27. janúar 2004 | Aðsent efni | 518 orð | 1 mynd

Land án lögeyris?

Þorsteinn Þorgeirsson
Þorsteinn Þorgeirsson
Margar myntir í umferð samfara síbreytilegu gengi leiðir til þess að verðið er á fleygiferð.
HUGMYNDIR hafa verið settar fram um að Ísland taki upp fjölmyntarkerfi. Rétt er að benda á að slík skipan setur hlutverk krónunnar sem lögeyris í uppnám og skapar óhagræði í viðskiptum. Þá dregur myntvæðing úr stöðugleika efnahags- og fjármálalífsins. Lögformleg upptaka evrunnar sem lögeyris er skynsamlegri lausn. Evran færir okkur hagræðið af alþjóðamynt og er þegar undirstaða mun meiri viðskipta en dollari eða pund. Væri sú tilhögun tengd ESB-aðild fylgdi því jafnframt meiri stöðugleiki.

Á meðan Evrópuþjóðir hafa tekið upp evruna til að eyða gengissveiflum á sameiginlegum markaði Evrópu og auka hagkvæmni og hagvöxt, hafa Íslendingar mátt glíma við hátt vaxtastig og sveiflukennt og hátt raungengi. Þróun gjaldeyrismála síðustu missiri hefur miðast við að draga úr þeim áhrifum. Fyrirtækjum hefur verið heimilað að færa reksturinn í erlenda mynt og viðskiptabankar bjóða nú íbúðarlán í erlendri mynt. Í kjölfarið hafa sum fyrirtæki tekið að greiða innlendan kostnað, þ.ám. launakostnað, í erlendri mynt.

Slík myntvæðing dregur úr gengisáhættu tengdri erlendum lántökum, en setur hlutverk lögeyrisins í uppnám. Peningar eru gjaldmiðill sem viðskipti byggjast á. Þeir eru líka mælieining sem gerir okkur kleift að bera saman verð á vöru og þjónustu. Að hafa einn lögeyri færir okkur þá hagkvæmni. Margar myntir í umferð samfara síbreytilegu gengi leiðir til þess að verðið er á fleygiferð. Það ruglar verðskyn fólks og dregur úr hagkvæmni í ráðstöfun verðmætanna.

Þá má benda á að þar sem nokkrar myntir keppa um hylli viðskiptaaðila, verður ein þeirra að lokum ráðandi. Aðrir sjá sér hag í að taka við þeirri mynt sem flestir nota. Vegna mikilvægis evrunnar yrði hún fljótlega allsráðandi hérlendis. Fjölmyntalausnin er því ekki skynsamleg lausn í sjálfu sér né sem leið að taka upp evruna.

Skynsamlegra er að taka evruna upp lögformlega. Reynsla smáríkja Suður-Ameríku af dollaravæðingu er að það hefur leitt til lægri vaxta og stöðugra verðlags vegna þess að gjaldmiðlaáhættan minnkaði og samkeppni í hagkerfinu jókst. Sú skipan hefur hins vegar ekki tryggt aðhald í opinberum fjármálum og mörg þeirra ríkja hafa lent á framfæri Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðsins vegna þess að þau réðu ekki við öran vöxt erlendra skuldbindinga. Ef óstjórn opinberra fjármála eða slakur árangur í erlendum viðskiptum er langvarandi getur slíkt fyrirkomulag aukið sveiflur í hagvexti.

Þá er myntsláttuhagnaði fórnað sem og getan til að nota sjálfstæða peningastjórn sem skammtímaaðgerð til að bregðast við innlendum eða erlendum áföllum. Síðara atriðið er kannski ofmetið þar sem langtímaáhrif sjálfstæðrar peningastjórnar á samkeppnisstöðuna eru hverfandi.

Myntvæðing er því engin töfralausn. Hún krefst mikilla kerfisbreytinga til að tryggja samkeppnisstöðuna og virks aðhalds í fjármálastjórninni til að tryggja stöðugleika. Þá er afar mikilvægt að gengið sé fest á réttu róli. Nú er gengi krónunnar líklega allt of hátt til að festa það varanlega sem undanfara upptöku evrunnar.

Lögformleg upptaka evrunnar sem lögeyris yrði skárri kostur en sjálfsprottin myntvæðing. Slík skipan varðveitir hagræðið af lögeyri og eykur sjálfbæran hagvöt til lengri tíma litið. Við þær aðstæður er fjármálastöðugleikinn samt alfarið háður árangri okkar í erlendum viðskiptum og fjármálum hins opinbera. Ákjósanlegra yrði að taka upp evruna með aðild að Evrópusambandinu og EMU þar sem fjármálastöðugleikinn yrði tryggður með tvíhliða samstarfi við Evrópska seðlabankann.

Þorsteinn Þorgeirsson skrifar um fjölmyntarkerfi

Höfundur er hagfræðingur SI

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.