Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands hefur undanfarið verið virk í útgáfustarfsemi.

Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands hefur undanfarið verið virk í útgáfustarfsemi. Í byrjun febrúar kom út fyrsta hefti (af vonandi mörgum) vísindatímarits í viðskiptafræði og hagfræði á vegum deildarinnar sem heitir Tímarit um viðskipti og efnahagsmál. Í því eru ritrýndar greinar og er markmiðið að auka þá þekkingu sem fyrir er í viðskipta- og efnahagsmálum. Útgáfan er tvískipt, fyrst eru greinar birtar á veraldarvefnum á slóðinni www.efnahagsmal.hi.is og í lok hvers árs er úrval greina tekið saman og útgefið í prentuðu formi. Í þessu fyrsta hefti eru sex greinar, þrjár á íslensku og þrjár á ensku, skemmtilegra væri að allar greinar væru birtar á íslensku.

Ein athyglisverð grein er eftir Stefán B. Gunnlaugsson. Titill greinarinnar er lýsandi fyrir efni hennar: Er samband á milli daga, mánaða, hátíða og ávöxtunar á íslenskum hlutabréfamarkaði? Í grein Stefáns er bent á að rannsóknir erlendis hafa sýnt fram á að samband er á milli ávöxtunar hlutabréfa og ákveðinna vikudaga. Meðaltalsávöxtun hlutabréfa er neikvæð á mánudögum en jákvæð aðra daga. Í því ljósi er því að öllu jöfnu vænlegast að fjárfesta í hlutabréfum í upphafi viku. Að mati Stefáns er hugsanleg skýring sú að neikvæðar fréttir frá fyrirtækjum koma oftar fram um helgar en aðra daga. Auk þess er algengt að arður sé greiddur út á mánudögum, en þar sem vísitölur taka almennt ekki tillit til arðgreiðslna virkar útgreiddur arður, og þar af leiðandi lægra gengi fyrirtækis, til lækkunar á hlutabréfavísitölu. Hin þekkti sjóðsstjóri, Peter Lynch, útskýrir þessa staðreynd með þeim hætti að fólk horfi oft á umræðuþætti um helgar þar sem fram koma neikvæð sjónarmið um almennar framtíðarhorfur, sem endurspeglast síðan í gengi hlutabréfa á mánudeginum. Niðurstaða Stefáns sýnir að ávöxtun íslenskra hlutabréfa er góð seinni hluta vikunnar og er ávöxtun hlutabréfa á föstudögum (hæst ávöxtun) áttföld sú ávöxtun sem greindist á þriðjudögum. Neikvæð ávöxtun á mánudögum kom hins vegar ekki fram í niðurstöðum Stefáns en skýring hans varðandi arðgreiðslur erlendis á ekki við um Ísland. Einnig eru áhrif fjölmiðla á verðbréfamarkaði á Íslandi hugsanlega önnur en erlendis.

Í greiningu um samband mánaða og ávöxtunar kemur fram að sterk söguleg tengsl séu fyrir hendi í Bandaríkjunum, en þar hefur ávöxtun í janúar verið sjöföld meðalávöxtun annarra mánaða ársins. Svipuð þróun hefur átt sér stað í flestum öðrum löndum þar sem skattur er lagður á söluhagnað. Stefán telur að það séu einmitt skattamál sem valdi þessu. Hlutabréf eru seld í desember til að innleysa tap sem lækkar skatta, aðeins til að vera aftur keypt í janúar. Önnur þekkt hugsanleg skýring sem aðrir fræðimenn hafa bent á er að fólk endurskoði gjarnan séreignalífeyrissjóði sína um áramót og breyti þá áherslum í fjárfestingarleiðum. Sjóðsstjórar halda að sér höndum síðustu vikur ársins þangað til gögn um slíkar breytingar komi fram og fjárfesti svo í upphafi þess næsta í samræmi við þær niðurstöður. Rannsóknir Stefáns, byggðar á tímabilinu janúar 1993 til maí 2003, sýna hins vegar að svokallaðra janúaráhrifa verður ekki vart á Íslandi, ávöxtun í þeim mánuði er afar nálægt meðaltali allra mánaða. Mikilvægasta niðurstaða rannsóknarinnar að mati Stefáns er að ekki var hægt að finna tölfræðilega marktækt samband á milli mánaða og ávöxtunar úrvalsvísitölunnar. Samkvæmt þessu er skilvirkni íslensks hlutabréfamarkaðar meiri í þessum skilningi en víðast annars staðar í heiminum. Eftirtektarvert er að tveir mánuðir veita að meðaltali hærri en 2% ávöxtun, mars og desember. Líkleg skýring fyrir góða ávöxtun í desember, sem Stefán gerir skil í tengslum við hátíðir, hefur verið tengd auknum hlutabréfafjárfestingum í þeim mánuði vegna skattaafsláttar fyrir hvert almanaksár, sem nú hefur lagst af. Áhugavert væri að rannsaka hvort sú góða ávöxtun sem hefur gefist í desember undanfarin ár viðhaldist eftir að skattahagræði vegna hlutabréfakaupa lagðist af. Jafnvel enn athyglisverðari í dag er sú góða ávöxtun sem mars hefur að meðaltali veitt í hlutabréfum, eða tæplega 2,5%, sem er um það bil tvöföld meðalávöxtun allra mánaða. Stefán eyðir ekki orðum í það en ekki er hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að gengi hlutabréfa hefur oft og tíðum risið hærra í undanfara aðalfunda hér á landi. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þeirri þróun næstkomandi ár. Helst hún áfram eða hefur umbreytingarskeið íslensks viðskiptalífs nú þegar náð því marki að það munstur dvíni?

Í grein Stefáns kemur fram að ávöxtun hlutabréfa hefur verið töluvert meiri á sumum svæðum dagana fyrir hátíðir en aðra daga ársins, en engin óvenjuleg marktæk ávöxtun hefur átt sér stað daginn eftir hátíð. Í Bandaríkjunum er til að mynda 50% af ársávöxtun Dow Jones-hlutabréfavísitölunnar dagana fyrir hátíðir en þetta á síður við um evrópska markaði. Niðurstaða Stefáns sýnir að svipuð leitni sé hérlendis, sérstaklega dagana fyrir áramót, nema hvað að á Íslandi er marktæk neikvæð ávöxtun eftir hátíðir. Auk umfjöllunar um áhrif skattaafsláttarins nefnir Stefán að uppgjör flestra íslenskra fyrirtækja, banka og lífeyrissjóða miðast einnig við áramót. Allir þessir aðilar hafa hag af því að gengi hlutabréfa sé hátt um áramót og því lítill söluþungi fyrir hendi síðustu daga ársins. Það mætti líka nefna þá skýringu að oft vilja verðbréfamiðlarar ganga frá "málum sínum" til að minnka áhyggjur varðandi vinnu áður en farið er í frí. Því er tilhneiging til að ganga að sölutilboðum frekar en að bíða áfram átekta í ákveðnum kaupum, sérstaklega verðbréfum sem lítil viðskipti eiga sér stað með.

Að tímasetja hlutabréfakaup með tilliti til ákveðinna daga hefur reynst erfitt í fortíðinni. Oft breytast munstur fortíðarinnar þegar síst skyldi og óvæntar niðursveiflur eiga sér stað þegar fortíðin gefur til kynna að árstíðin sé björt á þeim vettvangi. Ef til vill er einfaldara að hafa visku rithöfundarins Marks Twains í huga: "Október. Þetta er einn af hinum sérstaklega sérkennilegu mánuðum til að taka áhættu í hlutabréfum. Hinir eru júlí, janúar, september, apríl, nóvember, maí, mars, júní, desember, ágúst og febrúar."

mixa@sph.is