hjákátleg, enda varla til viðfelldnari og þægilegri maður í umgengni en Einar Örn - svo framarlega sem menn eru ekki uppvísir að því að beita órétti eða yfirgangi.

Einar Örn Vesturbæingur Einar Örn Benediktsson er fæddur í Kaupmannahöfn en uppalinn vestur í bæ, sonur hjónanna Benedikts Arnar Árnasonar leikara og Völu Kristjánsson kennara. Hann á einn bróður yngri, Árna, sem hefur fengist við sitthvað í gegnum árin, búfræðimenntaður, starfaði meðal annars sem héraðsráðunautur, en er nú umboðsmaður hljómsveita.

Fullorðnir Reykvíkingar þekkja flestir söguna af því er er Vala var valin til að leika í uppfærslu Þjóðleikhússins á My Fair Lady 1962, sem sló öll aðsóknarmet, en Benedikt var aðstoðarleikstjóri. Einar kallar sig leikarason, en hann nefnir þó að móðir sín hafi ekki verið menntuð leikkona þegar hún var valin í hlutverkið og er kennari í dag. Hún lék reyndar fleiri hlutverk en Elísu í My Fair Lady, í Fiðlaranum á þakinu og Ó, hve þetta er indælt stríð eins og Einar rifjar upp.

Eitt sinn þegar Sykurmolarnir voru að byrja héldu þeir blaðamannafund á Duus og sendu þá út sérkennilega fréttatilkynningu sem undirrituð var af E. Adler Papafoti þó ekki færi milli mála að Einar Örn væri höfundur textans. Það er og þýskt og grískt blóð í móðurættinni, amma hans, Martha Papafoti, er grísk-þýsk. Hann hefur þó lítið af grískum ættmennum sínum að segja, en Vala móðir hans gróf upp ýmsan fróðleik um grískan ættboga og Einar Örn segir að hann eigi eflaust eftir að kynna sér það líka. "Hún gerði þetta eftir miðjan aldur, svo ætli það fari ekki að koma að því að ég taki við," segir hann, en hann hefur aldrei til Grikklands komið, Sykurmolarnir náðu ekki að spila þar, komust næst því með tónleikum í Júgóslavíu og á Ítalíu.

Einar Örn í hálfri blokk Þeir bræður ólust upp hjá foreldrum sínum til ellefu ára aldurs, bjuggu á Meistaravöllunum í "hálfu blokkinni" eins og Einar Örn og fleiri Vesturbæingar kölluðu hana, en hún er reyndar orðin heil í dag. Þegar Einar var ellefu ára skildu aftur á móti foreldrar hans og Vala fluttist með drengina á Nýlendugötuna. Einar segist ekki hafa upplifað skilnaðinn sem heimsendi "en ég var ekkert rosalega kátur, það man ég. Ég hef ekkert hugleitt þetta svo mikið, víst breyttust aðstæður hjá okkur við það að við fluttum upp á Nýlendugötu þó það hafi ekki verið alveg úr Vesturbænum og ég man eftir því að einu sinni vissi ég ekki alveg hvernig ég átti að fara í skólann, hvort þetta væru endalok. Ég vissi í sjálfu sér ekki hvers vegna þessar breytingar áttu sér stað.

Pabbi fluttist svo til Englands og var þar mikið næstu ár og það var ekki óhagstætt að eiga pabba í útlöndum þegar ég var orðinn táningur því þá fórum við bræðurnir í heimsóknir út og áttum eftir að koma þangað mjög oft."

Einar Örn og Árni Þeir Einar Örn og Árni voru afskaplega samrýndir og Einar Örn segir að hann hafi þroskað með sér mikla ábyrgðartilfinningu fyrir litla bróður sínum og lífinu almennt, ofþroskaða reyndar sem hafi skilað sér í því að hann hafi líklega oft verið heldur stjórnsamur, en þessi ábyrgðartilfinning er síst minni í dag, "mitt helsta vandamál", segir hann og kímir.

Þeir Einar Örn og Árni fóru allt saman og gerðu allt saman. Þegar Einar Örn gekk í skátana varð Árni að fara með þó hann ætti í raun að fara í ylflingana, of ungur til að verða skáti, en það varð ekki hjá því komist að vígja hann sem skáta líka með sérstakri undanþágu, aðeins níu ára gamlan, en Einar Örn var þá ellefu ára. Ekki dró að nokkru marki úr samveru þeirra bræðra fyrr en Einar fór í Hagaskóla en Árni varð eftir í Melaskóla og þeir eignuðust hvor sína eigin vini í skólanum. Í gegnum árin hafa þeir þó áfram unnið mikið saman.

Einar Örn staðgengill Þó báðir hafi þeir bræðurnir lagt tónlist fyrir sig að einhverju leyti, Einar Örn sem starfandi tónlistarmaður í áraraðir og Árni sem umboðsmaður tónlistarmanna og hljómsveita, segir Einar að hann hafi ekkert fengið neitt sérstakt tónlistaruppeldi. Móðir hans hafði eðlilega áhuga á tónlist þar sem hún söng í leikhúsi, og afi hans var Einar Kristjánsson, einn fremsti óperusöngvari Íslendinga. Þannig segir Einar Örn að þegar hann heyri óperur í dag kannist hann við æði margt, hafi þá líklega heyrt það sem barn þó hann þekki það ekki að öðru leyti.

Þó það hafi ekki verið tónlistaruppeldi var þess meira um leiklist og Einar Örn var oft að þvælast í leikhúsinu með pabba sínum, á æfingum eða sýningum, baksviðs að þvælast, fara með vini í leikhúsið á æfingar eða til að sjá barnaleikrit. Hann segist ekki muna hve oft hann sá Dýrin í Hálsaskógi og Kardimommubæinn, en Árni bróðir hans lék einmitt íkorna í Dýrunum í Hálsaskógi. "Ég var staðgengill hans og vaknaði á hverjum einasta sunnudegi heilan vetur með hjartað í buxunum og spurði hann hvort hann væri nokkuð veikur; það hefði ekki verið gott fyrir mig sem nemanda í Hagaskóla að vera að leika íkorna í Dýrunum í Hálsaskógi."

Þó leikhúsið hafi skipað svo stóran sess í lífi Einars þessi fyrstu ár segist hann aldrei hafa haft neinn sérstakan áhuga á að leika. "Árni tók það, hann lék í Dýrunum og var í útvarpsleikritum. Ég hafði ekki það sjálfstraust eða áhuga til að standa á leiksviði, en mér fannst gaman að fylgjast með, ekki síst í leikmyndagerðinni hjá Lárusi Ingólfssyni, þar var ótrúleg veröld."

Einar segir að listalífið sem fjölskyldan hrærðist í hafi óneitanlega verið svolítið bóhemlíf eftir á að hyggja, foreldrar hans hafi haldið miklar veislur og ævinlega hafi verið mikið á seyði. "Meðal bernskuminninga minna er til dæmis þegar menn voru að taka upp myndina Rauðu skikkjuna suður í Krýsuvík. Ég man vel eftir mönnum að berjast með sverðum og þar sem þeir flutu dauðir í sjónum og svo hópuðust allir saman í stórt tjald og átu humar."

Einar Örn skáti Einar Örn segist halda að hann hafi almennt verið stilltur sem barn, rólyndur skáti, en hann átti síðar eftir að breytast í pönkara, var með þeim fyrstu sem gengu pönkinu á hönd hér á landi. Fyrstu kynni hans af pönki segir hann hafi verið af afspurn; einn æskuvinur sagði honum frá uppátækjum manna úti í heimi sem menn kölluðu ræfla og tónlistina ræflarokk, síhrækjandi ofstopamenn með grænar tennur. "Mér fannst það makalaust að það væri til svoleiðis fólk sem væri að skyrpa og hrækja á almannafæri. Þetta var líklega 1976 þegar Sex Pistols fóru í einhverja flugferð og höguðu sér eins og skepnur. Þetta kveikti hjá mér forvitni og mig langaði að sjá hvernig þetta lið væri og síðar átti ég eftir að eyða heilu sumri úti í London að leita uppi pönkara."

Í Hagaskóla átti Einar Örn eftir að eignast sína bestu vini, Braga Ólafsson og Friðrik Erlingsson, sem síðar stofnuðu með honum hljómsveitir. Einar Örn segir svo frá að Friðriki hafi hann tekið eftir á fyrsta skóladegi sínum í Hagaskóla: "Fyrsta skóladaginn áttum við að lesa upphátt til að kennarinn gæti áttað sig á hvernig við stæðum í lestrinum. Þá les strákur upp fyrir aftan eða framan mig mjög röggsamlega svo ég tók eftir því. Þegar við svo fórum að tala saman eftir tímann kemst ég að því að þetta var líka leikarasonur, Friðrik, sonur Erlings Gíslasonar, nágranni minn af Öldugötu sem ég hafði þó aldrei hitt áður."

Friðrik kunni að spila á gítar, enda var mamma hans Katrín Guðjónsdóttir gítarkennari, og hann gat líka teiknað, var snjall teiknari að því Einar Örn segir. "Fram að því hafði ég horft á listamenn úr fjarlægð, á leiksviðinu, en hér var kominn vinur minn sem kunni bæði að spila á gítar og gat teiknað," segir Einar Örn.

Einar Örn í progginu Þó fram að því hafi hann ekki haft neinn sérstakan áhuga á tónlist fékk Einar Örn græjur í fermingargjöf, en þegar hann ætlaði að fara að kaupa plötur lenti hann í vandræðum, vissi ekkert hvað hann ætti að hlusta á. Hann fór því að leita að einhverju sem honum þætti skemmtilegt, leitaði meðal annars í smiðju til tónlistarpælarans Braga, og svo fór að hann bað um Tarkus með Emerson, Lake & Palmer í jólagjöf. "Ég skildi ekki þessa músík, proggið, og ekki heldur Yes og King Crimson sem allir voru að hlusta á á þessum tíma."

Þeir Bragi og Friðrik héldu áfram sínum tónlistarpælingum og stofnuðu skólahljómsveit í Hagaskóla, en Einar var ekki með í því, ekki enn kominn með tónlistarbakteríuna. Það átti þó eftir að breytast því vorið 1977, þegar Einar Örn var fimmtán ára, kom pabbi hans með smáskífu með hljómsveitinni Buzzcocks með sér heim til Íslands. "Þegar ég hlustaði á Spiral Scratch fann ég loks eitthvað sem ég kunni að meta og þegar ég fór svo út sumarið 1977 leitaði ég uppi pönkara og pönktónlist."

Einar Örn í kulda og trekki Tónlistaráhuginn jókst jafnt og þétt úr þessu og þegar Einar Örn fór í Menntaskólann við Hamrahlíð 1978 var tónlistin orðin hans aðaláhugamál. "Ég fór að lesa mér til um tónlist, keypti [bresku tónlistarvikuritin] Sounds, Melody Maker, ZigZag og New Musical Express, fór í hverri viku að sækja blaðapakkann minn og las allt sem ég komst yfir, viðtöl og plötudóma, tónleikagagnrýni og tónleikadagskrá.

Mikið af tónlistinni hafði ég heyrt þó hún væri ekki fáanleg hér á landi þar sem ég fór reglulega til London og notaði þá tækifærið til að kaupa plötur. Pabbi sendi mér líka plötur eða kom með bunka með sér þegar hann var að koma heim. Ég fór líka að hanga niðri í Karnabæ, hjá Gulla Fúsa, og inni á lager hjá Steinum hf. þar sem ég komst í prufuplötur sem ég fékk að hlusta á og sumt að kaupa. Ég hafði því ágætan aðgang að tónlist og það var alls ekki bara pönk."

Lítið var um nýja tónlist í Gufunni, Ríkisútvarpinu, á þeim tíma, en Einar Örn átti ráð við því, fékk lánaðan Sunbeam-bíl móður sinnar á kvöldin og ók upp í Hlíðar þar sem hann náði BBC World Service og gat hlustað á John Peel. "Þar sat ég í bílnum á kvöldin, oft í skítakulda, hlustaði á John Peel og heyrði þar í Fall, AuPairs og fleiri breskum hljómsveitum sem voru að gera spennandi hluti."

Einar Örn pönkari Pönkið var ekki bara tónlist, það var líka fatatíska og Einar Örn segir fötin líka hafa skipt máli. Það seldu engar búðir pönkaraföt, menn þurftu að bjarga sér sjálfir og Einar Örn fór til að mynda í Andersen og Lauth á Vesturgötunni, Andlát eins og hann kallar það, keypti þar buxur og skyrtur sem voru svo komnar úr tísku að þær voru pönkaðar í sniðinu. Síðan gekk hann í gatslitinni grænni peysu af föður sínum, "leikstjórapeysu" segir hann, raðaði öryggisnælum í jakkann og bjó sér til grifflur; klæddi sig upp í pönkgallann, en þess má geta til gamans að í rokksögunni hans Gunnars Lárusar Hjálmarssonar sem kom út fyrir tveimur árum segir hann að Einar Örn hafi verið fyrsti "alvöru" pönkarinn í Reykjavík.

"Þetta gaf mér meðvitund um mig og umhverfi mitt, þessi DIY-stefna, gerðu það sjálfur. Maður varð að búa hlutina til sjálfur og mér fannst það gaman að þegar ég hitti þessar gömlu stjörnur sem ég hélt svo mikið upp á löngu síðar, fólk eins og Siouxsie and the Banshees, komst ég að því að ég hafði rétt fyrir mér, þau urðu líka að gera hlutina sjálf, vildu gera hlutina sjálf."

Einar Örn MH-ingur Þegar vinirnir úr Hagaskólanum fóru í menntaskóla var Einar Örn sá eini sem fór í MH, flestir fóru í Menntaskólann í Reykjavík, en þeir Friðrik og Bragi í Verzlunarskólann. Friðrik hætti þar reyndar snemma og fór í Myndlista- og handíðaskólann, en Bragi kom í MH þegar hann var kominn með verslunarpróf. Þeir voru þá báðir í hljómsveitinni Bakkusi í Hagaskóla með fleiri félögum sínum og Einars Arnar en hann hafði aldrei áhuga á að vera í hljómsveit þrátt fyrir mikinn áhuga á tónlist. "Ég lét mér nægja að hlusta og spilaði stundum plötur á nýbylgjukvöldum, ég kunni ekki á neitt hljóðfæri og ekki var ég nú neitt viss um að ég gæti sungið. Eiginlega handviss að frá mér kæmi allt annað en söngur. Því var bara betra að fylgjast með" segir hann og bætir við að eina eiginlega tónlistaruppeldið sem hann bjó að hafi verið tónlistartímarnir hjá Magnúsi Péturssyni í Melaskóla. Hann var þó ekki alveg laus við áhuga á að spila pönk því síðar í spjalli okkar rifjast upp fyrir honum að hann hafi tekið inntökupróf í Fræbbblana sem bassaleikari en fallið á því prófi, sem segir kannski sitt um kunnáttuna. "Mér finnst það eiginlega niðrandi fyrir tónlistarmenn að kalla mig tónlistarmann, sumir tónlistarmenn gætu orðið reiðir yfir því að vera settir á sama bekk og ég," segir hann og kímir.

Fyrir áhuga sinn á pönki og tónlist almennt þekkti Einar Örn vel til þess sem var að gerast í íslenskri tónlist á þeim tíma, pönkbyltingunni sem var að hefjast. Hann hafði til að mynda hjálpað Fræbbblunum við að koma út plötunni sinni False Death í gegnum kunningja í Sheffield í upphafi árs 1980 og kom síðan að því að fá Clash hingað til lands það sumar.

Einar Örn umboðsmaður Haustið 1980, þegar Einar Örn var sautján ára, hringdi Danny Pollock, einn Utangarðsmanna, og spurði hann hvort hann væri ekki til í að vera umboðsmaður hljómsveitarinnar sem var þá að hefja sinn frægðarferil. Þó Einar Örn hafi í sjálfu sér ekki átt mikið sameiginlegt með þeim Utangarðsmönnum, þeir nokkru eldri en hann og að leika öðruvísi tónlist en hann hélt upp á, ekki eiginlegt pönk, kunni hann samt vel að meta þá eftir að hafa séð þá spila í Tjarnarbíói snemma árs 1980 og heyrði þar gítarhljóm sem hann kunni vel að meta. "Þessi útlenski gítarhljómur Pollock-bræðra, þessi stilling á gíturum, opni e eða opni g," segir Einar og talar eins og tónlistarmaður. "Þetta hafði ég aldrei heyrt á Íslandi, þarna var eitthvað sem ég fílaði, hart, gott rokk." Þetta var í maí eða júní, árið sem Ísbjarnarblúsinn og fyrsta Utangarðsmannaplatan komu út.

Einar segir að þetta hafi verið mikil en skemmtileg vinna. Hann var í skólanum og notaði tíkallasímann niðri í matsal til að hringja út um allt að bóka hljómsveitina og skipulagði svo tónleikaferðirnar heima eftir skóla. "Utangarðsmenn voru tónleikasveit sem spilaði yfirleitt ekki á böllum en ef þeir tóku böll þá spiluðu þeir tónleikaprógrammið tvisvar eða þrisvar sinnum, þannig að þetta var líka rosalegt púl fyrir þá. Þeir voru rosalega fínir og það var ekki fyrr en undir það síðasta hér heima sem mér fannst þeir missa sjónar á sjálfum sér, fóru að haga sér eins og kjánar. Svo fórum við til Ósló og þar var legið í reykskýi en þá var mín saga með Utangarðsmönnum eiginlega búin."

Þó Einar Örn hafi verið að vinna með Utangarðsmönnum, eða réttara sagt fyrir þá, eins og hann leggur áherslu á, hafði hann ekki eytt tíma með þeim félögum utan vinnunnar, hann átti sína vini áfram. "Utangarðsmenn voru líka allir eldri en ég, ég komst þannig ekki inn á fyrsta giggið sem ég bókaði fyrir þá á Hótel Borg, var of ungur, og því var ákveðin fjarlægð á milli okkar sem hentaði mjög vel að vissu leyti."

Einar Örn Purrkur Meðal vina Einars Arnar á þessum tíma voru enn þeir Friðrik og Bragi en einnig Ásgeir Bragason og snemma árs 1981, áttunda mars nánar tiltekið, stofnuðu þeir hljómsveit saman, fengu lánaðar græjur hjá Utangarðsmönnum, sömdu níu lög á fyrstu æfingunni og spiluðu þau næsta kvöld. Einar Örn segir að hann hafi aldrei ætlað sér að verða söngvari í hljómsveit. "Þeir réttu mér bara míkrófóninn og sögðu nú átt þú. Upphaflega ætluðum við að vera með skemmtiatriði, uppákomu, og ég átti að spila á hávaðapedala, sem ég fékk lánaðan hjá Danny Pollock, þetta átti aldrei að vera nein popptónlist." Ásgeir var þekktur sem bassaleikari en hafði aldrei snert á trommukjuðum opinberlega, en þeir Friðrik og Bragi voru á réttum hljóðfærum. "Hjá þeim Frikka, Braga og Ásgeiri var aldrei spurning um hvort þetta væri í lagi hjá mér, þeir sögðu alltaf haltu áfram, haltu áfram, svo ég hélt bara áfram."

Þremur vikum eftir fyrstu tónleikana, 1. apríl, fóru Purrkar í hljóðver með Danny Pollock og tóku upp tónleikaprógrammið, tíu lög á níu tímum, sem gefin voru út á 7" tilf einum mánuði og fjórum dögum síðar. Þannig var saga Purrksins í hnotskurn, allt unnið hratt og örugglega sem skýrir að nokkru hve mikið liggur eftir hljómsveitina; þó hún hafi aðeins starfað í hálft annað ár sendi hún frá sér tvær smáskífur, eina stóra plötu, eina tvöfalda plötu og tónleikaplötu, tilf og No Time to Think, Ekki enn, Googooplex og Maskínuna.

Einar Örn útgefandi Þegar Einar Örn var að pæla sem mest í pönkinu, um það leyti sem það var að berast hingað til lands, kynntist hann þeim Guðna Rúnari Agnarssyni og Ásmundi Jónssyni sem unnu í plötubúðinni Fálkanum á Laugavegi. Þar fékk hann að hlusta á plötur sem þeim bárust, fékk þær jafnvel lánaðar heim, og hann leyfði þeim að heyra það sem hann var að fá að utan eða kaupa í Bretlandsferðum sínum. Ásmundur og Guðni voru þá með útvarpsþáttinn Áfanga þar sem þeir kynntu nýja tónlist. Plöturnar hans Einars Arnar áttu eftir að vera áberandi í Áföngum og Ásmundur lét þau orð falla eitt sinn að pönkstraumarnir sem Einar Örn bar með sér hafi gerbreytt þættinum sem hafði aftur talsverð áhrif á tónlistarsmekk manna á þeim tíma, enda eini staðurinn þar sem hægt var að heyra nýja tónlist reglulega.

Eftir fyrstu tónleika Purrksins langaði þá félaga að gefa tónlistina út, enda í anda pönksins að gera hlutina sjálfir, að bíða ekki eftir því að aðrir gerðu þá fyrir mann, minnumst þess að mottó hljómsveitarinnar var: þetta er ekki spurning um hvað maður getur heldur hvað maður gerir. Það lá beinast við að leita til Ásmundar sem vann hjá hljómplötufyrirtæki og -verslun, en svo fór að Grammið var stofnað af Ásmundi Jónssyni, Dóru Jónsdóttur, Birni Valdimarssyni og Einari Erni til að gefa plötuna út. Grammið varð síðar plötubúð í kjallaranum Hjá Báru þar sem hægt var að fá nýjustu tónlistina frá Bretlandi.

Einar Örn í súpergrúppu Eins og getið er lifði Purkkur Pillnikk í hálft annað ár, síðustu tónleikarnir voru á Melarokki í lok ágúst 1982. Þeir félagar voru í ýmsum hljómsveitum eftir það, öllum skammlífum.

Þegar Áfangar þeirra Ásmundar og Guðna runnu síðan sitt skeið á enda sumarið 1983 ákváðu þeir Ásmundur og Guðni að kveðja með eftirminnilegum hætti, kölluðu saman nokkra af sínum uppáhalds tónlistarmönnum í nokkurs konar "súpergrúppu" sem átti að spila í lokaþættinum. Einar Örn var einn þeirra sem þeir báðu um að koma í þáttinn sem undirstrikar að þó hann hafi aldrei talið sig tónlistarmann litu aðrir þannig á hann. Hann segir reyndar að þegar þar var komið hafi hann verið búinn að finna sjálfan sig tónlistarlega og þekkti takmörk sín. "Ég gat verið hluti af hópnum, hlustað og tekið þátt í vinnunni og komið með jákvætt innlegg," segir hann en hann samdi líka texta sem sögðu frá honum og hans lífi, líkt og hann hafði gert með Purrknum á sínum tíma.

"Súpergrúppa" þeirra Ásmundar og Guðna lukkaðist svo vel að ákveðið var að starfa saman áfram, en í sveitinni, sem hét "Gott kvöld" í þættinum, voru auk Einars Björk Guðmundsdóttir úr Tappa tíkarrassi, Sigtryggur Baldursson og Guðlaugur Kristinn Óttarsson úr Þey, Birgir Mogensen úr Spilafíflunum og Einar Melax úr Fan Houtens Kókó. Þau tóku upp nafnið Kukl og áttu eftir að gera garðinn frægan bæði hér á landi og erlendis á næstu árum.

Samstarfið í Kuklinu var þó ekki samfellt því Einar Örn var kominn til útlanda, var þar að læra fjölmiðlun. Hann tók þátt í starfi Kuklsins eftir því sem færi gafst, kom hingað heim til að leika á tónleikum, sendi segulbandspólur með sínum parti sem var svo spilað á tónleikunum, eða tók þátt í tónleikum í gegnum síma. Hann var líka í tónlist á fullu úti í Bretlandi, hafði kynnst fjölda tónlistarmanna þar úti og var þannig um tíma meðlimur í anarkistahljómsveitinni Flux of Pink Indians, en í þeirri hljómsveit var meðal annarra Derek Birkett sem síðan átti eftir að koma við sögu Sykurmolanna.

Einar Örn Kuklari Það hefur verið sagt um Kuklið að það hafi notið mikillar virðingar en lítilla vinsælda og má til sanns vegar færa, því tónlist hljómsveitarinnar gat verið erfið áheyrnar þó mörgum hafi yfirsést að innan um öskur og átök voru líka skemmtilega köntuð og eftirtektarverð popplög. Kennisetningar pönksins lifðu áfram í Kuklinu að því leyti að menn héldu áfram að gera hlutina sjálfir, bókuðu þannig tónleikaferðir um Evrópu og gáfu út plötur á eigin vegum, en sambönd Einars úti í Bretlandi nýttust líka sveitinni vel, henni var til að mynda boðin útgáfa hjá helstu pönkanarkistunum í Crass.

Kukl lifði í rúm tvö ár, lognaðist útaf veturinn 1985-86, en þá tók nýtt við, Smekkleysa varð til og Sykurmolarnir.

Einar Örn kennari Einar Örn lauk fjölmiðlafræðanáminu vorið 1986 en var ár til viðbótar ytra. Þá um sumarið vann hann meðal annars fyrir Stuðmenn, tók að sér að flytja risastóran plastkolkrabba til landsins fyrir Stuðmannaskemmtun í Laugardalshöll, en hann átti síðar eftir að starfa meira fyrir sveitina og var um tíma framkvæmdastjóri Stuðmanna og Grettisgats, hljóðvers Stuðmanna. Við heimkomu ári síðar fluttist hann til Akraness að kenna fjölmiðlafræði í Fjölbrautaskóla Vesturlands en í bæinn aftur eftir eina önn af kennslu.

Sumarið 1986 hafði Einar Örn haldið sambandi við félaga sína úr Kuklinu og einnig sína gömlu félaga, Friðrik og Braga. Hann kynntist einnig liðsmönnum súrrealistahreyfingarinnar Medúsu, sem var mjög nákomin Kuklinu á sínum tíma, og fleiri komu einnig við sögu sem ekki verða taldir hér. Uppúr þessari deiglu varð til hugmyndin um Smekkleysu, en í stofnskrá hennar, sem hefur yfirskriftina "Heimsyfirráð eða dauði", segir m.a. að fyrirtækið hyggist starfa að útgáfu á ýmsum sviðum, hvort sem þau eru "hljómplötur, ritgerðir, skáldsögur, ljóð, myndverk, klæðnaður, fjölskylduskemmtanir eða byltingar og hvers kyns ræstingarstarfsemi". Eins og sjá má var ekki verið að tala af djúpri alvöru, þó víst hafi mönnum verið alvara með sprellinu, en á stofnfundi Smekkleysu voru auk Einars Arnar, Ásmundur Jónsson, Björk Guðmundsdóttir, Bragi Ólafsson, Friðrik Erlingsson, Jóhamar (Jóhannes Óskarsson), Sigtryggur Baldursson og Þór Eldon, en þau Einar Örn, Björk, Þór, Einar Melax, Sigtryggur og Friðrik áttu síðar eftir að stofna Sykurmolana eins og síðar verður vikið að.

Einar Örn Sykurmoli Til þess að sinna tónlistarskyldum Smekkleysu var stofnuð hljómsveit og nafnið valið eftir því hvernig tónlist átti að spila, sæta tónlist: Sykurmolarnir. Fljótlega varð þó alvaran meiri í Sykurmolunum, tónlistin sem þau bjuggu til var ekki venjuleg skemmtitónlist, en Einar nýtti sér meðal annars sambandið við Derek Birkett til að koma fyrstu upptökum þeirra út á plötu á Englandi. Síðan gerðist allt meira og minna af sjálfu sér, hljómsveitin varð vinsælli en menn höfðu lagt upp með og við tók rokkferðamennska um heiminn sem stóð meira og minna frá því fyrsta smáskífan, Ammæli / Köttur kom út haustið 1986 þar til hljómsveitin kvaddi með upphitun fyrir írsku rokkarana í U2 haustið 1992.

Sykurmolarnir urðu snemma meira mál en stofnendur hljómsveitarinnar bjuggust við en þó gerði hljómsveitin lítið til að geðjast útgefendum eða blaðamönnum. Einar segir að væntanlega hefðu þau náð umtalsvert meiri vinsældum en varð en að viljinn til þess hafi ekki verið til staðar, þau vildu eiga sína tónlist sjálf, ráða því hvernig væri farið með hana. Ekki síst áttu blaðamenn í bresku popppressunni erfitt með að átta sig á sveitinni, fannst hún ekki nógu þakklát fyrir frægðina og skemmst að minnast þess að þeir kölluðu Einar Örn fjölmiðlaskelfi. Hann segir að það hafi ekki verið af neinni meðvitaðri mannvonsku. "Við hefðum eflaust getað náð mun lengra á "frægðarbrautinni" og örugglega haft miklu meiri tekjur, en það var ekki það sem við vorum að leita að, þannig að það er engin eftirsjá að því í dag, ekki hjá mér í það minnsta."

Einar Örn vinnur fyrir sig Síðustu ár hefur Einar Örn dregið úr því að vinna fyrir aðra, enda hefur hann verið að sinna eigin verkefnum, eigin tónlist. Hann tók að sér að gera tónlistina við kvikmyndina 101 Reykjavík með Damon Albarn og í framhaldi af því tók hann að vinna að sólóplötu sem kemur út í vikunni, en það er útgáfa Damons Albarns, Honest Jons, sem gefur plötuna út, en hún kallast Ghostigital.

Þegar kemur að því að gera sólóskífu getur Einar varla haldið því fram lengur að hann sé ekki tónlistarmaður og hann jánkar því með semingi, en segir svo að ef hann geti kallað sig tónlistarmann á Ghostigital-skífunni þá sé það fyrir atbeina Birgis Arnar Thoroddsen, Bibba, sem vinnur plötuna með honum. "Ég ætlaði alltaf að gera þetta með Bibba, að þetta yrði okkar verk, en hann neitaði, sagði mér að ég ætti að gera þetta, hann væri bara mér til aðstoðar. Ég ætlaði ekki einu sinni að syngja á plötunni, en hann sagði mér að ég yrði bara að gera þetta, rétti mér míkrófóninn og sagði syngdu, alveg eins og strákarnir í Purrki Pillnikk í gamla daga. Þá kom þessi ofþroskaða ábyrgðartilfinning aftur til og ég gat ekki sagt nei frekar en þá."

Einar Örn iðar af lífi Tónlistin á plötunni, sem er mjög sérstök, eiginlega ekki hægt að líkja henni við neitt það sem menn hafa áður verið að fást við, eða það má í það minnsta skilja af dómum sem birst hafa um plötuna í breskum blöðum, breyttist mjög mikið meðan á upptökum stóð og er enn að breytast eins og heyra má á tónleikum hljómsveitarinnar. Einar Örn segir að það sé ekki síst vegna þess að þeir hljóðblandi á tónleikum nýja hluti inn og geri þar með nýjar útgáfur af lögunum. "Mér finnst það miklu betra að Birgir sé meira með í þessu ekki síður en ég. Ég held að ég hafi ekki spilað með meira lifandi hljómsveit áður, það er eitthvað í gangi sem gerir að verkum að tónlistin breytist á milli tónleika, þetta er iðandi af lífi hjá okkur. þó að hún sé keyrð út af tölvu að miklu leyti og ætti að flokkast undir tölvutónlist."

Margir eru undrandi á tónlistinni sem þeir félagar eru að skapa, hversu nýstárleg hún er, en þeir eru líka hissa á því að sjá á sviði með Einari son hans, Hrafnkel Flóka, sem leikur á trompet.

Einar Örn á syni þrjá Einar Örn er í sambúð með Sigrúnu Guðmundsdóttur og eiga þau þrjá syni, Hrafnkel Flóka, ellefu ára, Kolbein Hring, fjögurra ára og Arngrím Brodda, tveggja ára. Hrafnkell, eða Kaktus, eins og hann hefur verið kallaður frá því fyrir fæðingu, spilar í einu lagi á plötunni og hefur síðan spilað með Einari Erni á tónleikum. Einar Örn segir að hann fái að spila með alltaf þegar því er við komið, þau Sigrún meti það hverju sinni, þannig að hann er ekki alltaf með. "Það er ekki rétt að leggja það á ellefu ára strák að spila á stórum tónleikum, en hann hefur annars brillerað á þeim tónleikum sem hann hefur spilað, ekki síst eftir því sem hann hefur komist betur inn í það sem við erum að gera og orðið öruggari með sig."

Einar Örn Benediktsson varð fertugur á síðasta ári og býr í raðhúsi uppi í Grafarvogi. Hann er þó síst að hægja á sér, fram undan er mikil vinna við að fylgja plötunni eftir og svo fullt af fleiri hugmyndum sem kalla á framkvæmd. Einar Örn segir að sér finnist sem hann sé næstum því enn átján ára og enn að uppgötva lífið. "Þó ég hafi gert allt það sem ég hef gert þá er þetta enn ekki fullkannað hjá mér. Mér finnst ég ekki eins gamall og ég er í raun og veru, mér finnst enn gaman að vera ungur og gaman að upplifa æskumenninguna, það sem er ferskast á seyði og heldur lífinu gangandi." arnim@mbl.is

..

Eftir Árna Matthíasson Ljósmyndir Golli